Monday, February 27, 2012

STEIK


Þegar við leyfum okkur þann munað að kaupa fínt nautakjöt förum við yfirleitt einföldu leiðina, salt, pipar og kannski smá hvít truffluolía. En í þetta sinn vorum við aðeins djarfari og það virkaði svona líka vel! Kjötið heppnaðist fullkomlega og ekkert meira um það að segja.... :)
Dálítið erfitt að segja til með magnið, svo rosalega misjafnt hvað fólk borðar mikið, og hversu mikið meðlæti er með. Daði minn er alltaf að stækka og hann borðar MIKIÐ kjöt! Ég var með 600 gr. steik og það var smá afgangur, s.s. Daði hefur borðað ca. 400 gr. og ég kannski 150 gr. Venjulega er miðað við 200-250 gr. af hreinu kjöti á mann.

Uppskriftin miðast við 600 gr. af kjöti

600 gr. nautalund
Marinering:
2 msk. kornasinnep (Dijon)
4 msk. sojasósa
1 hvítlauksrif, heill en kraminn vel með hnífi
1 tsk. chilliolía eða smá saxað ferskt chilli
1 msk. ólífuolía

Blandið saman öllu sem á að fara í marineringuna og þægilegast er að nota zip loc poka. Setjið kjötið í pokann og látið marinerast í a.m.k. klukkutíma, jafnvel yfir nótt.
Steikið kjötið á heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Pakkið vel inn í álpappír (helst tvöfalt lag) og setjið í 180° heitann ofn í 10 mínútur. Takið út og vefjið inn í handklæði eða viskustykki og látið standa í aðrar 10-20 mínútur. Skerið í þunnar sneiðar þegar þið berið fram. Þessi aðferð gefur ykkur medium rare kjöt, þið hafið það lengur eða styttra í ofninum ef þið viljið það steikt öðruvísi.

Með þessu var ég með ofnbakaðar kartöflur og sætar kartöflur, salat (sem var eiginlega óþarfi....) og nokkurs konar sósu. Hana bjó ég til þannig að ég sauð niður marineringuna ásamt smá vatni og 1/2 nautateningi. Smakkaði hana bara til með vatni og krafti. Þetta er ekki sósa eins og við þekkjum með rjóma, sósujafnara, uppbökuð ömmusósa heldur eitthvað sem líkist gljáa (glaze), miklu bragðmeira og þarf mun minna af. Kjötið er líka svo bragðmikið og safaríkt að sósa hefði bara eyðilagt upplifunina :)
Með þessu dugir svo ekkert minna en gott rauðvín!

No comments:

Post a Comment