Saturday, July 7, 2012

Blóðberg

Sumarið er tíminn! Tíminn til að tína þessa dásamlegu jurt sem Blóðbergið er.

Lilja Bríet hefur staðið sig vel í Blóðbergstínslu


Fyrir utan bragðkostina er heilsufarslegur ávinningur Blóðbergsins ótrúlega mikill. Blóðberg er hægt að nota í matargerð og augljóst mál að nota það með íslenska villta lambakjötinu sem nú þegar hefur örugglega gætt sér á því á fjallaferðum sínum. Blóðberg og fiskur, sérstaklega villtur vatnafiskur er fullkomið par og passar það líka vel með kjúklingi. Hvernig væri ef hvítlaukur myndi bjóða Blóðbergi upp í dans? Algjörlega frábært danspar :)
Einfalt er jú auðvitað að útbúa te/seiði úr jurtinni og bæði fullorðnir og börn vilja gæða sér á því í sumarbústaðnum eða útilegu :) Til að bæta enn hollustuna væri tilvalið að sæta það með ögn af Manuka hunangi sem er frábært t.d. fyrir þá sem þjást af frjókornaofnæmi.

Manuka hunang fæst í heilsuverslunum


Blóðbergið er frábært við kvefi og slími í öndunarfærum og bæði hægt að drekka það eða anda að sér heitri gufunni. Það er gott við meltingarfærasjúkdómum og bólgum í meltingarfærum. Það er hægt að nota það í bakstra til að lina verki í liðum og vöðvum eða útbúa úr því olíu til að nota í baðið. Kostir þessarar frábæru jurtar sem vex villt út um allt land eru óteljandi og frábært að virkja alla fjölskylduna í það að tína út um mela og móa.... :) Lítið mál er að þurrka jurtina og geyma allan veturinn. Allir út að tína Blóðberg!!!