uppskriftin er fyrir 4
Risotto
1 lítri kjúklingasoð (má vera grænmetissoð)
4 skarlottu laukar (má nota venjulegan lauk) fínt saxaðir
3 stilkar sellerí, fínt saxað
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
salt og pipar
smjör og ólífuolía til steikingar
400 gr. risotto grjón (aborio grjón)
1 lítið glas hvítvín (má vera soð)
70 gr. smjör
100 gr. ferskur rifinn parmesan
safi og fínt rifinn börkur af einni sítrónu
lítil handfylli steinselja smátt söxuð
Kjúklingabringur
4 bringur
salt og pipar
hlynsíróp
olía til steikingar
Byrjið á því að stilla ofninn á 200°. Brúnið kjúklinginn á pönnu og kryddið með salti og pipar. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast á báðum hliðum, hellið þá smá hlynsírópi yfir og skellið í ofninn í 15-20 mínútur. Alls ekki ofelda bringurnar!
Á meðan bringurnar malla í ofninum er risottoið lagað. Hitið smjör og olíu á pönnu og steikið lauk, hvítlauk og sellerí á miðlungshita í 3-4 mínútur. Hækkið hitann og skellið hrísgrjónunum útí. Hrærið stanslaust í grjónunum í 2-3 mínútur. Bætið víninu út í og látið það sjóða niður. Lækkið niður í lágan til miðlungshita og byrjið að ausa heitu kjúklingasoðinu út í, einni ausu í einu og leyfið þeirri fyrri að sjóða niður að mestu áður en sú næsta er sett út í. Svo er bara að halda áfram að ausa þar til risottoið er tilbúið, það á að vera "al dente" eða mjúkt að utan en smá stinnt að innan, ekki mauksoðið eins og grónagrautur. Þegar síðasta ausan af soðinu er sett út í fer börkurinn og safinn úr sítrónunni út í líka. Byrjið á safa úr hálfri sítrónu og smakkið ykkur áfram, þetta á ekki að vera súrt heldur bara gott sítrónubragð.
Þegar grjónin eru tilbúin smakkið þau til með smá (bara smá) salti og pipar og svo eru þau tekin af hellunni, smjörinu, steinseljunni og parmesan ostinum hrært varlega saman við og borið strax fram. Það er ekki gott að láta þetta standa lengi eftir að það er tilbúið.
Skerið nú bringurnar niður í þunnar sneiðar og berið fram með risottoinu. Það er líka tilvalið að bera fram gott grænt salat og jafnvel ítalskt brauð með þessum rétti.
Góð byrjun á góðu ári held ég bara :)
No comments:
Post a Comment