Uppskriftin er fyrir 3-4 (fer eftir stærð fuglsins)
1 kjúklingur
1 sítróna
2-3 hvítlauksrif
2 msk. mjúkt smjör
5-6 sneiðar beikon
handfylli af kryddjurtum að eigin vali, ég notaði timian og rósmarín, basil og steinselja virka líka vel
salt og pipar
ólífuolía
Hitið ofninn í 200°. Losið skinnið frá bringunni á fuglinum og reynið að losa meðfram hliðunum líka án þess að rífa skinnið. Rífið börkinn af sítrónunni og kreistið safann í skál. Kremjið eða saxið hvítlaukinn smátt og blandið saman við. Bætið smjöri, söxuðu beikoninu og kryddjurtunum saman við. Kryddið með örlitlu salti og pipar.
Eldið í ofni í rúma klukkustund, tíminn fer auðvitað eftir stærðinni á fuglinum, fyrst með loki yfir og síðustu 10-15 mínúturnar með engu loki til að fá fallega skorpu. Það er líka rosa sniðugt að ausa öðru hvoru bráðnu smjörinu yfir fuglinn.
Með þessu þarf svo að vera gott meðlæti, ekki satt? Það er svo auðvelt að henda kartöflum/sætum kartöflum/gulrótum og öðru rótargrænmeti á fat og krydda vel og vandlega og baka í ofninum! Þetta er ein af þeim útgáfum sem okkur finnst rosalega góð.
Rótargrænmeti að vild, í þetta sinn notaði ég kartöflur og sætar kartöflur sem fyllti eitt gott ofnfat
2 góð eða 3 lítil hvítlauksrif
2 stilkar rósmarín
ólífuolía
salt
Saxið grænmetið í ca. munnbita og raðið í ofnskúffu. Ef þið eigið mortél þá er rosalega sniðugt að nota það í svona vinnu. Skellið þá hvítlauknum í mortélið, smá salti og nálunum af rósmaríninu. Berjið út þessu allt líf og blandið ólífuolíu saman við þar til þetta lítur út eins og kryddolía.
Litli hjálparkokkurinn minn |
Hellið yfir kartöflurnar og nuddið vel og vandlega yfir þær allar.
Bakið ofarlega í ofninum í ca. háltíma, snúið þeim aðeins eftir 20 mínútur. Við viljum að þær brúnist aðeins og séu næstum því brenndar, allavega sætu kartöflurnar :)
Sósan!
Það þarf góða sósu með svona mat! Og hvað er betra en villisvepparjómasósa? En villisveppir eru svo dýrir.... :( Ég luma á smá ráði til að nota villisveppina þannig að það þurfi minna af sveppum en fá samt heilmikið bragð úr þeim. Hérna kemur mortélið aftur sterkt inn en það er auðvitað hægt að gera þetta í matvinnsluvél, kaffikvörn eða bara með gamla góða kökukeflinu. Það er bara svo gaman að nota mortélið :)
2 msk. þurrkaðir villisveppir
1/2 laukur
1/2 askja venjulegir sveppir
1/2 lítri rjómi eða matreiðslurjómi
1 dl. sjóðandi vatn
1 góð msk. mjúkur ostur (má vera hreinn rjómaostur, gráðaostur, camembert.... bara það sem þið viljið)
1 kjúklingateningur (má líka vera sveppateningur)
smjör til steikinga
Myljið villisveppina í duft í mortéli, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í smá stund. Saxið laukinn og venjulegu sveppina og steikið upp úr íslensku smjöri. Hellið villisveppasoðinu (muldu sveppina og vatnið) og bætið ostinum út í. Rjóminn og teningurinn fer út í þegar osturinn hefur bráðnað. Látið þetta svo bara malla í svolítinn tíma. Smakkið til með salti og pipar. Ef það þarf að þykkja sósuna þá nota ég alltaf maisena mjöl en það má nota hvaða þykki sem er.
Svo er bara að bera þetta á borð, kannski smá salat á kantinn og hvítt í glas?
No comments:
Post a Comment