Tuesday, February 26, 2013

Silungur í soyja og sesam

Ég er svo heppin að eiga góða að sem skaffa okkur alls konar fisk, silung, þorsk, löngu og skötusel svo eitthvað sé nefnt. Og þess vegna er nú eiginlega alveg glatað hversu fáar fisk uppskriftir eru hérna inni. Sannleikurinn er sá að fiskur er mitt erfiðasta hráefni :( Mér finnst ég ekki nógu góð í að elda fisk en næ því öðru hvoru að elda eitthvað sómasamlegt sem er þess virði að smella hérna inn :) Í kvöld náði ég að elda einn dálítið góðan og ekki spillir fyrir að hann er súpereinfaldur :) Fiskurinn sem ég notaði var frekar smár og þurfti bara örstuttan tíma á pönnunni, ef þið notið stærri flök (væn laxaflök t.d.) þá þurfið þið að elda hann lengur og ég myndi elda hann ca. 60% tímans á roðinu og 40% á fiskihliðinni. 



Uppskriftin er fyrir 4

1 kg. silungur (meira ef það er einhver eins og Daði að borða ;)  )
2 cm. bútur engifer
1/2-1 rautt chilli
2 hvítlauksrif
2 msk. soyja sósa
2 msk. sesamolía
4 msk. ólífuolía
2 msk. sesamfræ

Rífið engifer og hvítlauk og blandið saman við fínt saxað chilli og restina af hráefnunum. Beinhreinsið fiskinn og leggið í marineringuna í a.m.k. hálftíma. 1-2 tímar er flottur marineringartími. Hitið pönnuna á hæsta mögulega hita og setjið fiskinn á. Það eru ýmsar aðferðir við að steikja fisk, sumir segja roðið fyrst og aðrir segja fiskihliðina fyrst. Ef ég ætla mér að borða roðið þarf það að vera vel steikt og þá set ég roðhliðina niður fyrst. Í þetta sinn vildi ég fá smá lit á fiskinn og vegna þess hversu smá flökin voru steikti ég þá fyrst á fiskihliðinn og í ca. 70% tímans og skellti honum svo á roðið í stutta stund. Heildar steikingartíminn var u.þ.b. 2 mínútur. Ég vil hafa fiskinn minn bleikan í miðjunni, ekki eldaðan alveg í gegn, þá verður hann bara þurr og ekkert spennandi.

Ég bar þetta svo fram með einfaldri sætri kartöflumús. Hana geri ég þannig að ég skræli 1 sæta kartöflu, sker í bita og sýð hana þar til hún er mjúk. Mauka hana svo gróflega, set smá smjör og salt og pipar. Tilbúin!





Sunday, February 24, 2013

Hunangsgljáður kjúklingur, rauðrófu- og jarðarberjasalat og ofnbakað rótargrænmeti


Rauðrófur eru svo rosalega góðar og ennþá betra er hvað þær eru hollar! Þær eru járnríkar, innihalda ýmis vítamín og steinefni og hin margumtöluðu andoxurnarefni sem eru talin styrkja ónæmiskerfið og það sem meira er hægja á öldrun :)Rauðrófur innihalda litarefnið betacyanin sem er talið vernda gegn krabbameini. Íþróttafólk á sérstaklega að borða rauðrófur og frábært að fá sér rauðrófusafaskot fyrir æfingar! 
Í þetta sinn fann ég innblástur í einni af matreiðslubókum Sollu á Gló og gerði mína eigin útfærslu af salati frá henni. 

