Monday, February 27, 2012

STEIK


Þegar við leyfum okkur þann munað að kaupa fínt nautakjöt förum við yfirleitt einföldu leiðina, salt, pipar og kannski smá hvít truffluolía. En í þetta sinn vorum við aðeins djarfari og það virkaði svona líka vel! Kjötið heppnaðist fullkomlega og ekkert meira um það að segja.... :)
Dálítið erfitt að segja til með magnið, svo rosalega misjafnt hvað fólk borðar mikið, og hversu mikið meðlæti er með. Daði minn er alltaf að stækka og hann borðar MIKIÐ kjöt! Ég var með 600 gr. steik og það var smá afgangur, s.s. Daði hefur borðað ca. 400 gr. og ég kannski 150 gr. Venjulega er miðað við 200-250 gr. af hreinu kjöti á mann.

Uppskriftin miðast við 600 gr. af kjöti

600 gr. nautalund
Marinering:
2 msk. kornasinnep (Dijon)
4 msk. sojasósa
1 hvítlauksrif, heill en kraminn vel með hnífi
1 tsk. chilliolía eða smá saxað ferskt chilli
1 msk. ólífuolía

Blandið saman öllu sem á að fara í marineringuna og þægilegast er að nota zip loc poka. Setjið kjötið í pokann og látið marinerast í a.m.k. klukkutíma, jafnvel yfir nótt.
Steikið kjötið á heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Pakkið vel inn í álpappír (helst tvöfalt lag) og setjið í 180° heitann ofn í 10 mínútur. Takið út og vefjið inn í handklæði eða viskustykki og látið standa í aðrar 10-20 mínútur. Skerið í þunnar sneiðar þegar þið berið fram. Þessi aðferð gefur ykkur medium rare kjöt, þið hafið það lengur eða styttra í ofninum ef þið viljið það steikt öðruvísi.

Með þessu var ég með ofnbakaðar kartöflur og sætar kartöflur, salat (sem var eiginlega óþarfi....) og nokkurs konar sósu. Hana bjó ég til þannig að ég sauð niður marineringuna ásamt smá vatni og 1/2 nautateningi. Smakkaði hana bara til með vatni og krafti. Þetta er ekki sósa eins og við þekkjum með rjóma, sósujafnara, uppbökuð ömmusósa heldur eitthvað sem líkist gljáa (glaze), miklu bragðmeira og þarf mun minna af. Kjötið er líka svo bragðmikið og safaríkt að sósa hefði bara eyðilagt upplifunina :)
Með þessu dugir svo ekkert minna en gott rauðvín!

Tuesday, February 14, 2012

Gratineruð tómatsúpa

Ég elska góðar súpur og elda þær mjög oft. Oftast taka þær ekki langan tíma og það er hægt að leika sér endalaust. Hafa þær eins einfaldar eða flóknar og maður vill. Einföld grænmetissúpa með fáum ódýrum hráefnum getur jafnast á við dýrindis humarsúpu. Fyrir stuttu síðan póstaði einn facebook vinur uppskrift sem var hugmyndin að þessari útgáfu minni. Hún heppnaðist gríðarlega vel og minnir á margan hátt á flókna og bragðmikla franska lauksúpu, enda hugmyndin upprunalega líklega komið frá henni. Það má svo leika sér með brauðið og ostinn og finna út hvað er besta samsetningin. Þessa súpu er hægt að gera daginn áður, setja svo bara í skálar og klára þegar gestirnir koma. Ég lofa því að hún klikkar ekki! Skella smá hvítvíni í glösin og allir glaðir :)


Uppskriftin er fyrir ca. 4

Góð óífuolía
1 kg. plómutómatar
1/2 hvítlaukur
Salt
1 tsk. ferskt eða þurrkað timjan
1 þurrkað chilli eða smá chilliflögur
1 lítri kjúklingasoð (vatn+teningur)
1/2 rauðlaukur, fínt rifinn


Gott brauð, t.d. Ciabatta
smjör til að smyrja brauðið
Rfinn ostur, ég notaði sterkan Gouda eða blöndu af venjulegum Gouda og Parmesan

Hitið ofninn í 200°. Skerið tómatana í tvennt eftir endilöngu og raðið á ofnplötu með skurðinn upp.

Kryddið með salti og muldum chillipipar og setjið smá ólífuolíu yfir og smellið í ofninn í um það bil klukkutíma eða þar til tómatarnir líta nánast út líkt og sólþurrkuðu tómatarnir sem maður kaupir í búðinni.

Þegar tómatarnir hafa verið í hálftíma er hvítlaukurinn settur í ofninn. Það má pakka honum í álpappír eða hafa hann bara beran.
Takið tómatana úr ofninum og leyfið þeim að kólna pínu lítið. Setjið tómatana og hvítlaukinn í matvinnsluvél/blandara og reynið endilega að ná öllu því sem er fast við plötuna, það er heilmikið bragð í því. Maukið gróflega í matvinnsluvélinni og setjið í pott ásamt, chilli, soði og timjani. Leyfið þessu svo að malla í 10-15 mínútur. Smakkið til með salti og pipar  og rifnum lauk og ef til vill smá meira chilli fyrir þá sem vilja.
Skiptið súpunni á milli 4 súpuskála sem mega fara í ofn. Ristið brauðið og smyrjið með smjöri. Setjið eina brauðsneið ofan á hverja skál og veeeeel af rifnum osti yfir allt.


Þetta fer svo undir grillið þar til osturinn er orðinn dásamlega gullinn og flottur. Langar bara að elda hana aftur þegar ég skrifa uppskriftina niður :þ



Thursday, February 9, 2012

Matjurtagarður

Jæja, mín er búin að fá úthlutað skika fyrir sumarið, nú verður sko ræktað! Fjölskyldugarðar Reykjavíkurborgar eru ótrúlega sniðugir. Frábært fyrir fjölskylduna taka þátt í þessu saman og fylgjast með góðgætinu vaxa og dafna. Í fyrra sumar var smá ræktun á svölunum og krökkunum fannst þetta gríðarlega spennandi og gulræturnar, tómatarnir, salatið og allt hitt var sko miklu betra en það sem keypt er í búðinni :)  Ég hlakka SVO til að ég er að springa! En nú er bara spurningin, hvað á maður að rækta???

Já gott er að borða gulrótina, grófa brauðið, steinseljuna, krækiber og kartöflur og kálblöð og hrámeti.... tralalalala