Monday, January 30, 2012

Falinn gullmoli

Þegar við heimsækjum London, sem er ansi oft, þá förum við alltaf á lítinn bændamarkað og finnum oft einhverja gullmola. Bims Kitchen er einn af þessum molum sem við fundum síðasta sumar og féllum algjörlega fyrir! Þetta er lítill framleiðandi sem býr til himneskar sósur, chutney og krydd. Úrvalið er sífellt að aukast og verða meira spennandi. Það besta við þennan framleiðanda er að hann sendir til Íslands fyrir afar lítinn pening (jafnvel frítt ef maður biður fallega). Ég mæli algjörlega með að þið prófið eitthvað að þessu, verðið er í fínu lagi og þetta er algjörlega þess virði. Okkar uppáhald er t.d. African coconut chutney og Spicy african ketchup. Þið getið allavega byrjað á því að "like" á facebook og fylgst með því sem hann Bim vinur minn er að gera. Hann elskar Daða minn og á það til að senda honum eitthvað auka þegar við höfum pantað :)
Tómatsósuna er í raun hægt að nota eins og venjulega tómatsósu, maður vill stundum fá smá auka kraft í tómatsósuna sína. Hún er líka rosalega góð í marineringar og t.d. er rosa gott að velta kjúklingabringum upp úr sósunni, raða í eldfast mót og steikja í ofni í 15 mín. Taka þær svo út og hella smá rjóma yfir og aftur inn í 10 mín. Algjört sælgæti!




Wednesday, January 25, 2012

Lasagne-einfalda útgáfan


Lasagne er "comfort food" fjölskyldunnar. Okkur finnst þetta öllum gott og börnin borða afar vel af þessu. Jafnvel hægt að koma ýmsu grænmeti ofan í þau sem venjulega þau snerta ekki :) Ég er svo sem ekkert að finna upp hjólið enda hver með sína aðferð og uppskrift við þennan fræga rétt. Ég geri í raun 2 mismunandi útgáfur, það er annars vegar þessi sem er "mánudags" útgáfan og svo aðra aðeins flóknari og langtum tímafrekari. Stundum baka ég upp hvítu Bechamel sósuna en oftast geri ég eins og í þessari uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur núna. Ég set svo pottþétt flóknu útfærsluna inn síðar, hún er algjört æði! Ég er farin að blanda svína- og nautahakki saman. Það er bæði ódýrara og svo komst ég að því að það er eiginlega betra en bara úr nautahakki! Hvítlaukurinn er smekksatriði, við elskum hann og notum því nóg af honum en hver og einn verður að finna þetta út fyrir sig.


Uppskriftin er fyrir ca.4

Kjötsósan
500 gr. hakk að eigin vali
2-3 sneiðar beikon, smátt saxað
2-4 hvítlauksrif, kramin eða fínt söxuð
1 laukur, smátt saxaður
2 gulrætur, smátt saxaðar
2 stilkar sellerí, smátt saxaðir
annað grænmeti ef vill, t.d. sveppir, brokkolí, kúrbítur, eggaldin....
kanill á hnífsoddi (jebb bara öööörlítið af honum gerir gæfumuninn)
2 dósir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 lítil dós tómatpúrra
kryddjurtir að eigin vali, ferskar eða þurrkaðar, ég blanda oftast saman steinselju, basil, rósmarín og salvíu. Stór handfylli af ferskum eða msk. af þurrkuðum
1 glas rauðvín (má sleppa)
salt og pipar og ef til vill smá nautakraftur (teningur)
1 tsk. sykur eða annað sætuefni, t.d. hunang

Steikið beikonið við rúmlega miðlungshita þar til það er orðið gullið á litinn. Bætið þá kanil út og í steikið áfram í stutta stund. Bætið þá öllu grænmetinu út í og leyfið því að taka smá lit, það getur tekið ca. 5 mínútur. Bætið þá kjötinu út í og brúnið vel og kryddið með salti og pipar. Hellið þá rauðvíninu út í og látið sjóða niður áður en þið bætið restinni af hráefnunum út í . Ef notaðar eru ferskar kryddjurtir myndi ég setja þær út í í restina, annars fara þær í pottinn núna. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla í a.m.k. háltíma en því lengur, því betra! Smakkið til með salti og pipar og nautakrafti ef þarf.
Á meðan þetta mallar í pottinum er hvíta sósan löguð.