Þessi réttur er í góðu lagi fyrir þá sem fylgja Paleo matarræðinu :)

Uppskriftin er fyrir ca. 4

Kjúklingurinn
1 vænn kjúklingur
ólífuolía
salt og pipar
hunang
smjör

Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel. Nuddið olíu á hann allan, kryddið með salti og pipar og setjið í ofnfat með loki, inn í ofn á 200° í 45 mínútur. Takið þá lokið af, hellið smá góðu hunangi yfir og setjið aftur inn í ofninn en ekki setja lokið aftur á. Ausið af og til hunangsblönduðu soðinu yfir kjúklinginn og hann verður dásamlega safaríkur og skorpan fær fallega brúnan lit af hunanginu. Takið hann út eftir að hann hefur verið í rúman klukkutíma en eldunartíminn fer auðvitað eftir stærð kjúklingsins. Við viljum alls ekki þurran kjúkling og það er fín lína á milli þess að vera með blóðlitaðan safa eða glæran og um leið og safinn er glær þá tökum við hann út! Takið kjúklinginn úr fatinu og setjið það á heita hellu eða hellið soðinu í pott og leyfið að sjóða stutta stund. Takið af hitanum og hrærið smá köldu smjöri rösklega saman við. Þetta er ekki hugsað sem hefðbundin sósa heldur meira eins og eitthvað sem er mitt á milli sósu og soðs.

Rótargrænmetið
1 sæt kartafla
1 grasker (butternut squash)
2 hvítlauksrif
1 tsk. kórianderfræ
1 þurrkað chilli
1 stilkur rósmarín
salt
ólífuolía

Mæli með því að allir eigi gott mortél, það er svo margt hægt að gera í því
Falleg kryddolían
Búið að blanda olíunni vandlega á allt grænmetið
Okku þykir best þegar grænmetið brúnast á köntunum





Hér má nota hvaða rótargrænmeti eða kartöflur sem er, t.d. gulrætur, rauðrófur, nípur eða sellerírót. Ég notaði sæta kartöflu og grasker í þetta sinn. Byrjið á því að saxa hvítlaukinn,  og rósmarín og setja í mortél ásamt kórianderfræjum og chilli. Merjið í mortélinu og blandið olíunni og saltinu saman við. Skerið grænmetið í bita, hversu stóra skiptir ekki máli, því minni - því styttri eldunartími. Hellið kryddolíunni yfir og blandið vel. Setjið kartöflurnar á ofnplötu og inn í ofn í 20-40 mínútur, allt eftir stærð bitanna. 

Rauðrófu- og jarðarberjasalatið
1 lítil rauðrófa
ólífuolía
balsamik edik 
salt

nokkur jarðarber
spínat
sólblómafræ (ristuð á pönnu)
fersk minta
ólífuolía
balsamik edik (helst hvítt)
hunang
dijon sinnep
salt og pipar

Svona fallegt salat getur ekki verið annað en gott fyrir mann!


Byrjið á því að pakka rauðrófunni inn í álpappír með smá ólífuolíu, balsamik ediki og salti. Ég tek hýðið af til að fá bragðið betur í rauðrófuna en það er líka í góðu lagi að hafa hýðið á og taka það svo af þegar þær eru tilbúnar. Lokið álpappírnum vel og setjið í 175° heitan ofn í 1 1/2 klukkustund. Takið rauðrófuna úr ofninum og leyfið henni að kólna. Raðið spínati í skál eða disk. Skerið rauðrófuna í þunnar sneiðar og raðið ofan á. Skerið jarðarberin í bita og raðið fallega í kringum rauðrófurnar. Stráið mintublöðunum yfir og ristuðum sólblómafræjum einnig. Blandið saman olíu, ediki, hunangi og sinnepi, salti og pipar. Ég nota yfirleitt bara tóma krukku með loki því þá er hægt að geyma afganginn í ísskáp í nokkra daga. Ég gef ekki nein hlutföll nema bara það að olía og edik er gott að hafa í hlutföllunum 3:1, 3 af olíu og einn af ediki. Sinnepið pg hunangið er svo bara smekksatriði. Hellið dressingunni yfir salatið og berið strax fram. Ekki láta dressinguna liggja lengi á því þá verður salatið blautt og ekki girnilegt.

