Sunday, September 9, 2012

Kókoskjúklingur með sætkartöflusalati



Þessi réttur er svo rosalega góður að eiginmaðurinn segir hann klárlega tróna í efsta sæti yfir bestu kjúklingarétti EVER! Sætu kartöflurnar passa líka einstaklega vel með honum og engin sósa nauðsynleg með þessum dásemdum. Frábær réttur til að bera fram í matarboði og mun án efa slá í gegn! Ég gerði líka með þessu venjulegar kartöflur því börnin eru ekkert sérstaklega hrifin af sætu kartöflunum. Og það besta er að þetta er hollt og gott :)


Rétturinn er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur
3 msk. kókosmjöl
3 msk. saxaðar möndlur
1 msk. fiskisósa
1/2 dl. ólífuolía
3 msk. sítrónusafi
handfylli ferskt kóriander, saxað
2 msk. gott fljótandi hunang
1 tsk. turmerik
2 hvítlauksrif, kramin eða rifin
salt og pipar

Byrjið á því að klippa hrygginn úr kjúklingnum þannig að hann fletjist auðveldlega út. 




Blandið öllu saman sem á að fara í marineringuna og smyrjið því á kjúklinginn.




Leyfið þessu að marinerast í a.m.k. klukkustund. Hitið ofninn í 180° og eldið neðarlega í 40-50 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er safaríkur og algjörlega tilbúinn. Ef ykkur finnst hann vera farinn að brúnast of mikið er ekkert mál að skella smá álpappír eða loki yfir hann. Ég mæli með því að skafa alla marineringuna sem verður eftir í botninum, þið viljið ekki missa af neinu af góðgætinu!



Sætkartöflusalat
1 stór sæt kartafla
2 cm. bútur af blaðlauk, smátt saxaðir
3 msk. rúsínur
50 gr. pecan hnetur
lítil handfylli söxuð steinselja
lítil handfylli saxað kóriander
1 lítið þurrkað chilli, mulið í mortéli

Sósan
4 msk. ólífuolía
2 msk. gott fljótandi hunang
1 msk. balsamik edik
1 msk. sítrónusafi
2 msk. appelsínusafi
2 cm. bútur af engifer, fínt rifið
1/2 tsk. kanill
pínu salt

Skerið sætu kartöflurnar í ca. munnbita og setjið á ofnplötu með ólífuolíu, salti og pipar. Bakið við 180° í 30 mínútur. Blandið öllu sem á að fara í sósuna og hellið henni yfir kartöflurnar þegar þær koma blússandi heitar út úr ofninum. Bætið hinu hráefninu saman við og berið fram volgt.



Fyrir krakkagormana sem eru ekki mikið fyrir sætar kartöfur þá gerði ég afar einfaldar kartöflur sem "amma London" gerir stundum fyrir þau og þau borða alltaf vel af þeim. Þið einfaldlega sjóðið kartöflur, setjið í skál og á meðan þær eru ennþá heitar þá setjið þið smávegis af íslensku smjöri og saxaðri mintu yfir. Tilbúið!



No comments:

Post a Comment