Hvíta sósan
3 dósir sýrður rjómi
2-4 ansjósuflök (má sleppa en helst ekki)
1/2 stk. parmesan ostur rifinn
mjólk eða rjómi eftir þörfum
salt og pipar

Sýrðum rjóma og parmesan blandað í skál og ansjósurnar maukaðar saman við, þær leysast mjög auðveldlega upp. Mjólkinni bætt út í eftir þörfum þar til þykktin er ákjósanleg. Saltað og piprað eftir smekk.

Samsetningin er svo auðvitað ekkert mál. Lasagne blöð - kjötsósa - hvít sósa - lasagne blöð -  kjötsósa - hvít sósa..... Ég enda á hvítu sósunni og svo helling af rifnum osti ofan á. Blanda af Mozzarella og Parmesan er góð, þá fær maður fallegan gullin lit á matinn. Þetta fer svo í ofn á 180° í 20-30 mínútur. Tíminn getur verið misjafn en ef osturinn er farinn að brúnast of mikið en pastablöðin eru ekki tilbúin má setja lok eða álpappír ofan á. Látið réttinn standa í 5-10 mínútur áður en skorið er í hann. Þá draga blöðin í sig allan safann og þetta verður dásamlega gott. Svo er auðvitað eina vitið að borða með þessu gott salat og brauð og fá sér eitt gott ítalskt rauðvínsglas.

Thursday, January 19, 2012

Tilbrigði við Spaghetti Puttanesca

Spaghetti með túnfiski hljómar ekki eins vel er það? En það er nú það sem þetta er ! Einfalt, bragðmikið og gott. Tekur innan við hálftíma frá byrjun til enda. Gott brauð með þessu og málið dautt!



Uppskriftin er fyrir 4

2 dósir túnfiskur í olíu
2-4 flök ansjósur (ekki hræðast ansjósur)
2 hvítlauksrif, kramið eða fínt saxað
1 rautt chilli, fínt saxað
2 msk. capers
handfylli fersk steinselja, gróft söxuð
kanill á hnífsoddi
2 dósir hakkaðir tómatar eða tómat passata
spaghetti
10 svartar eða grænar ólífur, gróft saxaðar
Safi úr 1 sítrónu

Byrjið á því að setja vatn í pott og hitið að suðu. Hellið olíunni af túnfiskinum á pönnu og hitið á miðlungshita. Bætið ansjósunum og hvítlauk út í og leyfið því að malla smá stund. Bætið þá capers og kanil út í og hrærið aðeins í. Hellið túnfiskinum út í og brjótið hann aðeins upp. Bætið þá ólífunum og tómötunum út í og látið malla á meðan pastað sýður. Saltið pastavatnið og sjóðið spaghettiið eftir leiðbeiningum.
Hellið vatninu af pastanu en geymið smá af því til að þynna sósuna ef þess þarf.. Blandið pastanu saman við sósuna, krestið sítrónuna yfir og steinselju. Hugsanlega þarf að bæta salti pipar en smakkið þetta til áður.
Berið fram með rifnum parmesan og góðu brauði. Eitt sem mér finnst líka rosalega gott er að setja pastað á diskinn og dreypa smá af góðri ólífuolíu yfir, setur algjörlega punktinn yfir I-ið. En hún þarf að vera GÓÐ!

Saturday, January 14, 2012

Þjóðlegt og þægilegt


Íslenskt já takk!!! Ég verð að viðurkenna að við erum ekkert allt of dugleg að elda lambakjöt, en stundum tökum við okkur til og minnum okkur á það hvað íslenska lambakjötið er nú gott.
Lambabógur er ódýrt kjöt og ef það er eldað á réttan hátt er það svakalega meirt og gott. Best er að elda það í langan tíma við lágan hita eða þar til það hreinlega dettur af beinunum. Þægilegt að skella því í ofninn um miðjan sunnudag og þurfa svo ekkert að gera fyrr en lagt er á borðið!


