Uppskriftin er fyrir 4
1 kg. silungur (meira ef það er einhver eins og Daði að borða ;) )
2 cm. bútur engifer
1/2-1 rautt chilli
2 hvítlauksrif
2 msk. soyja sósa
2 msk. sesamolía
4 msk. ólífuolía
2 msk. sesamfræ
Rífið engifer og hvítlauk og blandið saman við fínt saxað chilli og restina af hráefnunum. Beinhreinsið fiskinn og leggið í marineringuna í a.m.k. hálftíma. 1-2 tímar er flottur marineringartími. Hitið pönnuna á hæsta mögulega hita og setjið fiskinn á. Það eru ýmsar aðferðir við að steikja fisk, sumir segja roðið fyrst og aðrir segja fiskihliðina fyrst. Ef ég ætla mér að borða roðið þarf það að vera vel steikt og þá set ég roðhliðina niður fyrst. Í þetta sinn vildi ég fá smá lit á fiskinn og vegna þess hversu smá flökin voru steikti ég þá fyrst á fiskihliðinn og í ca. 70% tímans og skellti honum svo á roðið í stutta stund. Heildar steikingartíminn var u.þ.b. 2 mínútur. Ég vil hafa fiskinn minn bleikan í miðjunni, ekki eldaðan alveg í gegn, þá verður hann bara þurr og ekkert spennandi.
Ég bar þetta svo fram með einfaldri sætri kartöflumús. Hana geri ég þannig að ég skræli 1 sæta kartöflu, sker í bita og sýð hana þar til hún er mjúk. Mauka hana svo gróflega, set smá smjör og salt og pipar. Tilbúin!