Friday, April 27, 2012

Osso buco

Osso buco er klassískur ítalskur réttur og gróflega þýðir hann hola í beininu.... Hann er ýmist eldaður úr nautakjöti eða kálfakjöti, ég notaði naut. Þegar kjötið er eldað bráðnar mergurinn innan úr beininu og þá myndast holan. Þetta er súper einfalt, ekki mörg hráefni og kjötið er á fínu verði. En þetta tekur frekar langan tíma að elda svo byrjið snemma að deginum og gleymið þessu svo þar til finna þarf til meðlæti og fá sér að snæða.




Svona lítur kjötið út, stór og góð sneið 



Uppskriftin er fyrir 2 svanga en mjög auðvelt að breyta henni, bara auka aðeins allt hráefnið nema kannski kjúklingsoðið.


2 sneiðar Osso buco
salt og pipar
olía til steikinga
2 gulrætur
1 lítill laukur
2 stilkar sellerí
5 hvítlauksrif
1 stilkur rósmarín, smátt saxað
2-3 stilkar timjan, laufin týnd af stilknum
1 lárviðarlauf
1 dós heilir tómatar
1/2 glas hvítvín
1/2 lítri kjúklingasoð


Hitið olíu í stórum potti og brúnið kjötið á báðum hliðum. Kryddið með salti og pipar. Takið kjötið úr pottinum og steikið grænmetið í 3-5 mínútur. Bætið þá kjötinu aftur útí og hvítíninu. Leyfið víninu að sjóða aðeins niður og bætið svo við restinni af hráefninu. Setjið lokið á og látið malla annað hvort á vægum hita á eldavélinni eða setjið pottinn inn í 180-200° heitan ofn í um það bil 2 klukkustundir eða þar til kjötið er orðið svo meirt að það hreinlega dettur a beininu. Smakkið til með salti og pipar. 
Á Ítalíu eða hefðin að bera fram með þessu risotto eða jafnvel polentu en við vorum með Quinoa fræ og það passar mjög vel saman. Quinoa fræin eru líka svo holl eins og ég skrifaði um fyrir stuttu síðan.
Svo dugir ekkert annað en gott ítalskt rauðvín eins og þetta með svona kraftmiklum rétti!



Wednesday, April 11, 2012

Austurlenskur kjúklingur

Eftir súkkulaðiát páskanna er tilvalið að fá sér eitthvað aðeins léttara og vona að buxnastrengurinn víkki aftur smátt og smátt.... :)
Ég er svo heppin að eiga tengdamóður sem er algjör snillingur í eldhúsinu og ég fékk svo góðan kjúklingarétt hjá henni þegar ég skellti mér í húsmæðraorlof til hennar fyrr í vetur. Ég reyndi svo að herma og gera eitthvað svipað og þetta er útkoman. Hann er ekki alveg eins en mjög góður engu að síður. Hægt er að stjórna "hitanum" með því að setja meira eða minna af chilli-inu, og hann er góður bæði mildur og sterkur.



Rétturinn er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur bútaður niður eða sambærilegt magn af kjúklingabitum
salt og pipar
olía til steikinga (ég nota kókosolíu)

Brúna kjúklingabitana á heitri pönnu og krydda með salti og pipar. Takið kjúklinginn af og raðið í eldfast mót sem má fara í ofn.

Setjið eftirfarandi hráefni í matvinnsluvél eða blandara og maukið vel:
2 stilkar sítrónugras
góður bútur af engifer
1/2-1 rautt chilli
2 msk. fiskisósa
4 msk. soyja sósa
3 hvítlauksrif
safi og börkur af 1 lime
1 tómatur
1 lítill rauðlaukur


Hellið þessu svo á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á (ekki skola á milli) og látið malla stutta stund, ca. 5 mínútur á vægum hita.
Hellið einni dós af kókosmjólk út í, smakkið til með soyja og fiskisósu og lime safa ef þarf. Hellið þessu yfir kjúklinginn og smellið öllu í 180-200° heitan ofn í ca. 20 mínútur eða þar til sósan hefur soðið svolítið niður og kjúklingurinn orðinn safaríkur og góður. Stáið handfylli af fersku kóriander yfir. (steinselja sleppur í neyð) Berið þetta fram með hrísgrjónum (cous cous, bygg eða quinoa er líka snilld með þessu) og salati. Það er líka rosa gott að hafa góð chutney eða eitthvað slíkt með. Ef ykkur finnst þetta ekki nóg sósa er hægt að auka magnið af flestum hráefnum, 1 tómatur í viðbót eða eitthvað í þá áttina.

Wednesday, April 4, 2012

Kalkúnabringa í sparifötum



Þetta er rosalega góð spari uppskrift og tilvalin á Páskunum. Margir mikla fyrir sér að elda heilan kalkún og ég er þar alveg sammála. Svo finnst mér heill kalkúnn ekki endilega svo góður.... finnst gamli góði kjúllinn jafnvel bara betri. En þessi uppskrift er upphaflega frá Jamie Oliver eins og svo margar aðrar sem ég geri en ég breytti henni aðeins og aðlagaði að mínum þörfum og bragðlaukum :) Myndin er hins vegar stolin frá Jamie vegna þess að þegar fattaðist að taka mynd af steikinni þá leit hún ekki alveg eins vel út og þessi....

