Sunday, July 7, 2013

Karrýkjúklingur með tvennskonar kartöflum og hvítlaukssteiktum aspas

Lilja Bríet sagði: Mamma, fer þessi réttur ekki á bloggið? Hann er geeeeeeðveikur! Hún er algjör matarkerling, kann að meta góðan mat, er óhrædd við að smakka og þokkalega gaman að gefa henni að borða. Hún er auðvitað 8 ára, smá gelgjustælar og oft hermt eftir vinkonum sem borða ekki hitt og þetta, en á heildina dugleg að borða og uppáhalds maturinn sushi :)
En að kvöldmatnum í kvöld :) Stundum tek ég mig til og vanda mig voða mikið, tjalda öllu til, geri eitthvað nýtt og spennandi og geri mitt allra allra besta. Í kvöld gerði ég það! Verið óhrædd við að notast við árstíðabundinn mat, kaupið aspas þegar hann er "í season", kaupið íslenska grænmetið þegar það er sem ferskast, íslensku jarðarberin á vorin og svo framvegis. Undanfarið hefur verið tímabil aspasins, og þess vegna fáum við eitthvað af honum ferskum hér á fróni. Hann er svo góður og hægt að nota á svo fjölbreyttan hátt. Aspas passar með ýmsum mat, t.d. frábær með silungi eða öðrum góðum fiski.
Einnig gerði ég heimatilbúnar súrar gúrkur. Ég kaupi aldrei súrsað grænmeti eða dósagrænmeti og finnst það ekkert sérstaklega gott. En að gera þetta sjálfur er allt annað og margfalt betra. Það er líka lítið mál að nota t.d. kúrbít eða annað grænmeti í staðinn fyrir gúrku. Liljan mín elskaði þær og meira að segja litli gikkurinn hann Kristófer sem borðar lítið sem ekkert grænmeti borðaði þær, enda kallað ég þær sykurgúrkur og allt með sykri þykir honum gott :)
Á heildina var þetta ekkert svo flókið, tók um það bil klukkutíma frá byrjun til enda, en stundum má matseldin taka smá tíma og nostur ef það er þess virði :)

Allt komið saman á diskinn og lítur vel út :)


Uppskriftin er fyrir 4

Kjúklingurinn
4-6 kjúklingabringur (1-1,5 á mann)
salt
pipar
1/2- 1 msk. karrý

Sætkartöflurfranskar
1 sæt kartafla
salt
pipar
ólífuolía

Smjörgljáðar kartöflur
8 meðalstórar kartöflur
salt
30 gr. smjör
1 msk. saxaður graslaukur


Súrsaðar agúrkur
1 agúrka
1/2 dl. hvítt balsamik edik eða hvítvínsedik
1-2 tsk. sykur
1/2 tsk. salt


Sveppa- og karrýsósa
1/2 askja sveppir
1 msk. karrý
500 ml. rjómi
1 kjúklingateningur
2 msk. smjör
olía


Hvítlaukssteiktur aspas
10-12 aspas (frekar stórir)
1 hvítlauksrif
2 msk. smjör
ólífuolía


Skerið sætu kartöfluna í mjóa strimla og raðið á bökunarplötu. Setjið ólífuolíu, salt og pipar yfir kartöflurnar og bakið þær í 200° heitum ofninum í um hálftíma.

Kryddið kjúklingabringurnar með smá karrý, salti og pipar og brúnið á pönnu. Setjið í ofninn í um það bil 20 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn.

Skerið kartöflurnar í tvo til fjóra bita og sjóðið þær í söltu vatni þar til þær eru mjúkar. Ekki ofsjóða þær, þá verða þær bara maukaðar og ekkert spennandi. Hellið vatninu af og bætið smjörinu út á og leyfið því að bráðna yfir kartöflurnar. Setjið pínu meira salt á þær og fínt saxaðan graslaukinn. Ef þið eigið ekki graslauk er líka mjög gott að nota mintu eða flatlaufa steinselju.

Sneiðið gúrkuna langsum í þunnar sneiðar, ég notað venjulegan grænmetisskrælara en það er hægt að nota ostaskera eða mandólín í verkið. Setjið í skál með ediki, sykri og salti og leyfið þessu að liggja í um það bil hálftíma, lengur ef þið getið.

Bræðið smjör og smá olíu á pönnu og steikið saxaða sveppina þar til þeir taka smá lit. Hellið rjómanum út á, karrý og kjúklingakraft og leyfið þessu að malla þar til rjóminn þykknar. Smakkið til með karrý og mögulega smá kjúklingakraft ef þarf. Notið endilega soðið af kjúklingabringunum ef það verður eitthvað svoleiðis til.

Bræðið smjör og olíu á pönnu og bætið út á fínt söxuðum hvítlauk og aspas. Leyfið þessu að malla á miðlungshita í um það bil 10 mínútur eða þar til aspasinn er farinn að mýkjast vel en samt ekki alveg maukaður.

Öllu er svo raðað fallega á disk og borðað með bestu lyst :) Þetta myndi slá í gegn í hvaða matarboði sem er!



No comments:

Post a Comment