Þegar allt þetta er komið saman er þetta holl og bragðgóð máltíð sem hentar jafnt í matarboði sem og bara fyrir fjölskylduna á sunnudagskvöldi eins og hjá okkur :)






Tuesday, February 19, 2013

Hakk og Kúrbítsspaghetti

Já, þið lásuð rétt, Kúrbítsspaghetti! Það þarf að taka þetta Paleo alla leið og finna eitthvað í staðinn fyrir þá hluti sem maður er vanur að nota, eins og t.d. spaghetti. Hakk og spaghetti er frábær leið til að koma grænmeti ofan í stóra jafnt sem smáa og hægt að fela alls konar hollustu ef maður nennir að saxa nógu smátt :) Við eldum þetta nokkuð oft og nú þurfti að reyna á það hvort hægt væri að finna eitthvað í staðinn fyrir spaghetti sem reyndar er alltaf úr heilhveiti og hefur verið í mörg ár. Hvítt pasta er bara ekki gott eftir að maður venst heilhveitinu. Ég prófaði því að búa til einhvers konar strimla úr kúrbítnum og þetta kom bara nokkuð vel út, allavega nógu vel til þess að ég gæti alveg hugsað mér þetta oftar. Og það góða við það að sleppa pastanu er að maður er ekki útþaninn eftir máltíðina heldur passlega saddur og sæll :)



Uppskriftin er fyrir ca. 4

600 gr. hakk
1 laukur
2 hvítlauskrif
2 gulrætur
annað grænmeti að eigin vali (ég notaði brokkolí, papriku, sveppi og strengjabaunir)
1/2-1 rautt chilli
1 rósmaríngrein
2 dósir hakkaðir tómatar (munið að kaupa hreina, ósæta og ókryddaða)
ólífuolía
salt og pipar
1 kúrbítur

Brúnið hakkið í olíu í góðum þykkbotna potti eða pönnu sem hægt er að loka. Kryddið með salti og pipar. Saxið allt grænmetið eins smátt og þið viljið, mér finnst best að hafa það í smærri kantinum. Blandið grænmetinu, fínt söxuðu rósmarín og tómötum út í. Leyfið þessu að malla í að minnsta kosti klukkutíma, helst 2 tíma. Rífið kúrbítinn í mjóa strimla og reynið að hafa þá eins langa og þið getið til að líkja eftir spaghetti :) Saltið þá smávegis og leyfið þeim að standa á meðan hakkið mallar. Smakkið hakkið til með salti og pipar og þetta er tilbúið þegar þið eruð sátt við bragðið. Ef þið eigið ferska steinselju eða basil er tilvalið að hræra því út í áður en þið berið þetta fram. Gæti varla verið einfaldara!

Tuesday, February 12, 2013

No bean chilli

Við höldum mikið upp á Chilli con carne og ef maður sleppir baununum þá er þetta hinn besti Paleo matur! Svo er maður bara með dásemdar guacamole með og allir glaðir :)



Uppskriftin er fyrir ca. 4

600 gr. nautahakk
1 stór laukur
1/2-1 rautt chilli eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta og hversu sterkt chilliið er
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar (ca. 200 gr.)
1 dós hakkaðir tómatar (passa að velja hreina, ókryddaða og ósæta)
1 kanilstöng
4 negulnaglar
1 tsk. cummin
1 tsk. paprika (má vera reykt ef þið eigið hana)
salt og pipar
kókos- eða ólífuolía til að steikja


Brúnið hakkið á pönnu eða potti og kryddið með salti og pipar. Bætið söxuðum lauk og fínt söxuðu chilli út í og steikið áfram stutta stund. Maukið sólþurrkuðu tómatana ásamt svolítilli olíu úr krukkunni með töfrasprota eða matvinnsluvél og blandið út í pottinn. Bætið restinni af hráefnunum út í og lokið á og leyfið þessu að malla í að minnsta kosti klukkustund, tveir tímar og þið eruð að gera góða hluti :) Smakkið til með salti og ef ykkur finnst vanta meiri hita í þetta þá bætið þið chillidufti út í þar til þið eruð ánægð :)

Venjulega þegar ég geri chilli þá er ég með guacamole, sýrðan rjóma, nachos, ost... allan pakkann! En í þetta sinn er það guacamole sem er málið.

