Sunday, September 30, 2012

Bláberjamarinerað lambalæri með Bernaise

Dásamlegt!


Íslenska lambakjötið er SVO gott! Stundum gerir maður eitthvað einfalt sem klikkar aldrei eins og að krydda með hvítlauk og rósmarín en stundum gerist maður ævintýragjarn og breytir út af vananum. Og það gerði ég í kvöld. Bernaise sósan klikkar náttúrulega aldrei og hægt að borða hana með skeið! Hins vegar hefði alveg verið hægt að sleppa henni og blanda smá lambasoði út í pottinn og hræra upp í soðinu af kjötinu, bragðast eins og besta bbq sósa.

Uppskriftin er fyrir 4-6

1 lambalæri u.þ.b. 2 kg.
2 dl. bláber (ég notaði frosin en það hefði alveg eins getað verið fersk)
2 msk. hunang
2 stilkar rósmarín
4 stilkar timjan, laufin týnd af
4 hvítlauksrif
salt og pipar
olía

Maukið saman bláber, kryddjurtir, hunang og hvítlauk. Mér finnst best að nota mortél en þið notið bara þá aðferð sem þið kjósið. Ekki murka allt lífið úr bláberjunum, það er allt í lagi þó sum séu ekki alveg í mauki. Og það sama gildir um hvítlaukinn, ekkert vera að hafa áhyggjur af því þó eitthvað af honum sé ekki í öreindum. Kryddið með salti og pipar.

Íslensku bláberin er svo falleg


Setjið smá olíu í botninn á stóru eldföstu móti eða potti sem hægt er að loka. Setjið lambalærið þar ofan í og smyrjið marineringunni utan á. Látið marinerast eins lengi og þið viljið, allt frá hálftíma til yfir nótt.

Lærið orðið fallega berjablátt


Skellið síðan fatinu með loki á inn í 220° heitan ofn og eldið í 15 mínútur. Lækkið hitann í 180° og eldið áfram í u.þ.b. klukkustund. Tíminn fer auðvitað eftir stærðinni á lærinu og því hvernig þið viljið hafa kjötið. Við viljum hafa það bleikt, ekki hrátt og ekki alveg í gegn, bara þetta klassísa "medium". Á meðan kjötið eldast er gott að ausa öðru hvoru marineringunni yfir það til að fá góðan gljáa á það. Ef það er ekki mikið aukalega sem hefur lekið af er hægt að setja pínulítið vatn eða rauðvín til að skafa upp af botninum og sulla svolítið yfir lærið.

Berin búin að brúnast vel og lærið orðið safaríkt


Kartöfugratín

1 sæt kartafla
nokkrar venjulegar kartöflur
500 ml. rjómi
1/2 laukur
salt
rifinn ostur




Setjið smá olíu í botninn á eldföstu móti. Skerið kartöflur og sætar kartöflur í 1/2 cm. þykkar sneiðar og raðið til skiptis í mótið. Setjið þunnar sneiðar af lauk og smá salt á milli laganna. Hellið rjóma yfir og rifinn ost yfir allt saman. Smellið í ofninn með lambinu og eldið í 30 til 40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullinn og fallegur. Ef osturinn er farinn að brúnast of mikið áður en kartöflurnar eru eldaðar er ekkert mál að smella smá álpappír yfir.




Bernaise

250 gr. smjör
4-5 eggjarauður eftir stærð
1 msk. bernaise essence (heimatilbúinn eða úr flösku... ég nennti ekki að gera sjálf núna en það ER betra)
U.þ.b. 1 msk. Estragon, helst ferskt
1/4-1/2 kjúklingateningur

Bræðið smjörið í potti ásamt Estragoninu og kælið. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði og hellið smjörinu saman við í mjórri bunu og þeytið stanslaust í á meðan. Alls ekki leyfa sósunni að hitna of mikið. Ef þið eruð óörugg með að hita yfir vantsbaði þá má þeyta eggjarauðurnar í hrærivél og hella smjörinu þar út í.  Bætið einni msk. af essence út í og þeytið áfram. Smakkið til með kjúklingakraftinum. E.t.v. er gott að leysa teninginn upp í smjörinu. Það má líka sleppa teningnum og nota bara salt.

Með þessu borðar maður svo ekki salat ;) Það má alveg hafa það bara í forrétt en þetta er best svona, kjöt, kartöflur og sósa.... Namm!

Með þessu er svo ávaxtaríkt rauðvín mjög viðeigandi. T.d. ÞETTA.

Sunday, September 9, 2012

Kókoskjúklingur með sætkartöflusalati



Þessi réttur er svo rosalega góður að eiginmaðurinn segir hann klárlega tróna í efsta sæti yfir bestu kjúklingarétti EVER! Sætu kartöflurnar passa líka einstaklega vel með honum og engin sósa nauðsynleg með þessum dásemdum. Frábær réttur til að bera fram í matarboði og mun án efa slá í gegn! Ég gerði líka með þessu venjulegar kartöflur því börnin eru ekkert sérstaklega hrifin af sætu kartöflunum. Og það besta er að þetta er hollt og gott :)


Rétturinn er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur
3 msk. kókosmjöl
3 msk. saxaðar möndlur
1 msk. fiskisósa
1/2 dl. ólífuolía
3 msk. sítrónusafi
handfylli ferskt kóriander, saxað
2 msk. gott fljótandi hunang
1 tsk. turmerik
2 hvítlauksrif, kramin eða rifin
salt og pipar

Byrjið á því að klippa hrygginn úr kjúklingnum þannig að hann fletjist auðveldlega út. 




