Tuesday, September 27, 2011

Haustsúpa

Nú þegar haustið er komið með öllum sínum fallegu litum og kvöldmyrki er fátt betra en að kveikja á kertum, leggja fallega á borð og gera vel við sig. Fá sér holla og góða súpu, brakandi ferskt brauð og frísklegt hvítvínsglas :)
Þessi súpa er holl og góð og sérlega góð til að koma grænmeti ofan í krakkana. Uppskriftin er fyrir ca. 6


Kókosolía til steikingar (má vera ólífuolía)
1 stór laukur
2 stilkar sellerí
3 gulrætur
2 hvítlauksgeirar
4 sveppir
1/2 lítil sæt kartafla
1/2 rauð paprika
1/2 lítill brokkolíhaus
smá bútur af kúrbít
2 stilkar ferskt rósmarín
2 dósir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
góður grænmetiskraftur
1 lítri vatn
salt og pipar eftir smekk
Handfylli ferskt basil eða steinselja


Svo dásamlega litríkt og fallegt!
Saxið allt grænmetið í frekar smáa bita. Steikið lauk, hvítlauk, sellerí og gulrætur í 2-3 mínútur eða þar til grænmetið er farið að mýkjast og taka smá lit. Setjið þá allt hitt grænmetið út í og steikið áfram í 2 mínútur. Setjið þá allt nema basil/steinselju. Látið malla í 20-30 mínútur á lágum hita. Takið súpuna af hitanum og maukið í blandara/matvinnsluvél eða með töfrasprota og smakkið til með salti og pipar og grænmetiskrafti ef þarf. Stráið basil eða steinselju yfir og berið strax fram. Það er einnig hægt að sleppa því að mauka súpuna en það hefur virkað betur að mauka hana því þá sjá börnin ekki allt sem er í súpunni og borða því meira af henni.

No comments:

Post a Comment