Við hjónin keyptum slatta af dásamlegu hreindýrakjöti og þar á meðal fallegasta hakk sem ég hef séð! Algjörlega fitusnautt, lífrænt, "free range", grasbítandi, frábært kjöt! Ekki hægt að fá það betra! Fyrsta máltíðin sem matreidd var voru hreindýrabollur. Meðlætið var svo bara einfalt, sæt kartöflumús, sósa og sulta. Ekkert grænmeti sem skyggði á bollurnar góðu! Því miður náðist ekki að mynda bollurnar... þær runnu allt of hratt niður hjá okkur.... Það kemur vonandi ekki að sök.
Uppskriftin er fyrir 4-6
800 gr. Hreindýrahakk
1 dl. mjólk
2 egg
6 msk. brauðrasp
5 einiber, kramin í mortéli
nokkrar greinar af timjan
1 grein af rósmarín
2 msk. Teryaki sósa
salt og pipar
smjör og olía til steikingar
Setjið kjötið í skál, blandið öllu saman við og kryddið með salti og pipar. Passið bara saltið því Teryaki sósan er sölt. Ef blandan er of blaut setjið þið meiri rasp en ef það er of þurrt þá setjið þið mjólk. Ef ekki er til Teryaki sósa má auðveldlega skipta henni út fyrir soya sósu eða tamarind sósu. Þær gera allar svipað bragð. Ég bý til bollur á stærð við borðtenniskúlur en hver og einn gerir bara eins stórar og hann vill. Brúnið bollurnar upp úr blöndu af smjöri og olíu. Olíuna set ég til að smjörið brenni síður og geri það alltaf þegar ég steiki upp úr smjöri. Þegar bollurnar hafa brúnast takið þær af og setjið inn í 180° ofn í 10 mínútur eða þar til bollurnar hafa eldast alveg í gegn.
Sósan
Hellið sjóðandi vatni (ca. hálfum lítra) á pönnuna sem bollurnar voru steiktar á til að fá allan kraftinn úr þeim. Setjið nauta- eða villikraft út í, eina matskeið af rifsberjasultu og eina matskeið af smjöri út í og leyfið að malla stutta stund. Smakkið til með kraftinum og sultunni. Mér finnst gott að hafa hana svolítið sæta. Þykkið með maizena mjöli eða þeim sósujafnara sem þið viljið.
Með þessu bara ég svo fram kartöflumús sem er afar einföld. Sjóðið sætar kartöflur, stappið með smjöri, pipar og kanil. Tilbúið! Og svo varð að vera smá rifsberjasulta líka.
Þið megið svo bíða spennt eftir fleiri hreindýrauppskriftum, nóg er af því í frystinum :)
No comments:
Post a Comment