Monday, June 25, 2012

Beikon- og kryddjurtafylltur kjúklingur

Það er svo gaman þegar kryddjurtirnar spretta upp á svölunum því þá get ég gert allan mat svo góðan! Og að taka eitthvað svo einfalt eins og kjúkling og fylla hann með bragðmiklum jurtum og beikoni og lauma smá smjöri með.... það er auðvitað uppskrift að einhverju dásamlegu! Þetta er frábært til að bjóða gestum upp á, einn stór kjúklingur dugar fyrir 3-4 ef meðlætið er gott og nóg af því.

Uppskriftin er fyrir 3-4 (fer eftir stærð fuglsins)

1 kjúklingur
1 sítróna
2-3 hvítlauksrif
2 msk. mjúkt smjör
5-6 sneiðar beikon
handfylli af kryddjurtum að eigin vali, ég notaði timian og rósmarín, basil og steinselja virka líka vel
salt og pipar
ólífuolía

Hitið ofninn í 200°. Losið skinnið frá bringunni á fuglinum og reynið að losa meðfram hliðunum líka án þess að rífa skinnið. Rífið börkinn af sítrónunni og kreistið safann í skál. Kremjið eða saxið hvítlaukinn smátt og blandið saman við. Bætið smjöri, söxuðu beikoninu og kryddjurtunum saman við. Kryddið með örlitlu salti og pipar.



Laumið fyllingunni undir skinnið og setjið sítrónubátana inn í kjúklinginn. Setjið smá ólífuolíu utan á fuglinn og kryddið með salti og pipar.





Eldið í ofni í rúma klukkustund, tíminn fer auðvitað eftir stærðinni á fuglinum, fyrst með loki yfir og síðustu 10-15 mínúturnar með engu loki til að fá fallega skorpu. Það er líka rosa sniðugt að ausa öðru hvoru bráðnu smjörinu yfir fuglinn.



Með þessu þarf svo að vera gott meðlæti, ekki satt? Það er svo auðvelt að henda kartöflum/sætum kartöflum/gulrótum og öðru rótargrænmeti á fat og krydda vel og vandlega og baka í ofninum! Þetta er ein af þeim útgáfum sem okkur finnst rosalega góð.

Rótargrænmeti að vild, í þetta sinn notaði ég kartöflur og sætar kartöflur sem fyllti eitt gott ofnfat
2 góð eða 3 lítil hvítlauksrif
2 stilkar rósmarín
ólífuolía
salt



Saxið grænmetið í ca. munnbita og raðið í ofnskúffu. Ef þið eigið mortél þá er rosalega sniðugt að nota það í svona vinnu. Skellið þá hvítlauknum í mortélið, smá salti og nálunum af rósmaríninu. Berjið út þessu allt líf og blandið ólífuolíu saman  við þar til þetta lítur út eins og kryddolía.

Litli hjálparkokkurinn minn 


Hellið yfir kartöflurnar og nuddið vel og vandlega yfir þær allar.



Bakið ofarlega í ofninum í ca. háltíma, snúið þeim aðeins eftir 20 mínútur. Við viljum að þær brúnist aðeins og séu næstum því brenndar, allavega sætu kartöflurnar :)





Sósan!

Það þarf góða sósu með svona mat! Og hvað er betra en villisvepparjómasósa? En villisveppir eru svo dýrir.... :( Ég luma á smá ráði til að nota villisveppina þannig að það þurfi minna af sveppum en fá samt heilmikið bragð úr þeim. Hérna kemur mortélið aftur sterkt inn en það er auðvitað hægt að gera þetta í matvinnsluvél, kaffikvörn eða bara með gamla góða kökukeflinu. Það er bara svo gaman að nota mortélið :)



2 msk. þurrkaðir villisveppir
1/2 laukur
1/2 askja venjulegir sveppir
1/2 lítri rjómi eða matreiðslurjómi
1 dl. sjóðandi vatn
1 góð msk. mjúkur ostur (má vera hreinn rjómaostur, gráðaostur, camembert.... bara það sem þið viljið)
1 kjúklingateningur (má líka vera sveppateningur)
smjör til steikinga
Myljið villisveppina í duft í mortéli, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í smá stund. Saxið laukinn og venjulegu sveppina og steikið upp úr íslensku smjöri. Hellið villisveppasoðinu (muldu sveppina og vatnið) og bætið ostinum út í. Rjóminn og teningurinn fer út í þegar osturinn hefur bráðnað. Látið þetta svo bara malla í svolítinn tíma. Smakkið til með salti og pipar. Ef það þarf að þykkja sósuna þá nota ég alltaf maisena mjöl en það má nota hvaða þykki sem er.