2 vel þroskuð avocado
1 stór eða 2 litlir tómatar
1/4 rauðlaukur eða nokkrir vorlaukar
lime safi eftir smekk
2 msk. ólífuolía (munið að nota góða kaldpressaða í dökkri flösku, góðar olíur eru aldrei í glærum flöskum)
lítil handfylli ferskt kóriander (steinselja sleppur)
salt og pipar

Saxið tómatana og laukinn mjög smátt og setjið í skál. Annað hvort stappið eða saxið avocadoið og blandið saman við. Mér finnst best að hafa þetta pínu chunky og saxa það og stappa pínu með skeiðinni. Blandið olíunni og söxuðu kóriander og smakkið til með lime safa og salti og pipar. Ef ég væri ekki að bera þetta fram með chilli sem er frekar sterkt þá myndi ég jafnvel setja pínu chilli í guacamoleið.

Yfir þetta allt saman fór svo snakk sem búið er til úr sætum kartöflum.... Paleo all the way :)

Sunday, February 10, 2013

Appelsínu- og engifer kjúklingur

Skv. Liljunni minni heitir þessi réttur Gæðakjúklingur, svo góður er hann :)

Gott er að brúna kjúklinginn vel, sætan úr appelsínunni karmeliserast

Paleo mánuðurinn er hafinn! Og það af krafti! Fyrir þá sem ekki vita hvað Paleo matarræði er þá er það hollur og góður, hreinn matur. Engar mjólkurvörur, engar kornvörur og það besta ENGINN SYKUR! Þetta er kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, hnetur og fræ, egg, góðar olíur og fita. Ekkert flókið heldur bara góður matur :) Og ég hef ákveðið að taka einn mánuð þar sem ég borða eftir þessari hugmyndafræði. Þegar maður er orðinn svona hrikalegur crossfittari þá er ekkert annað í boði ;) Þessi kjúklingur er í boði Paleo :)

Uppskriftin er fyrir 3-4

1 heill kjúklingur
1 appelsína
1/2 þumlungur engifer
3 hvítlauksrif
1/2 rautt chilli
4 msk. ólífuolía
salt og pipar
25 gr. smjör

Byrjið á því að taka hrygginn úr kjúklingnum og fletja hann út. Það styttir eldunartímann og hann dregur vel í sig bragðið frá öllum hliðum. Rífð börkinn af appelsínunni og kreistið safann úr henni í skál. Rífið engiferið og hvítlaukinn (eða kreistið hvítlaukinn í pressu), saxið chilli smátt og blandið út í. Setjið ólífuolíu út í og kryddið með salti og pipar. Hellið þessu yfir kjúklinginn og setjið í 200° heitan ofninn með loki ofan á. Eldið í ca. klukkustund. Ausið marineringunni yfir eins oft og þið nennið, á ca. 10 mínútna fresti. Takið lokið af síðasta korterið til að fá smá lit á toppinn á kjúklinginn.
Takið kjúklinginn úr fatinu, leyfið soðinu að sjóða aðeins niður, takið af hitanum og þykkið með smjöri. Ef þið viljið ekki nota smjör er allt í lagi að sjóða það bara vel niður og hella yfir kjúklinginn.

Appelsína og kóríander er hið fullkomna hjónaband, og fyrst ég var með appelsínukjúkling gerði ég kóríander kartöflur. Takið sætar kartöflur, skerið í hæfilega stóra bita, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og matskeið af kórianderfræjum sem þið merjið í mortéli. Ef þið eigið ekki fræ þá er hægt að setja ca. teskeið af muldu kóríander. Setjið þetta inn í ofn í 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar og byrjaðar að brúnast.

