Uppskriftin er fyrir 4
4-6 kjúklingabringur, fjöldinn fer auðvitað eftir stærð
2 cm. bútur engifer
1,5 dl. appelsínusafi (þarf ekki að vera nýkreistur, Trópi virkar vel)
0,5 dl. lime safi
0,5 dl. Teryaki sósa
góð handfylli ferskt kóriander
1 askja sveppir
1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
2 msk. hlynsíróp eða hunang
salt og pipar
Hrísgrjónanúðlur eða eggjanúðlur
Rífið engiferið fínt og blandið því saman við appelsínusafa, lime safa og Teryaki sósuna. Saxið kóriander gróft og blandið því saman við (skiljið smá eftir). Hellið marineringunni yfir kjúklinginn og leyfið að standa í a.m.k. hálfa klukkustund en ekki mikið lengur en tvær klukkustundir því þá fer lime safinn að "elda" kjúklinginn of mikið. Hitið bragðlitla olíu á pönnu og brúnið kjúklinginn á báðum hliðum. Takið af pönnunni og setjið inn í 180° heitan ofn í 20 mínútur. Saxið sveppina gróft, skerið hvítlaukinn í þunnar sneiðar og laukinn í þunnar ræmur. Bætið smá olíu á pönnuna og hendið grænmetinu á hana og steikið stutta stund. Hellið restinni af marineringunni yfir og tveimur matskeiðum af hunangi eða hlynsírópi og kryddið með smá salti og pipar. Ef þið viljið meiri sósu er sniðugt að bæta smá appelsínusafa út á pönnuna og jafnvel meira Teryaki, það er bara smekksatriði :)
Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum, hellið vatninu af og setjið þær út á pönnuna og blandið sósunni vel saman við. Berið kjúklinginn og núðlurnar fram saman og stráið restinni af kóriandernum yfir. Einfaldur og góður réttur sem féll í góðan jarðveg hjá fjölskyldunni. Frá hugmynd og á diskinn á tveimur og hálfum tíma :)