Sunday, February 24, 2013

Hunangsgljáður kjúklingur, rauðrófu- og jarðarberjasalat og ofnbakað rótargrænmeti


Rauðrófur eru svo rosalega góðar og ennþá betra er hvað þær eru hollar! Þær eru járnríkar, innihalda ýmis vítamín og steinefni og hin margumtöluðu andoxurnarefni sem eru talin styrkja ónæmiskerfið og það sem meira er hægja á öldrun :)Rauðrófur innihalda litarefnið betacyanin sem er talið vernda gegn krabbameini. Íþróttafólk á sérstaklega að borða rauðrófur og frábært að fá sér rauðrófusafaskot fyrir æfingar! 
Í þetta sinn fann ég innblástur í einni af matreiðslubókum Sollu á Gló og gerði mína eigin útfærslu af salati frá henni. 

Þessi réttur er í góðu lagi fyrir þá sem fylgja Paleo matarræðinu :)

Uppskriftin er fyrir ca. 4

Kjúklingurinn
1 vænn kjúklingur
ólífuolía
salt og pipar
hunang
smjör

Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel. Nuddið olíu á hann allan, kryddið með salti og pipar og setjið í ofnfat með loki, inn í ofn á 200° í 45 mínútur. Takið þá lokið af, hellið smá góðu hunangi yfir og setjið aftur inn í ofninn en ekki setja lokið aftur á. Ausið af og til hunangsblönduðu soðinu yfir kjúklinginn og hann verður dásamlega safaríkur og skorpan fær fallega brúnan lit af hunanginu. Takið hann út eftir að hann hefur verið í rúman klukkutíma en eldunartíminn fer auðvitað eftir stærð kjúklingsins. Við viljum alls ekki þurran kjúkling og það er fín lína á milli þess að vera með blóðlitaðan safa eða glæran og um leið og safinn er glær þá tökum við hann út! Takið kjúklinginn úr fatinu og setjið það á heita hellu eða hellið soðinu í pott og leyfið að sjóða stutta stund. Takið af hitanum og hrærið smá köldu smjöri rösklega saman við. Þetta er ekki hugsað sem hefðbundin sósa heldur meira eins og eitthvað sem er mitt á milli sósu og soðs.

Rótargrænmetið
1 sæt kartafla
1 grasker (butternut squash)
2 hvítlauksrif
1 tsk. kórianderfræ
1 þurrkað chilli
1 stilkur rósmarín
salt
ólífuolía

Mæli með því að allir eigi gott mortél, það er svo margt hægt að gera í því
Falleg kryddolían
Búið að blanda olíunni vandlega á allt grænmetið
Okku þykir best þegar grænmetið brúnast á köntunum





Hér má nota hvaða rótargrænmeti eða kartöflur sem er, t.d. gulrætur, rauðrófur, nípur eða sellerírót. Ég notaði sæta kartöflu og grasker í þetta sinn. Byrjið á því að saxa hvítlaukinn,  og rósmarín og setja í mortél ásamt kórianderfræjum og chilli. Merjið í mortélinu og blandið olíunni og saltinu saman við. Skerið grænmetið í bita, hversu stóra skiptir ekki máli, því minni - því styttri eldunartími. Hellið kryddolíunni yfir og blandið vel. Setjið kartöflurnar á ofnplötu og inn í ofn í 20-40 mínútur, allt eftir stærð bitanna. 

Rauðrófu- og jarðarberjasalatið
1 lítil rauðrófa
ólífuolía
balsamik edik 
salt

nokkur jarðarber
spínat
sólblómafræ (ristuð á pönnu)
fersk minta
ólífuolía
balsamik edik (helst hvítt)
hunang
dijon sinnep
salt og pipar

Svona fallegt salat getur ekki verið annað en gott fyrir mann!


Byrjið á því að pakka rauðrófunni inn í álpappír með smá ólífuolíu, balsamik ediki og salti. Ég tek hýðið af til að fá bragðið betur í rauðrófuna en það er líka í góðu lagi að hafa hýðið á og taka það svo af þegar þær eru tilbúnar. Lokið álpappírnum vel og setjið í 175° heitan ofn í 1 1/2 klukkustund. Takið rauðrófuna úr ofninum og leyfið henni að kólna. Raðið spínati í skál eða disk. Skerið rauðrófuna í þunnar sneiðar og raðið ofan á. Skerið jarðarberin í bita og raðið fallega í kringum rauðrófurnar. Stráið mintublöðunum yfir og ristuðum sólblómafræjum einnig. Blandið saman olíu, ediki, hunangi og sinnepi, salti og pipar. Ég nota yfirleitt bara tóma krukku með loki því þá er hægt að geyma afganginn í ísskáp í nokkra daga. Ég gef ekki nein hlutföll nema bara það að olía og edik er gott að hafa í hlutföllunum 3:1, 3 af olíu og einn af ediki. Sinnepið pg hunangið er svo bara smekksatriði. Hellið dressingunni yfir salatið og berið strax fram. Ekki láta dressinguna liggja lengi á því þá verður salatið blautt og ekki girnilegt.

Þegar allt þetta er komið saman er þetta holl og bragðgóð máltíð sem hentar jafnt í matarboði sem og bara fyrir fjölskylduna á sunnudagskvöldi eins og hjá okkur :)






No comments:

Post a Comment