Hollt og verulega gott!





Tuesday, February 5, 2013

Kjúklinga- og quinoa salat

Ef þið hafið ekki áttað ykkur á því nú þegar en ÉG ELSKA QUINOA! Það er svo mikil súperfæða Hér er smá lesning um quinoa sem ég setti eitt sinn inn og hvet ykkur til að lesa :) Þetta salat er svo einfalt og fljótlegt að allir geta gert þetta, og endalaus hollusta. Það er hægt að leika sér svo mikið með hráefni sem í grunnin eru bragðlítil eins og kjúklingur og quinoa og hægt að gera óspennandi og leiðinlegt en með einföldum tilbrigðum er þetta frábær matur til að leika sér með.



Uppskriftin er fyrir 4

3-4 kjúklingabringur
2,5 dl. quinoa 
1 avocado
4 tómatar 
4 vorlaukar
1/4 gúrka
1/4 krukka fetaostur eða 1/2 stk. ferskur, ókryddaður fetaostur
2 msk. lime safi
4 msk. ólífuolía (góð, kaldpressuð)
lítil handfylli ferskt basil
salt og pipar
hunang

Byrjið á því að sjóða quinoað, ég er með skothelda leið til þess! Einn hluti quinoa á móti tveimur af vatni. Látið suðuna koma upp, lækkið niður og sjóðið í 12 mínútur. Takið af hitanum og hafið lokið á og leyfið þessu að standa í smá stund. Setjið í stóra skál og hrærið varlega í með gaffli. 
Skerið tómatana í litla bita, bætið lime safanum og olíunni ásamt smá salti og pipar og leyfið þessu að standa á meðan þið græjið restina af salatinu. Leyfið tómötunum að draga í sig bragðið af safanum. Eitt sem mig langar að minna á er að geyma aldrei tómata í ísskáp! Leyfið þeim að njóta sín í fallegri skál á borðinu, verða eldrauðir og miklu bragðmeiri en úr ísskápnum! 
En aftur að salatinu :) Setjið kjúklingabringurnar í poka og berjið þær varlega með kökukefli. Reynið að berja á þykkari endann til að gera þær allar nokkuð jafnar að þykkt. Þetta styttir eldunartímann töluvert. Steikið þær á háum hita á pönnu og kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann örlítið og leyfið þeim að steikjast áfram á pönnunni í ca. 10 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn en ennþá safaríkar. Þegar 3-4 mínútur eru eftir af steikingatímanum hellið þið smá hunangi yfir þær og leyfið þeim að malla í því, það þarf ekki nema 2-3 msk. á allar bringurnar. Það munar ótrúlega mikið að setja hunangið á! Takið bringurnar af og leyfið þeim að standa í 5 mínútur áður en þið skerið í þær í þunnar sneiðar.
Saxið nú restina af hráefninu og blandið saman við quinoað. Bætið tómötunum og safanum af þeim, kjúklingnum og fetaostinum (ekki olíuna með) og gróft rifnu basil út í og berið fram með kaldri hvítlaukssósu. Ef þetta er þurrt er hægt að hella smá meiri ólífuolíu yfir salatið ef þið viljið. Þetta er frábært eitt og sér en alveg hægt að splæsa í gott brauð ef einhver vill slíkt, en svona er þetta kvöldmatur sem hægt er að njóta nokkuð samviskulaust :)

Fljótleg hvítlaukssósa
1 dós sýrður rjómi eða grísk jógúrt
1 hvítlauksrif kramið eða rifið
1/2 búnt fersk steinselja smátt söxuð
1 msk. hunang eða hlynsíróp
1/2-1 msk. sítrónusafi
salt og pipar

öllu blandað saman í skál og saltað og piprað örlítið. Smakkað til með sítrónusafa og hunangi. Leyfið sósunni að standa í smá stund til að taka í sig bragðið.