Wednesday, December 5, 2012

Þorskur í kókos og karrý

Litríkt grænmetið umlykur fiskinn


Fiskur er fljótlegur í matreiðslu, þarf stuttan tíma í eldun og hægt að gera réttina eins flókna og maður vill. Mér finnst rosa gott að gera bara frekar einfalda pönnurétti, smá fiskur, smá grænmeti og sósa og allir glaðir :)
Svo hvet ég ykkur til að skipta hrísgrjónunum út fyrir Quinoa, þau er svo góð og svo holl að ég er eiginlega hætt að hafa hrísgrjón í matinn nema bara í grjónagraut. Hér skrifaði ég smá pistil um ágæti quinoa og mæli með því að þið lesið þetta! Og það besta er að maður þarf ekki lengur að fara í sérverslanir til að kaupa quinoa því það fæst í Bónus :) Þessi réttur er því algjör Omega bomba! Íslenskur fiskur og Omegaríkt quinoa og svo auðvitað dúndur vítamínríkt grænmeti! Hvað meira viljum við á miðvikudegi?

Uppskriftin er fyrir 4

800 gr. - 1 kg. Þorskur (má vera ýsa eða annar fiskur)
Hveiti
1 msk. Paprikuduft
1 msk. Karrý
Salt og pipar

Grænmeti að vild, laukur er samt skilyrði! Ég notaði líka sveppi, brokkolí, gulrætur, papriku og baunir
1/2 grænmetisteningur
smá paprika og karrý ef þarf
1 dós kókosmjólk
Kókosolía eða önnur góð olía til að steikja upp úr

Blandið saman hveiti og kryddi og veltið fiskinum upp úr því. Hitið olíu á pönnu og brúnið fiskinn á frekar heitri pönnunni.

Fiskurinn verður fallegur á litinn af kryddunum!



Saxið grænmetið og verið ekkert að skera það of smátt, við viljum finna fyrir því!



Takið fiskinn af pönnunni, ekki skola á milli, bætið olíu á ef þarf og steikið grænmetið í stutta stund, ca. 3-5 mínútur. Hellið kókosmjólkinni yfir grænmetið og bætið út í hálfum grænmetisteningi. Raðið fiskinum ofan á og leyfið þessu að malla í 5-10 mínútur.

Sósan kraumar og dregur í sig bragðið úr fiskinum


Ég lét fiskinn ekki alveg ofan í því mér finnst gott að hafa smá skorpu á fiskinum en fá samt smá bragð af honum í sósuna. Ef ykkur finnst þurfa þá smakkið þið sósuna til með karrý og papriku. Berið þetta svo fram með Quinoa eða hrísgrjónum. Nema þið séuð mamma mín þá fáið þið ykkur auðvitað kartöflur með fiskinum ykkar :)

2 comments:

  1. Mjög girnilegt Silla.. þetta verður prófað í vikunni :)

    ReplyDelete
  2. steikja sneitt bacon fyrst síðan grænmetið hella soði yfir sjóða niður síðan rjóma sjóða niður setja á diska ...síðan steikja þorskhnakkastykki (velt uppúr hveiti ,kókos, karrí, salti og pipar. 2 mín á annari og eina á hinni..í smjöri og olíu..leggja stykkin ofan á grænmetið á diskinum hella smjörinu af pönnunni yfir....NJÓTA


    takk fyrir þína ...mjög góð....þetta er mín

    ReplyDelete