Sunday, November 4, 2012

Kalkúnn á ítalska vísu

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskyldan til Ítalíu. Við eyddum 2 vikum í Toscana, algjörri paradís! Féllum gjörsamlega fyrir landinu og öllu sem því fylgir og draumurinn er að búa þar á einhverjum tímapunkti í lífinu. Búa á lítilli villu úti í sveit, rækta flest sem við þurfum að borða, vínber, ólífur, hænur á vappi, geit úti á túni... dásamlegur draumur!

Hugurinn reikaði til Toscana í dag og ég ákvað að koma með bragðið frá sólinni á Ítalíu hingað heim í storminn og kuldann. Nú er tíminn framundan þegar ansi margir elda kalkún með öllu tilheyrandi. Þessi er ansi frábrugðinn þessum hefðbundna ameríska stóra fugli, fylltum með brauði og kryddum, eldaður tímunum saman og borðaður á örstuttum tíma. Þessi er einfaldur í framkvæmd en bragðið flókið og kraftmikið. Ítalska skinkan setur svo punktinn yfir I-ið :)

Safaríkur kalkúnn, stökkar kartöflur og kraftmikil sósa


Uppskriftin er fyrir ca. 4-6, fer eftir stærð bringunnar

1 kalkúnabringa, mín var 1,1 kg.
150 gr. hreinn rjómaostur
3-4 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 msk. papriku bruschetta eða grilluð paprika í krukku
lítil handfylli ferskt basil (alls ekki nota þurrkað, það er allt annað bragð, notið frekar ferska steinselju ef þið fáið ekki basil), saxað
salt og pipar eða gott kalkúnakrydd, t.d. frá Pottagöldrum
Parmaskinka til að vefja utan um bringuna, ég var með frekar stórar sneiðar og notaði ca. 10

Grillaðar papriku fást í flestum verslunum, mér finnst þessi góð


Vel af fyllingunni!

Hylja allt kjötið með skinkunni

Hitið ofninn í 180-200°. Blandið saman rjómaosti, tómötum, paprikunni og basilinu. Skerið vasa í bringuna og setjið fyllinguna þar í. Kryddið bringuna og vefjið skinkunni utan um þannig að það loki eins vel fyrir og hægt er. Setjið inn í ofn í ca. klukkutíma fyrir hvert kíló. Ég var með þetta inn í klukkutíma og 10 mínútur. Fyrstu 40 mínúturnar var ég með lok yfir og tók það svo af til að leyfa skinkunni að verða stökkri og brakandi :)

Sósan
1/2 laukur
nokkrir sveppir
500 ml. rjómi
1 kjúklingateningur
lítil handfylli steinselja, mér finnst þessi flata íslenska fjallasteinselja rosalega góð!
fyllingin sem lekur út úr kalkúnabringunni
Olía eða smjör til að steikja

Skerið laukinn og sveppina í þunnar sneiðar. Steikið á pönnu á miðlungshita. Hellið rjóma yfir, hendið einum kjúklingateningi út í, saxaðri steinseljunni og leyfið þessu að malla á meðan bringan eldast í ofninum. Þegar þið takið bringuna út hefur örugglega slatti af fyllingunni lekið út, þið skellið því að sjálfsögðu út í sósuna! Smakkið til.

Kramdar kartöflur
Kartöflur
salt
ólífuolía

Ekki vera hrædd við að leyfa kartöflunum að brúnast vel


Sjóðið kartöflurnar. Hellið af þeim vatninu og skellið á ofnskúffu. Sullið yfir ólífuolíu og kremjið þær smá með gaffli. Saltið yfir og setjið á efstu hilluna í ofninum og bakið í 15-20 mínútur eða þar til þær eru farnar að brúnast í sárunum. 


Einfalt meðlæti að öðru leyti er nauðsynlegt. Grænt salat, gufusoðið grænmeti eða eitthvað slíkt. Ég henti tómötum og avocado i skál, setti smá ólífuolíu og gott balsamik edik yfir - reddí! Svo er bara að borða og njóta :)


1 comment: