Wednesday, June 5, 2013

Einfalt sjávarréttapasta

Ég er svo heppin að eiga góða að og einn af þeim er Bergþór bróðir minn sem gefur mér stundum ferskan fisk. Í þetta sinn gaf hann mér heilan helling af stórum og góðum rækjum sem maður týmir alls ekki að setja í rækjusalat heldur verður að gera eitthvað aðeins betra :) Eitt af því sem er hægt að gera og er afar fljótlegt er t.d. sjávarréttasúpa eða eins og ég gerði, pasta. Þetta tók ekki langan tíma og var sannarlega ljúffengt!

Svo fallega litríkt og girnilegt :)


uppskriftin er fyrir 4

ólífuolía til steikingar
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
6 sveppir
8 tómatar
1 dl. hvítvín
1 msk. tómatpúrra
200 gr. rækjur eða annar stífur fiskur
salt og pipar
stór handfylli ferskt basil
spaghetti
ferskur parmesan


Byrjið á því að saxa allt grænmetið og steikja í olíu á pönnu. Þegar það er orðið mjúkt bætið þá tómatpúrrunni og smátt skornum tómötunum út í ásamt hvítvíninu. Kryddið með salti og pipar og leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur. Á meðan þetta mallar sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á umbúðum, "al dente" er málið :) Þegar pastað er soðið, hellið vatninu af en geymið smávegis af því ef það þarf að bæta út í sósuna. Þegar sósan er tilbún bætið rækjunum út í og gróft söxuðu basil og leyfið að malla í örstutta stund. Rækjurnar þarf ekki að elda heldur bara að hita í gegn. Blandið pastanu saman við og ef ykkur finnst þurfa meiri vökva þá bætið þið smá pastavatni út í. Berið fram með rifnum parmesan og góðu brauði. Og fyrst þið eruð búin að opna hvítvín í sósuna er um að gera að hella restinni í glösin og njóta í góðum félagsskap :)

No comments:

Post a Comment