Monday, October 31, 2011

Kjúklingur í pestó og spaghetti

Við eldum gríðarlega mikið af kjúklingi enda bæði hollur og góður. Þessi réttur er fljótlegur og við eldum hann oft. Þetta er alltaf síðasta kvöldmáltíðin áður en Daði fer í keppni, prótein og kolvetni og nóg af því!

Þessi uppskrift er fyrir 4 en hana er einfalt að minnka eða stækka, hef gert þetta fyrir nokkra STÓRA Bootcamp stráka sem eru duglegir að borða og þá dugir 1 bringa á mann ekki neitt!

4 kjúklingabringur
1/2 krukka pestó (eða heimagert sem er ennþá betra)
1/2 dl. ólífuolía eða olían af fetaostinum
2-4 tómatar (fer eftir stærð)
1/2 krukka fetaostur
handfylli rifinn parmesan ostur
salt og pipar
spaghetti

Blandið saman pestó og olíu í eldföstu móti og kryddið með salti og pipar. Magnið af olíunni getur verið minna eða meira, fer allt eftir því hversu þurrt pestóið er, en þetta má ekki vera of þunnt. Veltið bringunum upp úr sósunni og raðið í formið. Sneiðið tómatana þunnt og raðið ofan á bringurnar. Stráið fetaostinum yfir allt. Bakið í 200° heitum ofni í 20-30 mínútur eða þangað til bringurnar eru tilbúnar. Ekki ofelda kjúkling! Við viljum ekki þurrar og vondar bringur heldur safaríkar og flottar :)
Sjóðið spaghetti skv. leiðbeiningum á pakkanum en í staðinn fyrir að salta vatnið er gott í þetta sinn að setja einn kjúklingatening út í. Sigtið pastað frá og takið frá 1 bolla af pastavatninu. Takið bringurnar upp úr sósunni, hellið pastavatninu saman við sósuna (ekki öllu í einu heldur smám saman, kannski þarf ekki allt vatnið) og rifnum parmesan. Hrærið þessu vel saman og skellið spaghettiinu saman við. Berið fram með brakandi fersku brauði.

Saturday, October 15, 2011

Jamie magazine

Ég sagði upp áskriftinni að Gestgjafanum eftir að hafa verið áskrifandi í töluverðan tíma. Fínt blað en þegar maður er búinn að vera áskrifandi lengur en í ár þá hættir það að vera spennandi. Fullt af flottum uppskriftum en oft á tíðum of mikið af því sama.... Ég ákvað að kanna hvort hægt væri að panta eitthvað spennandi erlendis frá. Og viti menn, áskrift að Jamie magazine kostar álíka mikið hingað komið eins og Gestgjafinn. Og maður minn hvað það er meira spennandi og skemmtilegt blað! Mæli með því fyrir alla sem hafa gaman að því að fletta í matreiðslublöðum og bókum í leið að nýjum hugmyndum :)

Thursday, October 13, 2011

Spaghetti meatballs


Þetta er matur sem gaman er að gera með litlum hjálparkokkum. Þetta er auðvitað smá handavinna en algjörlega þess virði og mjög þægilegt að gera slatta af bollum og frysta. Taka svo út þegar maður er í letikasti og nennir ekki að standa í miklu í eldhúsinu. Henda í einfalda pastasósu, spaghetti í pott og bollurnar í ofninn. Góður matur á innan við hálftíma!

Í rétti þar sem ég nota mikinn hvítlauk er ég farinn að rífa hvítlaukinn í góðu rifjárni og það er svo miklu þægilegra og hreinlegra og auðvelt að þrífa rifjárnið. Svona Microplane er algjör snilld og nauðsynlegt í öll vel útbúin eldhús! 

Uppskriftin er fyrir 4

500 gr. nautahakk
4 hvítlauksrif, rifin, söxuð eða kreist....
2 egg
2 brauðsneiðar, mjög smátt saxaðar
handfylli steinselja, fínt söxuð
1/2 stk. rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Mér finnst best að láta hrærivélina mína vinna þetta fyrir mig. Blandið saman öllu en setjið eggin síðust út í. Saltið og piprið eftir smekk en munið að osturinn er svolítið saltur svo það þarf ekki mikið salt. Mótið bollur sem er á stærð við borðtenniskúlur. Ég er hætt að steikja í olíu á pönnu heldur raða ég bollunum á ofnplötu klædda smjörpappír og baka í 200° heitum ofni í ca. 25 mínútur. Með þessu geri ég svo einfalda pastasósu sem hljómar einhvern veginn svona.

