Tuesday, September 27, 2011

Haustsúpa

Nú þegar haustið er komið með öllum sínum fallegu litum og kvöldmyrki er fátt betra en að kveikja á kertum, leggja fallega á borð og gera vel við sig. Fá sér holla og góða súpu, brakandi ferskt brauð og frísklegt hvítvínsglas :)
Þessi súpa er holl og góð og sérlega góð til að koma grænmeti ofan í krakkana. Uppskriftin er fyrir ca. 6


Kókosolía til steikingar (má vera ólífuolía)
1 stór laukur
2 stilkar sellerí
3 gulrætur
2 hvítlauksgeirar
4 sveppir
1/2 lítil sæt kartafla
1/2 rauð paprika
1/2 lítill brokkolíhaus
smá bútur af kúrbít
2 stilkar ferskt rósmarín
2 dósir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
góður grænmetiskraftur
1 lítri vatn
salt og pipar eftir smekk
Handfylli ferskt basil eða steinselja


Svo dásamlega litríkt og fallegt!
Saxið allt grænmetið í frekar smáa bita. Steikið lauk, hvítlauk, sellerí og gulrætur í 2-3 mínútur eða þar til grænmetið er farið að mýkjast og taka smá lit. Setjið þá allt hitt grænmetið út í og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið þá allt nema basil/steinselju. Látið malla í 20-30 mínútur á lágum hita. Takið súpuna af hitanum og maukið í blandara/matvinnsluvél eða með töfrasprota og smakkið til með salti og pipar og grænmetiskrafti ef þarf. Stráið basil eða steinselju yfir og berið strax fram. Það er einnig hægt að sleppa því að mauka súpuna en það hefur virkað betur að mauka hana því þá sjá börnin ekki allt sem er í súpunni og borða því meira af henni.

Saturday, September 24, 2011

Jamie talks dirty

Flestir sem þekkja mig vita að Jamie Oliver er uppáhaldið! Varð því að pósta þessu myndbandi af honum sem hefur verið klippt saman á hrikalega skemmtilegan hátt. Ég bókstaflega grét úr hlátri!

Friday, September 23, 2011

Kjúklinga curry

Fyrsti rétturinn kominn á blað! Ég er mjög hrifin af kjúklingi og hann er alltaf borðaður vel af heimilisfólkinu. Einfalt og þægilegt að grípa í og hægt að gera svo ótal margt við.

Þessi réttur er mjög einfaldur, hægt að skipta grænmetinu sem ég nota út fyrir það sem er til í ísskápnum hverju sinni. Það er líka rosalega gott að sleppa kjúklingnum og hafa bara grænmeti eða setja risarækjur í staðinn ef maður vill vera extra góður og jafnvel bjóða í mat!
Ég nota mikið kókosolíu til að steikja upp úr því hún er hitaþolin og góð. Ef maður finnur góða kókosolíu þá finnur maður hvorki lykt né bragð af henni. Það má setja smá jógúrt eða rjóma út í til að mýkja réttinn aðeins en ég gerði það ekki núna. Uppskriftin er fyrir ca. 4



Kókosolía til steikingar (má vera önnur olía)
3 kjúklingabringur
1 meðastór laukur
3 sveppir
2 sellerístönglar
1 lítill haus brokkolí
2 meðalstórar gulrætur
nokkrar strengjabaunir
1/2 ferskt chilli
4 hvítlauksrif, fínt söxuð (já ég elska hvítlauk)
1 dós kókosmjólk
2 msk. Pataks curry paste
1 msk. karrý
2 tsk. paprika
1 tsk. turmerik
1 tsk. cummin
handfylli kóríander (steinselja sleppur líka)
handfylli cashew hnetur
salt, pipar og góður grænmetiskraftur eftir smekk

Saxið grænmetið í frekar litla bita (ca. munnbita) og kjúklinginn líka. Brúnið kjúklinginn í kókosolíunni á djúpri pönnu með loki eða stórum potti. Bætið söxuðu grænmetinu út í og látið mýkjast í smá stund. Bætið öllum kryddunum út í og leyfið að malla með kjötinu og grænmetinu í stutta stund til að æsa upp bragðið þeirra áður en þið bætið curry paste og kókosmjólkinni út í. Saltið og piprið eftir smekk og bætið jafnvel smá grænmetiskrafti út í.
Leyfið þessu að malla undir loki í 20 mínútur. Takið réttin af, hrærið gróft söxuðu kóríander út í og grófmuldum cashew hnetum yfir.
Berið fram með hrísgrjónum, naan brauði og góðu chutney t.d. mangó chutney.
Einfalt, fljótlegt og gott!

Thursday, September 22, 2011

Bloggið byrjað

Eftir langan umhugsunartíma hef ég loksins ákveðið að byrja á smá matarbloggi og sjá hvað kemur út úr því. Ég er sífellt að prófa eitthvað nýtt og spennandi sem oftar en ekki heppnast alveg ágætlega. En þær tilraunir eru oftast nær bara framkvæmdar einu sinni vegna þess að þær gleymast um leið og diskarnir eru komnir í uppþvottavélina.... :(
En nú verður þetta helsta og besta sett hérna inn og aldrei að vita nema myndskreytingar fylgi með :)