Thursday, November 29, 2012

Möndlugotterí

Við erum dugleg að borða hnetur og möndlur í ýmsum útgáfum, helst er það möndlusmjörið sem við öll elskum. Stundum hendum við möndlum á pönnu og gerum eitthvað gotterí úr þeim. Það er líka hægt að nota alls konar fræ, t.d. er frábært að nota þessa aðferð við sólblóma- eða graskersfræ og nota út á salat.




400 gr. möndlur
2 msk. teriyaki sósa
1 msk. hunang eða hlynsíróp

Ristið möndlurnar á pönnu þar til þær eru farnar að taka smá lit. Skvettið þá teriyaki og hunangi/sírópi út á leyfið því að húða allar gómsætu möndlurnar. Þið gætuð þurft að setja pínu meiri teriyaki ef ykkur finnst þær ekki nógu bragðmiklar. Hellið svo hnetunum á smjörpappír og reynið að dreifa vel úr þeim svo þær festist síður saman. Borðið og njótið :)

Sunday, November 25, 2012

Góður sunnudagur

Við fjölskyldan elskum sunnudaga! Þá er yfirleitt lítið planað og hægt að byrja daginn í rólegheitum, horfa saman á  barnatímann og borða morgunmatinn og lesa blöðin. Stundum tökum við það alla leið og bökum amerískar pönnsur með öllu tilheyrandi. Við notum alltaf sömu uppskriftina sem er algjörlega skotheld og var stolið frá hinum frábæra Jamie Oliver. Kökurnar eru léttar og mjúkar en ekki eins og íslenskar skonsur sem maður fær stundum. 

Mmmmmm


Uppskriftin er frekar lítil, hentar fyrir okkur fjölskylduna, 2 fullorðnir og 2 börn

3 stór egg
salt á hnífsoddi
115 gr. hveiti
140 ml. mjólk
1 tsk. lyftiduft


Stífþeytið eggjahvítur ásamt örlitlu salti. Blandið restinni af hráefnunum saman í annarri skál. Blandið eggjahvítunum mjög varlega saman við restina af hráefnunum. Alls ekki hræra of mikið því þá fer allt loftið úr blöndunni. 
Hitið pönnu með öööörlítilli olíu og bakið pönnukökurnar á miðlungs- háum hita. Ef þið eigið bláber, maiskorn eða eitthvað slíkt er sniðugt að bæta þeim á kökurnar áður en þið snúið þeim við, bláberin eru sérstaklega vinsæl hjá okkur :) 
Berið fram með stökku beikoni, íslensku smjöri og góðu hlynsírópi. Og svo er gott kaffi algjörlega ómissandi! Núna myndi ég t.d. mæla sérstaklega með Hátíðarkaffi frá Te & Kaffi, það er algjörlega dásamlegt í ár!

Ef þið eigið kost á því að kaupa alvöru, gott hlynsíróp þá er himinn og haf á milli þess og þessa hefðbundna sem maður kaupir í stórmörkuðum. Þið verðið bara að smakka til að trúa! Þetta fékk ég að gjöf, var keypt í Ameríkunni held ég og er svo gott að ég held ég geri mér ferð vestur til að kaupa nokkrar. 

Alvöru hlynsíróp

Sunday, November 11, 2012

Marokkóskur lambapottréttur

Ég elska kássur, pottrétti, hakk og spaghetti, lasagne.... allan mat sem myndi flokkast sem "comfort food". Matur sem er hægt að borða með annarri hendi, lágmarks fyrirhöfn. Og stöðugt reynir maður að finna upp hjólið, eitthvað nýtt og spennandi. Ég fer stundum í Fjarðarkaup og kaupi miklu meira en ég ætlaði mér, búðin einfaldlega býður upp á það! Kjötborðið þar er æðislegt og eini staðurinn þar sem mér finnst ég fá gott ófrosið lambakjöt. Ég kaupi stundum lambagúllash og nú gerði ég það og bjó til þennan rétt hér. Hefðbundnir marokkóskir pottréttir eru allir voða svipaðir, bara mis mikið af hverju hráefni fyrir sig, sumir vilja hafa réttin sterkan, aðrir sætan. Ég fór einhvern milliveg sem okkur öllum fannst góður, stórum sem smáum.

Ekta comfort food


Uppskriftin er fyrir 4-6, auðvelt að stækka og minnka. Þetta magn dugði okkur 4 (2 fullorðnir og 2 börn) í matinn og nesti daginn eftir fyrir okkur fullorðna fólkið.
Ekki láta langan lista af hráefnum hræða ykkur, hann er ekki eins langur og hann lítur út fyrir að vera og flestir eiga t.d. kryddin og sitthvað fleira í skápunum nú þegar. Ef ekki þá er flest á listanum eitthvað sem á að vera til á hverju heimili :)

1 kg. lambagúllash
olía til steikingar
1 stór laukur
3 hvítlauksrif
2 msk. paprika
1 1/2 msk. engiferkrydd
1/2 msk. cayenne pipar
1 tsk. kanill
1 tsk. cummin
nýmulinn svartur pipar
salt
1 dós saxaðir tómatar
1 dós eða ferna af tómatsósu (passata)
200 gr. þurrkaðir ávextir, ég notaði 100 gr. rúsínur, 50 gr. apríkósur og 50 gr. fíkjur
nokkrir saffranþræðir bleyttir í smá köldu vatni
1/2 lítri kjúklingasoð
1 dós kjúklingabaunir
1 handfylli ferskt kóríander
1 handfylli fersk steinstelja, ég nota flatlaufa steinseljuna, þessa hérna 

Takið kjötið og veltið upp úr kryddunum. Best er ef kjötið fær að liggja í kryddunum í smá stund, jafnvel yfir nótt.

