Wednesday, April 11, 2012

Austurlenskur kjúklingur

Eftir súkkulaðiát páskanna er tilvalið að fá sér eitthvað aðeins léttara og vona að buxnastrengurinn víkki aftur smátt og smátt.... :)
Ég er svo heppin að eiga tengdamóður sem er algjör snillingur í eldhúsinu og ég fékk svo góðan kjúklingarétt hjá henni þegar ég skellti mér í húsmæðraorlof til hennar fyrr í vetur. Ég reyndi svo að herma og gera eitthvað svipað og þetta er útkoman. Hann er ekki alveg eins en mjög góður engu að síður. Hægt er að stjórna "hitanum" með því að setja meira eða minna af chilli-inu, og hann er góður bæði mildur og sterkur.



Rétturinn er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur bútaður niður eða sambærilegt magn af kjúklingabitum
salt og pipar
olía til steikinga (ég nota kókosolíu)

Brúna kjúklingabitana á heitri pönnu og krydda með salti og pipar. Takið kjúklinginn af og raðið í eldfast mót sem má fara í ofn.

Setjið eftirfarandi hráefni í matvinnsluvél eða blandara og maukið vel:
2 stilkar sítrónugras
góður bútur af engifer
1/2-1 rautt chilli
2 msk. fiskisósa
4 msk. soyja sósa
3 hvítlauksrif
safi og börkur af 1 lime
1 tómatur
1 lítill rauðlaukur


Hellið þessu svo á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á (ekki skola á milli) og látið malla stutta stund, ca. 5 mínútur á vægum hita.
Hellið einni dós af kókosmjólk út í, smakkið til með soyja og fiskisósu og lime safa ef þarf. Hellið þessu yfir kjúklinginn og smellið öllu í 180-200° heitan ofn í ca. 20 mínútur eða þar til sósan hefur soðið svolítið niður og kjúklingurinn orðinn safaríkur og góður. Stáið handfylli af fersku kóriander yfir. (steinselja sleppur í neyð) Berið þetta fram með hrísgrjónum (cous cous, bygg eða quinoa er líka snilld með þessu) og salati. Það er líka rosa gott að hafa góð chutney eða eitthvað slíkt með. Ef ykkur finnst þetta ekki nóg sósa er hægt að auka magnið af flestum hráefnum, 1 tómatur í viðbót eða eitthvað í þá áttina.

No comments:

Post a Comment