1 lambabógur
1 lítri lambasoð (um það bil, fer eftir stærð frampartsins)
1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt
salt og pipar
rósmarín (þurrkað eða ferskt)
1 stór laukur
2 stilkar sellerí
gulrætur, kartöflur, rófur eða annað gott grænmeti sem til er í ísskápnum og passar vel með lambinu. Magnið fer eftir fjölda þess sem ætla að borða :)


Hitið ofninn á mesta mögulegan hita. Saltið og piprið kjötið og kryddið með rósmarín. Setjið það ofan í djúpt fat með loki eða álpappír yfir. Hellið soðinu meðfram, bætið lauk, hvítlauk og sellerí út í. Lokið á og beint inn í sjóðandi heitan ofninn. Lækkið strax hitann og leyfið kjötinu að malla á 130°-150° í 2 klukkutíma. Þá bætið þið niðurskornu rótargrænmetinu út í (ekki of smátt saxað) og látið malla áfram í ca.klukkustund. Ef vökvinn er orðinn lítill er hægt að bæta meira vatni út í. Kjötið er tilbúið þegar það dettur af beinunum, safaríkt og mjúkt! Tíminn getur verið breytilegur eftir þyngdinni á kjötinu. Við viljum auðvitað ekki að það verði þurrt en ef soðið er nægjanlegt og lokið á fatinu þá á það ekki að þorna.
Takið kjötið og grænmetið upp úr fatinu og berið fram með soðinu en það er líka auðvitað hægt að útbúa sósu úr því. Okkur finnst best að hella safanum bara beint yfir kjötið og ekkert að vesenast með sósuna.
Kraftmikill, einfaldur og góður sunnudagsréttur á köldum vetrardögum :)

Monday, January 9, 2012

Nice day for a white wedding


Cupcakes! Ég ELSKA cupcakes eða á íslensku Bollakökur! Það er svo gaman að baka þær og skreyta á ýmsa vegu. Hægt að virkja börnin og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. 

Ég gerði þessar hvítu glitrandi kökur fyrir brúðkaup á milli jóla og nýárs og þær slóu alveg í gegn! Uppskriftina fann ég upphaflega einhvers staðar á netinu en breytti henni aðeins, minnkaði þó aðallega sykurinn.... Það er svo gaman að gera svona rósir og þær eru fallegar á hvaða veisluborði sem er. Í þetta sinn gerði ég súkkulaðikökur að beiðni brúðhjónanna en mér persónulega finnst hvítar betri. Set kannski uppskrift af þeim hér inn við tækifæri.

Súkkulaði bollakökur
20-25 kökur

1 1/3 bolli hveiti
1/4 tsk. matarsódi
2 tsk. lyftiduft
1/2 bolli gott kakó
1-1 1/2 bolli sykur
1/4 tsk. salt
3 msk. mjúkt smjör
2 meðalstór egg
1 tsk. vanilludropar
1 bolli mjólk

Hitið ofninn á 175°. Þeytið saman smjör og sykur þar til það er vel uppleyst. Bætið einu og einu eggi út í í einu og þeytið áfram í 3-5 mínútur. Blandið þurrefnum, vanilludropum og mjólk saman við og hrærið varlega. Alls ekki hræra of mikið eftir að hveitið er komið út í.

Best er að eiga muffins form eins og t.d. svona 

Setjið pappírsformin í muffins formið og setjið ca. matskeið í hvert form. Þegar kökurnar eru tilbúnar eiga þær að ná ca. upp á brún pappírsformsins. Bakið í 13-15 mínútur (á blæstri, lengur ef það er ekki blástur). Takið kökurnar út og leyfið þeim að kólna áður en kreminu er sprautað á.


