Sunday, August 19, 2012

Sumarlegur og sætur eftirréttur

Jæja, er ekki komið gott af sumarfríi og tími á eina uppskrift?

Búið að týna hvert einasta ber á þessum trjám!
Við fjölskyldan fórum í smá göngu upp Esjuna í dag og kíktum í leiðinni upp að Mógilsá og týndum nokkur hindber. Því verður ekki lýst með orðum hversu góð nýtýnt íslensk hindber eru... þið verðið bara að prófa sjálf!

Fallegt!

Mér finnst eftirréttir sem hver og einn fær á diski eða í skál vera frábærir. Allir fá sinn eftirrétt, fallega skreyttan og tilbúinn bara fyrir hann. Ég henti í einn ótrúlega einfaldan eftirrétt sem rann ljúflega niður hjá öllum heimilismeðlimum með tilheyrandi smjatti og kjamsi :) Það má að sjálfsögðu nota aðra ávexti, t.d. jarðarber, passion fruit eða granatepli eða blöndu af góðum ferskum ávöxtum. Hversu gott væri nú að nota fersku íslensku bláberin sem allir eru brjálaðir í að týna þessa dagana???

Sumarlegur og sætur eftirréttur


Uppskriftin er fyrir 4

Marengs

2 eggjahvítur
100 gr. sykur

Hitið ofninn í 100°. Þeytið eggin og bætið sykri út í smátt og smátt. Útbúið átta jafnar litlar doppur, ca. matskeið hver kaka á bökunarplötu. Bakið í ofninum í klukkutíma. Slökkvið á ofninum og látið standa í honum í smá stund í viðbót.

Fylling

1 peli rjómi
2 dl. fersk hindber
1 msk. flórsykur

Þeytið rjómann og stráið flórsykrinum saman við. Stappið berin og blandið saman við. Setjið 4 litlar kökur á diska, 1 á hvern disk. Skiptið berjarjómanum jafnt á kökurnar og setjið hinar 4 kökurnar ofan á og myndið þannig sætar samlokur. Skreytið með ferskum berjum og fallegum mintulaufum.  Gott er að láta kökurnar standa í kæli í hálftíma til klukkutíma. Ótrúlega einfalt og dásamlega gott!

Tilbreyting: sumir eru ekki hrifnir af rjóma eða af einhverjum ástæðum vilja nota eitthvað annað. Þá er tilvalið að nota gríska jógúrt í staðinn fyrir rjómann eða blanda jógúrt/sýrðum rjóma saman við rjómann. Þá verður rétturinn aðeins léttari.

No comments:

Post a Comment