Ólífuolía til steikingar
1 lítill laukur
2 gulrætur
2 stilkar sellerí
2 hvítlauksrif
1 dós tómatar
1 dós tómatpúrra
1 dl. rauðvín (má sleppa en er samt eiginlega nauðsynlegt)
handfylli steinselja og basil eða bara önnur hvor tegundin
salt og pipar
ögn af sykri eða hunangi

saxið allt grænmetið smátt og steikið í potti á meðalhita í nokkrar mínútur eða þar til það er orðið mjúkt. Blandið saman við tómötum, tómatpúrru, rauðvíni og sykri/hunangi. Kryddið til með salti og pipar og bætið kryddjurtum útí. Látið malla í eins langan tíma og þið getið, því lengur því betra! Ég byrja oftast á sósunni og læt hana malla á meðan ég græja bollurnar. Skellið sósunni í blandara eða maukið létt með töfrasprota. 
Sjóðið spaghetti skv. leiðbeiningum á pakkanum og blandið saman við sósuna og bollurnar. Berið fram með rifnum parmesan osti og góðu brauði. Ef ég mætti ráða öllu á heimilinu mínu myndi ég brúna bollurnar í ofninum og leyfa þeim svo að malla í sósunni þar til þær eru tilbúnar. En restin af fjölskyldumeðlimunum eru ekki sammála mér með það.... 
Með svona ítölsku góðgæti er að sjálfsögðu ekki hægt annað en að fá sér gott ítalskt Chianti vín! Hér er t.d. eitt sem hentar vel með þessum rétti Villa Puccini Chianti Riserva

Wednesday, October 12, 2011

Hádegisbaka

Það er svo einfalt að bjóða upp á góða böku ef maður ætlar að elda eitthvað gott í hádeginu, jafnvel að fá gesti í lunch á sunnudegi.
Þessa böku gerði ég fyrir góða gesti og rann hún svo hratt niður að ekki náðist að taka mynd.... en hún leit girnilega út og bragðaðist ansi vel!

Skinku- og bacon baka fyrir 6

botninn
150 gr. gróft spelt
100 gr. hveiti
smá salt
150 gr. kalt smjör í litlum bitum
4 msk. kalt vatn

Blandið þurrefnum saman og bætið smjörinu saman við. Vinnið þetta í smá stund þar til þetta fer að líkjast brauðrasp. Bætið þá vatninu og egginu út í og hnoðið létt saman, alls ekki of mikið. Kælið í hálftíma til klukkutíma. Mér finnst þægilegast að nota hefðbundið kringlótt smelluform því þá get ég tekið bökuna úr og borið fram á fallegum diski. Notið hendurnar til að þrýsta deiginu í formið og vel upp á hliðarnar, nánast alveg upp. Í þetta fer svo:

1 pk. skinka
1 bréf bacon
3-4 sveppir
1/2 rauðlaukur
1/2 lítill brokkolíhaus
1/2 rauð paprika
500 ml. rjómi
5 egg
handfylli rifinn ostur
salt og pipar

Skerið allt í litla bita. Steikið bacon á þurri pönnu og bæti grænmetinu saman við eftir stutta stund. Hrærið saman egg og rjóma og kryddið með salti og pipar (ekki mikið salt því baconið er salt). Blandið baconblöndunni, skinku og osti saman við og hellið yfir bökudeigið. Bakið í 180° heitum ofni í 20-30 mínútur eða þar til eggjablandan er orðin frekar stíf og ef prjóni er stungið í miðjuna kemur hann nokkuð þurr upp úr.

Með þessu ber ég svo fram gott salat og dressingu. T.d. sinnepssdressingu sem ég geri með því að blanda saman 1 dós af sýrðum rjóma, 1 msk. dijon sinnepi og 1 msk. hlynsírópi. Krydda svo til með smá salti og pipar.

Það er svo auðvitað lítið mál að skipta öllum hráefnunum út, t.d. gera kjúklinga- og spínatböku, grænmetisböku.... bara það sem hugurinn girnist og finnst í ísskápnum hverju sinni :)

Thursday, October 6, 2011

Möndlusmjör


Möndlur er eitthvað sem allir ættu að borða. Þær eru stútfullar af næringu og góðri fitu (ekki hræðast fituna!) sem er góð fyrir hjartað, og möndlur eru einnig taldar lækka vonda kólesterólið okkar. Úr möndlunum fáum við líka smá prótein, E-vítamín og trefjar.
Eini gallinn við möndlur er hvað þær eru dýrar.... sérstaklega ef maður vill fá möndlurnar sínar lífrænar. Möndlusmjör og möndlumjólk sem við notum svolítið líka er ennþá dýrari og þá gerist maður úrræðagóður og býr til til sitt eigið. Og í þetta sinn er það möndlusmjörið góða. 

Hitið ofninn í 180-200°, setjið eins mikið af möndlum og þið viljið á plötu og inn í ofninn í stutta stund. Þið viljið alls ekki rista þær of mikið því þá kemur brunabragð af möndlusmjörinu (já, ég lenti í því!). Þetta getur tekið ca. 8-10 mínútur en það er gott að hreyfa við þeim eftir 5 mínútur og sjá hver staðan er. 
Setjið möndlurnar í blandara eða matvinnsluvél ásamt örlitlu af góðu salti (Maldon eða himalaya salt t.d.) og maukið. Ef ykkur finnst þurfa getið þið sett smá slettu af ólífuolíu eða kókosolíu útí.
Þetta er þolinmæðisvinna, tekur 10-15 mínútur að fá olíuna út úr möndlunum og verða að mauki. En þetta er svo þess virði!
Besta sem við vitum á heimilinu er að skera epli í skífur og dýfa þeim í möndlusmjörið, algjört sælgæti! Svo er þetta auðvitað frábært á brauð og kex með góðri sultu eða banana :)