Thursday, March 29, 2012

Hollusta í hverjum bita

Kjúklingur, grænmeti og quinoa fræ... dásamlegt! Þessi uppskrift er svo holl og svo góð. Kjúklingurinn og grænmetið eldað í einum stórum svörtum potti, þessum týpíska sem er til á svo mörgum heimilum. Ef hann er ekki til er það bara stórt eldfast mót sem tekur heilan kjúkling og fullt af grænmeti og hægt er að loka. Grænmetið er svo maukað eins og kartöflumús.



Ég nota oft quinoa fræ í staðinn fyrir hrísgrjón og planið er að nota þau ennþá meira. Allir fjölskyldumeðlimir eru hrifnir af þeim því það er ótrúlega gaman að borða þau út af skemmtilegri áferð sem þau hafa. Quinoa fræ eru SÚPER HOLL! Þau eru glúteinlaus og því tilvalin fyrir þá fjöldamörgu sem vilja forðast glútein. Þau eru samt sem áður trefjarík sem er frábært fyrir meltinguna. Þau innihalda heilmikið af omega-3 sem er okkur svo lífsnauðsynleg. Þau innihalda mjög hátt hlutfall af próteini sem er eitthvað sem íþróttamenn sérstaklega þurfa á að halda og miklu betra að fá góð prótein úr mat en dufti.... þau eru járnrík og innihalda fleiri vítamín einnig. Þau hafa lágan glycemic stuðul sem er frábært því það hjálpar til við að halda blóðsykrinum í skefjum. Það tekur styttri tíma að elda quinoa fræ en hýðishrísgrjón sem er mikill kostur því ég gleymi alltaf að setja upp hrísgrjónin og fatta það þegar 10 mínútur eru í mat.... það tekur ekki nema korter að sjóða heil, falleg, holl og góð quinoa fræ.



Engin fyrirmæli um hversu marga þessi uppskrift er fyrir. Hjá okkur dugir einn kjúklingur fyrir okkur 4 (Daði minn er duglegur að borða) og alltaf smá afgangur fyrir einn að taka með í nesti eða búa til pasta eða salat daginn eftir. Þið vitið líklega best hvað kjúklingurinn er fyrir marga á ykkar heimili og grænmetismagnið er svo bara smekksatriði.






1 heill kjúklingur
Grænmeti eftir smekk t.d. laukur, kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur, brokkolí, hvítlaukur
1 sítróna
Salt og pipar
ólífuolía
Grænmetissoð

Hitið ofninn í 200°. Skerið grænmetið í frekar stóra bita og hafið hvítlauksrifin heil, raðið þessu í botninn á fatinu. Hellið smá ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Skerið sítrónuna í tvennt, kreystið safann úr helmingnum yfir kjúklinginn og kryddið hann með salti og pipar. Setjið báða helmingana af sítrónunni með grænmetinu. Smellið loki á fatið og inn í ofn í ca. klukkutíma eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Þegar ca. korter er eftir af eldunartímanum takið grænmetið úr fatinu og setjið kjúklinginn aftur inn í ofninn til að fá smá brúna skorpu á hann. Maukið grænmetið í matvinnsluvél eða með töfrasprota og bætið góðu grænmetissoði út í. Mér finnst best að hafa áferðina svipaða og á kartöflumús. Smakkið til með salti og pipar og kreystið safann af bökuðu sítrónunni út í líka. Berið þetta svo fram með quinoa fræjunum. Dásamlega hollt og gott :)