Sunday, June 9, 2013

Grillaður maís


Ég fékk þessa flottu maís stöngla í Bónus og varð bara að kaupa þá! Ferskur maís er svo góður að meira að segja þeir sem segjast ekki borða hann geta ekki hætt! Ég er ekki hrifin af Ora maís í dós, finnst hann satt að segja hræðilega vondur en ferskur grillaður maís er eins og sælgæti! Og svo einfalt og þarf ekki mikið til að hann sé alveg dásamlegur. Það eina sem þarf er smá olía og smá smjör. 

Byrjið á því að leggja maísinn í kalt vatn í 10-15 mínútur. Þannig draga blöðin í sig vatnið, brenna síður og kornið innan í soðnar almennilega. Takið stönglanna úr vatninu og veltið upp úr smá olíu til að þeir festist síður við grillið. Grillið á miðlungsheitu grillinu í 15-20 mínútur og snúið reglulega. Takið af grillinu og um leið og þið getið höndlað stönglana takið þið utan af þeim blöðin og skerið kornið af. Setjið í skál og smá smjör klípur hér og þar og berið fram með uppáhalds grillmatnum ykkar. Ég var með grillaða Blálöngu og kartöflumús og þetta passaði mjög vel með því!

Skotheld leið við að taka kornið af stönglinum. Setjið skál á hvolf ofan í stærri skál og skerið utan af.

Leyfið smjörinu að bráðna og leka um kornið




No comments:

Post a Comment