Thursday, October 13, 2011

Spaghetti meatballs


Þetta er matur sem gaman er að gera með litlum hjálparkokkum. Þetta er auðvitað smá handavinna en algjörlega þess virði og mjög þægilegt að gera slatta af bollum og frysta. Taka svo út þegar maður er í letikasti og nennir ekki að standa í miklu í eldhúsinu. Henda í einfalda pastasósu, spaghetti í pott og bollurnar í ofninn. Góður matur á innan við hálftíma!

Í rétti þar sem ég nota mikinn hvítlauk er ég farinn að rífa hvítlaukinn í góðu rifjárni og það er svo miklu þægilegra og hreinlegra og auðvelt að þrífa rifjárnið. Svona Microplane er algjör snilld og nauðsynlegt í öll vel útbúin eldhús! 

Uppskriftin er fyrir 4

500 gr. nautahakk
4 hvítlauksrif, rifin, söxuð eða kreist....
2 egg
2 brauðsneiðar, mjög smátt saxaðar
handfylli steinselja, fínt söxuð
1/2 stk. rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Mér finnst best að láta hrærivélina mína vinna þetta fyrir mig. Blandið saman öllu en setjið eggin síðust út í. Saltið og piprið eftir smekk en munið að osturinn er svolítið saltur svo það þarf ekki mikið salt. Mótið bollur sem er á stærð við borðtenniskúlur. Ég er hætt að steikja í olíu á pönnu heldur raða ég bollunum á ofnplötu klædda smjörpappír og baka í 200° heitum ofni í ca. 25 mínútur. Með þessu geri ég svo einfalda pastasósu sem hljómar einhvern veginn svona.

Ólífuolía til steikingar
1 lítill laukur
2 gulrætur
2 stilkar sellerí
2 hvítlauksrif
1 dós tómatar
1 dós tómatpúrra
1 dl. rauðvín (má sleppa en er samt eiginlega nauðsynlegt)
handfylli steinselja og basil eða bara önnur hvor tegundin
salt og pipar
ögn af sykri eða hunangi

saxið allt grænmetið smátt og steikið í potti á meðalhita í nokkrar mínútur eða þar til það er orðið mjúkt. Blandið saman við tómötum, tómatpúrru, rauðvíni og sykri/hunangi. Kryddið til með salti og pipar og bætið kryddjurtum útí. Látið malla í eins langan tíma og þið getið, því lengur því betra! Ég byrja oftast á sósunni og læt hana malla á meðan ég græja bollurnar. Skellið sósunni í blandara eða maukið létt með töfrasprota. 
Sjóðið spaghetti skv. leiðbeiningum á pakkanum og blandið saman við sósuna og bollurnar. Berið fram með rifnum parmesan osti og góðu brauði. Ef ég mætti ráða öllu á heimilinu mínu myndi ég brúna bollurnar í ofninum og leyfa þeim svo að malla í sósunni þar til þær eru tilbúnar. En restin af fjölskyldumeðlimunum eru ekki sammála mér með það.... 
Með svona ítölsku góðgæti er að sjálfsögðu ekki hægt annað en að fá sér gott ítalskt Chianti vín! Hér er t.d. eitt sem hentar vel með þessum rétti Villa Puccini Chianti Riserva

No comments:

Post a Comment