Falleg svona krydd
Búið að krydda kjötið, magurt og fallegt lambakjöt



Brúnið svo í þykkbotna og góðum potti sem hægt er að loka. Takið kjötið upp úr og steikið gróft saxaðan laukinn og fínt saxaðan hvítlaukinn. Leyfið því að "svitna" í 3-5 mínútur á miðlungshita. Bætið kjötinu út í aftur.


Bætið soðinu, tómötunum, tómatsósunni, saffraninu og þurrkuðu ávöxtunum út í. Leyfið þessu að malla í 1 1/2-2 tíma á vægum hita. Bætið kjúklingabaununum út í og leyfið að malla áfram í ca. 20 mínútur. Smakkið til með salti og pipar og ef til vill einhverju af kryddunum ef ykkur finnst þurfa. Stráið steinselju og kóríander yfir og berið fram með cous cous, ég gerði aðeins öðruvísi en ég er vön að gera en það má hafa cous cous-ið eins og hver og einn vill. Okkur fannst þetta passa mjög vel við kryddaðan og sætan pottréttinn. T.d. væri hægt að halda í sæta þemað og gera cous cous-ið í þessari uppskrift



Cous cous

250-300 gr. cous cous hitað eftir leiðbeiningum á pakkanum, notað kjúklingasoð í stað vatns
handfylli söxuð mynta og kóríander
1 granatepli

Takið fræin úr granateplinu. Mér finnst gott að gera það í vatni því þá spítist safinn ekki í allar áttir. 



Blandið saman cous cous, kryddjurtum og granateplum og berið fram með pottréttinum. 

Litríkt, ferskt og gott


Sunday, November 4, 2012

Kalkúnn á ítalska vísu

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskyldan til Ítalíu. Við eyddum 2 vikum í Toscana, algjörri paradís! Féllum gjörsamlega fyrir landinu og öllu sem því fylgir og draumurinn er að búa þar á einhverjum tímapunkti í lífinu. Búa á lítilli villu úti í sveit, rækta flest sem við þurfum að borða, vínber, ólífur, hænur á vappi, geit úti á túni... dásamlegur draumur!

Hugurinn reikaði til Toscana í dag og ég ákvað að koma með bragðið frá sólinni á Ítalíu hingað heim í storminn og kuldann. Nú er tíminn framundan þegar ansi margir elda kalkún með öllu tilheyrandi. Þessi er ansi frábrugðinn þessum hefðbundna ameríska stóra fugli, fylltum með brauði og kryddum, eldaður tímunum saman og borðaður á örstuttum tíma. Þessi er einfaldur í framkvæmd en bragðið flókið og kraftmikið. Ítalska skinkan setur svo punktinn yfir I-ið :)

Safaríkur kalkúnn, stökkar kartöflur og kraftmikil sósa


Uppskriftin er fyrir ca. 4-6, fer eftir stærð bringunnar

1 kalkúnabringa, mín var 1,1 kg.
150 gr. hreinn rjómaostur
3-4 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 msk. papriku bruschetta eða grilluð paprika í krukku
lítil handfylli ferskt basil (alls ekki nota þurrkað, það er allt annað bragð, notið frekar ferska steinselju ef þið fáið ekki basil), saxað
salt og pipar eða gott kalkúnakrydd, t.d. frá Pottagöldrum
Parmaskinka til að vefja utan um bringuna, ég var með frekar stórar sneiðar og notaði ca. 10

Grillaðar papriku fást í flestum verslunum, mér finnst þessi góð


Vel af fyllingunni!

Hylja allt kjötið með skinkunni

Hitið ofninn í 180-200°. Blandið saman rjómaosti, tómötum, paprikunni og basilinu. Skerið vasa í bringuna og setjið fyllinguna þar í. Kryddið bringuna og vefjið skinkunni utan um þannig að það loki eins vel fyrir og hægt er. Setjið inn í ofn í ca. klukkutíma fyrir hvert kíló. Ég var með þetta inn í klukkutíma og 10 mínútur. Fyrstu 40 mínúturnar var ég með lok yfir og tók það svo af til að leyfa skinkunni að verða stökkri og brakandi :)

Sósan
1/2 laukur
nokkrir sveppir
500 ml. rjómi
1 kjúklingateningur
lítil handfylli steinselja, mér finnst þessi flata íslenska fjallasteinselja rosalega góð!
fyllingin sem lekur út úr kalkúnabringunni
Olía eða smjör til að steikja

Skerið laukinn og sveppina í þunnar sneiðar. Steikið á pönnu á miðlungshita. Hellið rjóma yfir, hendið einum kjúklingateningi út í, saxaðri steinseljunni og leyfið þessu að malla á meðan bringan eldast í ofninum. Þegar þið takið bringuna út hefur örugglega slatti af fyllingunni lekið út, þið skellið því að sjálfsögðu út í sósuna! Smakkið til.

Kramdar kartöflur
Kartöflur
salt
ólífuolía

Ekki vera hrædd við að leyfa kartöflunum að brúnast vel


Sjóðið kartöflurnar. Hellið af þeim vatninu og skellið á ofnskúffu. Sullið yfir ólífuolíu og kremjið þær smá með gaffli. Saltið yfir og setjið á efstu hilluna í ofninum og bakið í 15-20 mínútur eða þar til þær eru farnar að brúnast í sárunum. 


Einfalt meðlæti að öðru leyti er nauðsynlegt. Grænt salat, gufusoðið grænmeti eða eitthvað slíkt. Ég henti tómötum og avocado i skál, setti smá ólífuolíu og gott balsamik edik yfir - reddí! Svo er bara að borða og njóta :)