Takið ykkur tíma, þetta er sparimatur og hann tekur alltaf smá stund í undirbúningi og allt í lagi að leyfa sér svoleiðis um hátíðarnar :)


Uppskriftin passar fyrir eina stóra kalkúnabringu sem myndi duga fyrir 6 fullorðna hugsa ég.

Safi og rifinn börkur af tveimur mandarínum (má nota appelsínu)
4 negulnaglar
2 kanilstangir
1 góð matskeið sykur
225 gr. þurrkuð trönuber

1 kalkúnabringa
Salt og pipar
ólífuolía
½ búnt Timjan (má vera þurrkað)
Börkur af einni sítrónu
1 pakki smjördeig (ég keypti eitthvað íslenskt sem var búið að fletja smá út, frosið)
1 egg pískað með smá mjólk
2 rósmarín greinar

25 gr. þurrkaðir sveppir
8 sneiðar bacon, saxaðar
½ búnt Timjan (má vera þurrkað)
6 hvítlauksrif, kramin
10 salvíulauf
2 stórir laukar, fínt saxaðir (ég nota rauðlauk)
2 öskjur sveppir, saxaðir
Smá hvítvín, bara rétt til að losa maukið
20 gr. smjör


Hitið ofninn í 180. Setjið mandarínusafa og börk, kanilstangir, negulnagla og sykur í pott og látið malla við vægan hita í 3-4 mínútur og takið síðan negulnaglana og kanilstangirnar úr. Bætið trönuberjunum út í og látið malla þar til berin eru farin að draga í sig vökvann. Slökkvið þá undir og leyfið þessu að kólna. Maukið þetta lítillega í matvinnsluvél eða með töfrasprota, mér finnst töfrasprotinn betri því þá getur maður haft þetta aðeins grófara.
Skerið eftir endilangri bringunni þannig að hún verði eins og fiðrildi, s.s. eins og þið séuð að skera í pylsubrauð (vona að ég sé að gera mig skiljanlega) Saltið og piprið og setjið smá ólífuolíu líka. Smyrjið trönuberjamaukinu á bringuna og helmingnum af timjaninu. Lokið bringunni aftur. Það er hægt að setja tannstöngla eða eitthvað þess háttar til að loka en mér fannst það óþarfi, það lak ekkert út fyrir. Kryddið bringuna að utanverðu með salti og pipar og rifinum sítrónuberki og restinni af timjaninu (ath. það kemur tvisvar í uppskriftinni, ½ búnt í hvort skipti, þetta er fyrra búntið). Hellið smá ólífuolíu yfir, setjið inn í ofn á 180° í ca. klukkutíma.
Leggið sveppina í bleyti (eftir leiðbeiningum á pakka). Steikið bacon og timjan (þetta er seinna búntið) í smá olíu á pönnu á miðlungs hita í 5-10 mínútur eða þar til baconið hefur tekið smá lit. Takið af pönnunni. Bætið hvítlauknum, salvíunni, lauknum og sveppunum á pönnuna og steikið í 15-20 mínútur. Hellið smá slurk af hvítvíni (hálft glas kannski, má líka vera vatn) og látið það sjóða niður. Hrærið smjörið saman við og smakkið til með salti og pipar en farið varlega í saltið, baconið og smjörið er salt og svo er líka salt á kjötinu. Maukið gróflega með töfrasprota eða matvinnsluvél. Látið kólna.
Þegar bringan er elduð og hefur kólnað aðeins þarf að setja þetta allt saman. Fletjið út deigið í tvennu lagi (oftast eru 2 plötur í pökkunum). Þetta má ekki vera of þunnt svo það rifni ekki en vera nógu stórt til að það nái utan um kjötið og hægt að pakka því vel inn. Smyrjið sveppamaukinu á annan hlutann af deiginu. Leggið bringuna þar ofan á og meira sveppamauk ofan á. Skiljið smá eftir af maukinu fyrir sósuna. Pakkið bringunni vel inn og kremjið samskeytin svo það leki örugglega ekkert út fyrir. Það er líka gott að rúlla upp á samskeytin. Það er allt í lagi þó það sé svolítið mikið deig, það er rosa gott að borða það með! Penslið með eggja-mjólkurblöndunni og bakið í ofninum í ca. 50 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið og fallegt. Hafið á neðstu hillunni í ofninum svo toppurinn brenni ekki. Þegar ca. 20 mínútur eru eftir penslið með smá olíu og stráið rósmarín yfir. Látið standa í 10 mínútur áður en þið skerið í það. Þá helst allur safinn inní og þetta verður djúsí steik :)
Hitið restina af sveppamaukinu, bætið við góðu kalkúnasoði og smá rjóma til að gera sósuna. Smakkið til með soði, salti og pipar.