Monday, October 31, 2011

Kjúklingur í pestó og spaghetti

Við eldum gríðarlega mikið af kjúklingi enda bæði hollur og góður. Þessi réttur er fljótlegur og við eldum hann oft. Þetta er alltaf síðasta kvöldmáltíðin áður en Daði fer í keppni, prótein og kolvetni og nóg af því!

Þessi uppskrift er fyrir 4 en hana er einfalt að minnka eða stækka, hef gert þetta fyrir nokkra STÓRA Bootcamp stráka sem eru duglegir að borða og þá dugir 1 bringa á mann ekki neitt!

4 kjúklingabringur
1/2 krukka pestó (eða heimagert sem er ennþá betra)
1/2 dl. ólífuolía eða olían af fetaostinum
2-4 tómatar (fer eftir stærð)
1/2 krukka fetaostur
handfylli rifinn parmesan ostur
salt og pipar
spaghetti

Blandið saman pestó og olíu í eldföstu móti og kryddið með salti og pipar. Magnið af olíunni getur verið minna eða meira, fer allt eftir því hversu þurrt pestóið er, en þetta má ekki vera of þunnt. Veltið bringunum upp úr sósunni og raðið í formið. Sneiðið tómatana þunnt og raðið ofan á bringurnar. Stráið fetaostinum yfir allt. Bakið í 200° heitum ofni í 20-30 mínútur eða þangað til bringurnar eru tilbúnar. Ekki ofelda kjúkling! Við viljum ekki þurrar og vondar bringur heldur safaríkar og flottar :)
Sjóðið spaghetti skv. leiðbeiningum á pakkanum en í staðinn fyrir að salta vatnið er gott í þetta sinn að setja einn kjúklingatening út í. Sigtið pastað frá og takið frá 1 bolla af pastavatninu. Takið bringurnar upp úr sósunni, hellið pastavatninu saman við sósuna (ekki öllu í einu heldur smám saman, kannski þarf ekki allt vatnið) og rifnum parmesan. Hrærið þessu vel saman og skellið spaghettiinu saman við. Berið fram með brakandi fersku brauði.

No comments:

Post a Comment