Thursday, October 6, 2011

Möndlusmjör


Möndlur er eitthvað sem allir ættu að borða. Þær eru stútfullar af næringu og góðri fitu (ekki hræðast fituna!) sem er góð fyrir hjartað, og möndlur eru einnig taldar lækka vonda kólesterólið okkar. Úr möndlunum fáum við líka smá prótein, E-vítamín og trefjar.
Eini gallinn við möndlur er hvað þær eru dýrar.... sérstaklega ef maður vill fá möndlurnar sínar lífrænar. Möndlusmjör og möndlumjólk sem við notum svolítið líka er ennþá dýrari og þá gerist maður úrræðagóður og býr til til sitt eigið. Og í þetta sinn er það möndlusmjörið góða. 

Hitið ofninn í 180-200°, setjið eins mikið af möndlum og þið viljið á plötu og inn í ofninn í stutta stund. Þið viljið alls ekki rista þær of mikið því þá kemur brunabragð af möndlusmjörinu (já, ég lenti í því!). Þetta getur tekið ca. 8-10 mínútur en það er gott að hreyfa við þeim eftir 5 mínútur og sjá hver staðan er. 
Setjið möndlurnar í blandara eða matvinnsluvél ásamt örlitlu af góðu salti (Maldon eða himalaya salt t.d.) og maukið. Ef ykkur finnst þurfa getið þið sett smá slettu af ólífuolíu eða kókosolíu útí.
Þetta er þolinmæðisvinna, tekur 10-15 mínútur að fá olíuna út úr möndlunum og verða að mauki. En þetta er svo þess virði!
Besta sem við vitum á heimilinu er að skera epli í skífur og dýfa þeim í möndlusmjörið, algjört sælgæti! Svo er þetta auðvitað frábært á brauð og kex með góðri sultu eða banana :)


No comments:

Post a Comment