Saturday, May 4, 2013

Kjúklingur með súrsætu ívafi

LOKSINS LOKSINS!!! Nú er vonandi þessari bloggþurrkatíð lokið og ég get farið að setja inn eitthvað af uppskriftum á þessa litlu síðu mína. Ég er bara búin að vera í svo skemmtilegu verkefni að skrifa fyrir Gestgjafann að öll uppskrifta orkan mín hefur farið í það. En það verkefni er væntanlega komið til að vera og ég er gríðarlega spennt yfir því. Gaman að fá svona tækifæri og vonandi opnar það bara enn fleiri dyr :) Ég hef líka aðeins verið að taka að mér veislur og það er nýtt fyrir mér líka en hefur gengið glimrandi vel og ég hef fengið góðar viðtökur! Vonandi verður eitthvað meira spennandi úr því líka og endilega hafið mig í huga fyrir mannfögnuði af ýmsum toga :)
En að uppskrift dagsins! Ég er auðvitað alltaf að reyna að finna upp hjólið þegar kemur að kjúklingauppskriftum og fletti bókum og blöðum fram og aftur. Ég mundi eftir uppskrift sem ég fann í Jamie Oliver bók fyrir mörgum árum síðan sem var svo góð og útfærði hana á svolítið skemmtilegan hátt og heppnaðist ótrúlega vel. Hér eru skemmtileg og ólík hráefni sem mynda súrsæta stemmningu og eitthvað gjörólíkt því sem maður er vanur að gera. Hvet ykkur til að prófa!

Vel af sósu, quinoa og gullinn kjúklingur


Uppskriftin er fyrir ca. 4 (fer eftir stærð fuglsins)

1 stór kjúklingur
2 rauðar paprikur (eða rauð og gul)
1 rauðlaukur
1/2-1 rautt chilli
1 lítil dós ananas (eða 1/4 ferskur ananans)
handfylli steinselja og basil eða bara annað hvort
2 msk. ólífuolía
2 tsk. fennel
salt og pipar
2 þumlungar engifer
3 msk. balsamik edik

Tilbúið í ofninn


Skerið paprikuna og laukinn í stóra báta og raðið í botninn á ofnfati sem er nógu stórt fyrir kjúklinginn og grænmetið og hægt er að loka. Hellið safanum af ananasinum (geymið safann) og setjið hann í fatið. Saxið chilli-ið gróft og setjið út í. Hellið olíunni yfir, kryddið með fennel, gróft söxuðum kryddjurtum,  salti og pipar og blandið vel. Rífið engiferið gróft og skellið því innan í kjúklinginn, kryddið hann með salti og pipar og leggið ofan á grænmetið. Lokið fer á og inn í 190° heitan ofn í klukkutíma og korter. Takið þá lokið af og eldið áfram í ca. korter eða þar til kjúklingurinn hefur fengið á sig fallega skorpu og er eldaður í gegn. 
Takið kjúklinginn úr fatinu og látið allan safann leka af honum yfir grænmetið, allt í góðu ef smá engifer dettur út úr honum og ofan í grænmetið. Maukið grænmetið annað hvort með töfrasprota eða í blandara og ekkert vera að hafa það of vel maukað, sósan má hafa grófa áferð. Bætið út í balsamik ediki og safanum af ananasinum. Smakkið til með edikinu og salti og pipar. Með þessu bar ég fram quinoa eins og svo oft áður en hægt er að hafa bara salat eða hrísgrjón. 

No comments:

Post a Comment