Tuesday, February 14, 2012

Gratineruð tómatsúpa

Ég elska góðar súpur og elda þær mjög oft. Oftast taka þær ekki langan tíma og það er hægt að leika sér endalaust. Hafa þær eins einfaldar eða flóknar og maður vill. Einföld grænmetissúpa með fáum ódýrum hráefnum getur jafnast á við dýrindis humarsúpu. Fyrir stuttu síðan póstaði einn facebook vinur uppskrift sem var hugmyndin að þessari útgáfu minni. Hún heppnaðist gríðarlega vel og minnir á margan hátt á flókna og bragðmikla franska lauksúpu, enda hugmyndin upprunalega líklega komið frá henni. Það má svo leika sér með brauðið og ostinn og finna út hvað er besta samsetningin. Þessa súpu er hægt að gera daginn áður, setja svo bara í skálar og klára þegar gestirnir koma. Ég lofa því að hún klikkar ekki! Skella smá hvítvíni í glösin og allir glaðir :)


Uppskriftin er fyrir ca. 4

Góð óífuolía
1 kg. plómutómatar
1/2 hvítlaukur
Salt
1 tsk. ferskt eða þurrkað timjan
1 þurrkað chilli eða smá chilliflögur
1 lítri kjúklingasoð (vatn+teningur)
1/2 rauðlaukur, fínt rifinn


Gott brauð, t.d. Ciabatta
smjör til að smyrja brauðið
Rfinn ostur, ég notaði sterkan Gouda eða blöndu af venjulegum Gouda og Parmesan

Hitið ofninn í 200°. Skerið tómatana í tvennt eftir endilöngu og raðið á ofnplötu með skurðinn upp.

Kryddið með salti og muldum chillipipar og setjið smá ólífuolíu yfir og smellið í ofninn í um það bil klukkutíma eða þar til tómatarnir líta nánast út líkt og sólþurrkuðu tómatarnir sem maður kaupir í búðinni.

Þegar tómatarnir hafa verið í hálftíma er hvítlaukurinn settur í ofninn. Það má pakka honum í álpappír eða hafa hann bara beran.
Takið tómatana úr ofninum og leyfið þeim að kólna pínu lítið. Setjið tómatana og hvítlaukinn í matvinnsluvél/blandara og reynið endilega að ná öllu því sem er fast við plötuna, það er heilmikið bragð í því. Maukið gróflega í matvinnsluvélinni og setjið í pott ásamt, chilli, soði og timjani. Leyfið þessu svo að malla í 10-15 mínútur. Smakkið til með salti og pipar  og rifnum lauk og ef til vill smá meira chilli fyrir þá sem vilja.
Skiptið súpunni á milli 4 súpuskála sem mega fara í ofn. Ristið brauðið og smyrjið með smjöri. Setjið eina brauðsneið ofan á hverja skál og veeeeel af rifnum osti yfir allt.


Þetta fer svo undir grillið þar til osturinn er orðinn dásamlega gullinn og flottur. Langar bara að elda hana aftur þegar ég skrifa uppskriftina niður :þ



2 comments:

  1. Lítur hrikalega vel út. Stefni á þessa við fyrsta tækifæri og læt þig vita hvernig til tókst. Haltu endilega áfram að pósta góðum hugmyndum. Það er hvatning í því fyrir mig að reyna aðeins á mig.

    ReplyDelete
  2. Sæll hvað þessi er girnileg!! Hlakka til að prófa við tækifæri! mmm fæ bara vatn í munninn við að skoða myndirnar!

    ReplyDelete