Svo er bara að bera þetta á borð, kannski smá salat á kantinn og hvítt í glas?

Saturday, June 16, 2012

Litli tómaturinn

Eldabuskan horfir dreymin á pííínulitla tómatinn sem er að byrja vaxtaskeið sitt á trénu í stofunni og hugsar "hvað get ég gert úr þér?"


Sunday, June 10, 2012

Kartöflusalat



Við notum ekki mikið af kartöflum á heimilinu en þegar við gerum það þá er ekki í boði að sjóða og hafa þetta eitthvað einfalt og "leiðinlegt" því ekki eru allir heimilismeðlimir jafn hrifnir af því..... Í kvöld grillaði ég lambabóg sem ég hafði marinerað í ólífuolíu, hvítlauk, rósmarín, timian, sítrónusafa og svörtum pipar. Það hentaði því afar vel að hafa gott kalt kartöflusalat með þessu. Í raun er það þannig að þegar maður eldar lambabóg þá eldar maður hann frekar lengur en skemur, hann er afar safaríkur og því er alveg nóg að hafa bara gott kartöflusalat með, sósan er í raun óþörf en ég gerði samt smá villisveppasósu.... bara af því að ég var í stuði og af því að það er sunnudagur :)
En salatið góða er aðalatriðið í þessu löngu tímabæra bloggi mínu. Ég er ekki mjög hrifin af mæjónesi.... ekki nema með því sé hvítt brauð og rækjur... og fermingarbarn í sama herbergi ;) Mæjónes á ekki heima í kartöflusalati heldur eingöngu í fagurlega skreyttum brauðtertum í fermingarveislum! Ég kýs að gera mín kartöflusalöt meira spennandi. Einfaldasta útgáfan og það sem sniðugt er að gera þegar glænýtt smælkið er stungið upp síðsumars er að setja smá smjörklípu hér og þar yfir heitar kartöflurnar svo það bráðni, smá Maldon eða Himalaya salt og ferska mintu... Nammi nammi namm! Í þetta sinn fór ég svolítið suðræna leið, innblásinn af risastóru basil plöntunni í stofuglugganum sem gargaði á mig að snyrta sig!

Uppskriftin er fyrir 4 en mjög auðvelt að breyta hlutföllum án þess að bragðið klikki.

Kartöflur, u.þ.b. 150 gr. á mann
4-5 msk. GÓÐ ólífuolía, t.d. þessi
2-3 msk. balsamik edik
2-3 msk. fljótandi hunang eða hlynsíróp
ögn af ferskum söxuðum chilli (má sleppa)
1/2 rauð paprika skorin í þunna strimla
nokkrir sólþurrkaðir tómatar smátt saxaðir
handfylli af fersku basil, smátt saxað
Salt og pipar

Kartöflur skornar í hæfilega stóra bita og soðnar í söltu vatni þar til mjúkar. Öllu sem á að fara í dressinguna blandað saman og kartöflurnar settar síðastar út í þegar þær hafa kólnað smá stund. Smakkað til með salti eða hunangi/sírópi. Trikkið er að finna rétta jafnvægið milli salta bragðins, súra (edikið) og sæta úr hunanginu/sírópinu. Borið fram með öllum grillmat, lambalæri eða einhverju slíku.
Með svona salati er líka hægt að vera frumlegur og bæta og breyta. Ég set stundum nokkrar saxaðar grænar ólífur eða smá capers ef ég á það til. Það frískar þetta aðeins upp og gerir salatið bara betra.