Ekta comfort food |
Uppskriftin er fyrir 4-6, auðvelt að stækka og minnka. Þetta magn dugði okkur 4 (2 fullorðnir og 2 börn) í matinn og nesti daginn eftir fyrir okkur fullorðna fólkið.
Ekki láta langan lista af hráefnum hræða ykkur, hann er ekki eins langur og hann lítur út fyrir að vera og flestir eiga t.d. kryddin og sitthvað fleira í skápunum nú þegar. Ef ekki þá er flest á listanum eitthvað sem á að vera til á hverju heimili :)
1 kg. lambagúllash
olía til steikingar
1 stór laukur
3 hvítlauksrif
2 msk. paprika
1 1/2 msk. engiferkrydd
1/2 msk. cayenne pipar
1 tsk. kanill
1 tsk. cummin
nýmulinn svartur pipar
salt
1 dós saxaðir tómatar
1 dós eða ferna af tómatsósu (passata)
200 gr. þurrkaðir ávextir, ég notaði 100 gr. rúsínur, 50 gr. apríkósur og 50 gr. fíkjur
nokkrir saffranþræðir bleyttir í smá köldu vatni
1/2 lítri kjúklingasoð
1 dós kjúklingabaunir
1 handfylli ferskt kóríander
1 handfylli fersk steinstelja, ég nota flatlaufa steinseljuna, þessa hérna
Takið kjötið og veltið upp úr kryddunum. Best er ef kjötið fær að liggja í kryddunum í smá stund, jafnvel yfir nótt.
Falleg svona krydd |
Búið að krydda kjötið, magurt og fallegt lambakjöt |
Brúnið svo í þykkbotna og góðum potti sem hægt er að loka. Takið kjötið upp úr og steikið gróft saxaðan laukinn og fínt saxaðan hvítlaukinn. Leyfið því að "svitna" í 3-5 mínútur á miðlungshita. Bætið kjötinu út í aftur.
Bætið soðinu, tómötunum, tómatsósunni, saffraninu og þurrkuðu ávöxtunum út í. Leyfið þessu að malla í 1 1/2-2 tíma á vægum hita. Bætið kjúklingabaununum út í og leyfið að malla áfram í ca. 20 mínútur. Smakkið til með salti og pipar og ef til vill einhverju af kryddunum ef ykkur finnst þurfa. Stráið steinselju og kóríander yfir og berið fram með cous cous, ég gerði aðeins öðruvísi en ég er vön að gera en það má hafa cous cous-ið eins og hver og einn vill. Okkur fannst þetta passa mjög vel við kryddaðan og sætan pottréttinn. T.d. væri hægt að halda í sæta þemað og gera cous cous-ið í þessari uppskrift.
Cous cous
250-300 gr. cous cous hitað eftir leiðbeiningum á pakkanum, notað kjúklingasoð í stað vatns
handfylli söxuð mynta og kóríander
1 granatepli
Takið fræin úr granateplinu. Mér finnst gott að gera það í vatni því þá spítist safinn ekki í allar áttir.
Blandið saman cous cous, kryddjurtum og granateplum og berið fram með pottréttinum.
Litríkt, ferskt og gott |
No comments:
Post a Comment