Thursday, June 13, 2013

Ávaxtabaka

Nú er tími rabarbarans og um að gera að nýta hann í eitthvað gómsætt. Ég fékk foreldrana í mat fyrir nokkrum dögum og pabbi gamli verður að fá sinn eftirmat! Þau komu með rabarbara úr garðinum með sér og ég skellti í afar einfalda böku eða "crumble" eins og það heitir á ensku. Fljótlegt og einfalt og hægt að nota alls konar ávexti og ber.

Græðgin bar okkur ofurliði og það náðist ekki mynd fyrr en bakan var nærri búin!



uppskriftin dugar í eitt miðlungsstórt eldfast mót

2 epli
4 rabarbarar
2 dl. bláber (ég notaði frosin íslensk frá því í fyrrahaust)
2 msk. kanilsykur
150 gr. kalt smjör í bitum
150 gr. sykur
150 gr. hveiti

Byrjið á því að skera ávextina í bita og raða í botninn á eldföstu móti. Stráið kanilsykri yfir og ef þið eigið hreint vanilluduft þá er það líka mjög gott með. Blandið saman hveiti, sykri og smjöri og myljið á milli fingranna þar til að fer að líkjast brauðrasp. Stráið því yfir ávextina og bakið í 180° heitum ofninum í 20-30 mínútur eða þar til ávextirnir bubba af fullum krafti og deigið hefur fengið fallegan gullinn lit. Berið fram með góðum vanilluís eða léttþeyttum rjóma.

Sunday, June 9, 2013

Grillaður maís


Ég fékk þessa flottu maís stöngla í Bónus og varð bara að kaupa þá! Ferskur maís er svo góður að meira að segja þeir sem segjast ekki borða hann geta ekki hætt! Ég er ekki hrifin af Ora maís í dós, finnst hann satt að segja hræðilega vondur en ferskur grillaður maís er eins og sælgæti! Og svo einfalt og þarf ekki mikið til að hann sé alveg dásamlegur. Það eina sem þarf er smá olía og smá smjör. 

Byrjið á því að leggja maísinn í kalt vatn í 10-15 mínútur. Þannig draga blöðin í sig vatnið, brenna síður og kornið innan í soðnar almennilega. Takið stönglanna úr vatninu og veltið upp úr smá olíu til að þeir festist síður við grillið. Grillið á miðlungsheitu grillinu í 15-20 mínútur og snúið reglulega. Takið af grillinu og um leið og þið getið höndlað stönglana takið þið utan af þeim blöðin og skerið kornið af. Setjið í skál og smá smjör klípur hér og þar og berið fram með uppáhalds grillmatnum ykkar. Ég var með grillaða Blálöngu og kartöflumús og þetta passaði mjög vel með því!

Skotheld leið við að taka kornið af stönglinum. Setjið skál á hvolf ofan í stærri skál og skerið utan af.

Leyfið smjörinu að bráðna og leka um kornið




Wednesday, June 5, 2013

Einfalt sjávarréttapasta

Ég er svo heppin að eiga góða að og einn af þeim er Bergþór bróðir minn sem gefur mér stundum ferskan fisk. Í þetta sinn gaf hann mér heilan helling af stórum og góðum rækjum sem maður týmir alls ekki að setja í rækjusalat heldur verður að gera eitthvað aðeins betra :) Eitt af því sem er hægt að gera og er afar fljótlegt er t.d. sjávarréttasúpa eða eins og ég gerði, pasta. Þetta tók ekki langan tíma og var sannarlega ljúffengt!

Svo fallega litríkt og girnilegt :)


uppskriftin er fyrir 4

ólífuolía til steikingar
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
6 sveppir
8 tómatar
1 dl. hvítvín
1 msk. tómatpúrra
200 gr. rækjur eða annar stífur fiskur
salt og pipar
stór handfylli ferskt basil
spaghetti
ferskur parmesan


Byrjið á því að saxa allt grænmetið og steikja í olíu á pönnu. Þegar það er orðið mjúkt bætið þá tómatpúrrunni og smátt skornum tómötunum út í ásamt hvítvíninu. Kryddið með salti og pipar og leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur. Á meðan þetta mallar sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á umbúðum, "al dente" er málið :) Þegar pastað er soðið, hellið vatninu af en geymið smávegis af því ef það þarf að bæta út í sósuna. Þegar sósan er tilbún bætið rækjunum út í og gróft söxuðu basil og leyfið að malla í örstutta stund. Rækjurnar þarf ekki að elda heldur bara að hita í gegn. Blandið pastanu saman við og ef ykkur finnst þurfa meiri vökva þá bætið þið smá pastavatni út í. Berið fram með rifnum parmesan og góðu brauði. Og fyrst þið eruð búin að opna hvítvín í sósuna er um að gera að hella restinni í glösin og njóta í góðum félagsskap :)