Smjörkrem

250 gr. mjúkt smjör en ekki alveg lint
2 msk. mjólk
2 tsk. vanilludropar (má líka nota aðra bragðtegund)
1 pakki flórsykur, ég nota þennan hérna:
Þeytið smjörið þar til það er farið að verða pínu hvítara á litinn. Bætið flórsykri út í og þeytið áfram stutta stund. Bætið vanilludropum út í og mjólk eftir þörfum, ég set ca. 2 matskeiðar. Bætið matarlit út í ef þið viljið. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið að vild og skreytið eftir eigin ímyndunarafli. 

Hér eru þessar fínu hvítu rósir allar á leiðinni í brúðkaup!





Saturday, January 7, 2012

Sítrónurisotto

Jæja jæja.... áramótaheitið um þessi áramót: Vera duglegri að setja eitthvað sniðugt hérna inn. Og nú kemur fyrsta uppskrift ársins 2012, Sítrónurisotto! Við erum svolítið risotto fólk, þetta er einfaldur matur og hægt að bragðbæta á svo marga vegu. Við gerum oftast með sveppum og þá helst villisveppum en einfalt sítrónurisotto er sérstaklega gott með t.d. steiktum silungi eða kjúklingi eða bara eitt og sér með salati og góðu brauði. Í þetta sinn var ég með kjúklingabringur. Þetta er matur sem gott er að bjóða gestum upp á þegar maður hefur ekki langan tíma því þetta þarfnast ekki undirbúnings allan daginn. Þetta tekur ca. háltíma frá byrjun til enda. Gæti ekki verið einfaldara! En það þarf að standa við pottinn allan tímann á meðan risottoið mallar.... en það er bara kósí og hægt að spjalla við gestina á meðan :)



uppskriftin er fyrir 4

Risotto
1 lítri kjúklingasoð (má vera grænmetissoð)
4 skarlottu laukar (má nota venjulegan lauk) fínt saxaðir
3 stilkar sellerí, fínt saxað
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
salt og pipar
smjör og ólífuolía til steikingar
400 gr. risotto grjón (aborio grjón)
1 lítið glas hvítvín (má vera soð)
70 gr. smjör
100 gr. ferskur rifinn parmesan
safi og fínt rifinn börkur af einni sítrónu
lítil handfylli steinselja smátt söxuð

Kjúklingabringur
4 bringur
salt og pipar
hlynsíróp
olía til steikingar


Byrjið á því að stilla ofninn á 200°. Brúnið kjúklinginn á pönnu og kryddið með salti og pipar. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast á báðum hliðum, hellið þá smá hlynsírópi yfir og skellið í ofninn í 15-20 mínútur. Alls ekki ofelda bringurnar!
Á meðan bringurnar malla í ofninum er risottoið lagað. Hitið smjör og olíu á pönnu og steikið lauk, hvítlauk og sellerí á miðlungshita í 3-4 mínútur. Hækkið hitann og skellið hrísgrjónunum útí. Hrærið stanslaust í grjónunum í 2-3 mínútur. Bætið víninu út í og látið það sjóða niður. Lækkið niður í lágan til miðlungshita og byrjið að ausa heitu kjúklingasoðinu út í, einni ausu í einu og leyfið þeirri fyrri að sjóða niður að mestu áður en sú næsta er sett út í. Svo er bara að halda áfram að ausa þar til risottoið er tilbúið, það á að vera "al dente" eða mjúkt að utan en smá stinnt að innan, ekki mauksoðið eins og grónagrautur. Þegar síðasta ausan af soðinu er sett út í fer börkurinn og safinn úr sítrónunni út í líka. Byrjið á safa úr hálfri sítrónu og smakkið ykkur áfram, þetta á ekki að vera súrt heldur bara gott sítrónubragð.
Þegar grjónin eru tilbúin smakkið þau til með smá (bara smá) salti og pipar og svo eru þau tekin af hellunni, smjörinu, steinseljunni og parmesan ostinum hrært varlega saman við og borið strax fram. Það er ekki gott að láta þetta standa lengi eftir að það er tilbúið.
Skerið nú bringurnar niður í þunnar sneiðar og berið fram með risottoinu. Það er líka tilvalið að bera fram gott grænt salat og jafnvel ítalskt brauð með þessum rétti.



Góð byrjun á góðu ári held ég bara :)