Blandið öllu saman sem á að fara í marineringuna og smyrjið því á kjúklinginn.




Leyfið þessu að marinerast í a.m.k. klukkustund. Hitið ofninn í 180° og eldið neðarlega í 40-50 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er safaríkur og algjörlega tilbúinn. Ef ykkur finnst hann vera farinn að brúnast of mikið er ekkert mál að skella smá álpappír eða loki yfir hann. Ég mæli með því að skafa alla marineringuna sem verður eftir í botninum, þið viljið ekki missa af neinu af góðgætinu!



Sætkartöflusalat
1 stór sæt kartafla
2 cm. bútur af blaðlauk, smátt saxaðir
3 msk. rúsínur
50 gr. pecan hnetur
lítil handfylli söxuð steinselja
lítil handfylli saxað kóriander
1 lítið þurrkað chilli, mulið í mortéli

Sósan
4 msk. ólífuolía
2 msk. gott fljótandi hunang
1 msk. balsamik edik
1 msk. sítrónusafi
2 msk. appelsínusafi
2 cm. bútur af engifer, fínt rifið
1/2 tsk. kanill
pínu salt

Skerið sætu kartöflurnar í ca. munnbita og setjið á ofnplötu með ólífuolíu, salti og pipar. Bakið við 180° í 30 mínútur. Blandið öllu sem á að fara í sósuna og hellið henni yfir kartöflurnar þegar þær koma blússandi heitar út úr ofninum. Bætið hinu hráefninu saman við og berið fram volgt.



Fyrir krakkagormana sem eru ekki mikið fyrir sætar kartöfur þá gerði ég afar einfaldar kartöflur sem "amma London" gerir stundum fyrir þau og þau borða alltaf vel af þeim. Þið einfaldlega sjóðið kartöflur, setjið í skál og á meðan þær eru ennþá heitar þá setjið þið smávegis af íslensku smjöri og saxaðri mintu yfir. Tilbúið!



Saturday, September 8, 2012

Hreindýrabollur

Við hjónin keyptum slatta af dásamlegu hreindýrakjöti og þar á meðal fallegasta hakk sem ég hef séð! Algjörlega fitusnautt, lífrænt, "free range", grasbítandi, frábært kjöt! Ekki hægt að fá það betra! Fyrsta máltíðin sem matreidd var voru hreindýrabollur. Meðlætið var svo bara einfalt, sæt kartöflumús, sósa og sulta. Ekkert grænmeti sem skyggði á bollurnar góðu! Því miður náðist ekki að mynda bollurnar... þær runnu allt of hratt niður hjá okkur.... Það kemur vonandi ekki að sök.

Uppskriftin er fyrir 4-6

800 gr. Hreindýrahakk
1 dl. mjólk
2 egg
6 msk. brauðrasp
5 einiber, kramin í mortéli
nokkrar greinar af timjan
1 grein af rósmarín
2 msk. Teryaki sósa
salt og pipar
smjör og olía til steikingar

Setjið kjötið í skál, blandið öllu saman við og kryddið með salti og pipar. Passið bara saltið því Teryaki sósan er sölt. Ef blandan er of blaut setjið þið meiri rasp en ef það er of þurrt þá setjið þið mjólk. Ef ekki er til Teryaki sósa má auðveldlega skipta henni út fyrir soya sósu eða tamarind sósu. Þær gera allar svipað bragð. Ég bý til bollur á stærð við borðtenniskúlur en hver og einn gerir bara eins stórar og hann vill. Brúnið bollurnar upp úr blöndu af smjöri og olíu. Olíuna set ég til að smjörið brenni síður og geri það alltaf þegar ég steiki upp úr smjöri. Þegar bollurnar hafa brúnast takið þær af og setjið inn í 180° ofn í 10 mínútur eða þar til bollurnar hafa eldast alveg í gegn.

Sósan
Hellið sjóðandi vatni (ca. hálfum lítra) á pönnuna sem bollurnar voru steiktar á til að fá allan kraftinn úr þeim. Setjið nauta- eða villikraft út í, eina matskeið af rifsberjasultu og eina matskeið af smjöri út í og leyfið að malla stutta stund. Smakkið til með kraftinum og sultunni. Mér finnst gott að hafa hana svolítið sæta. Þykkið með maizena mjöli eða þeim sósujafnara sem þið viljið.

Með þessu bara ég svo fram kartöflumús sem er afar einföld. Sjóðið sætar kartöflur, stappið með smjöri, pipar og kanil. Tilbúið! Og svo varð að vera smá rifsberjasulta líka.

Þið megið svo  bíða spennt eftir fleiri hreindýrauppskriftum, nóg er af því í frystinum :)