Friday, May 4, 2012

Leyfum börnunum að hjálpa til

Ef þið spyrjið Kristófer þriggja ára hvað hann sé þá svarar hann undantekningalaust BAKARADRENGUR! Hann elskar að baka, á svuntu og hatt, kökukefli og sleif og vaknar á morgnana og biður um að fá að baka eða horfa á kökuskreytingamyndbönd á youtube. Hann á það til að sofna með kökukeflið í fanginu! Þessi litli snáði sem elskar Bósa Ljósár og geislasverð á sér aðra og mýkri hlið... uppáhalds liturinn bleikur og veit ekkert skemmtilegra en bakstur með mömmu sinni :) Algjörlega frábært og dásamlega krúttlegt! Mömmunni þykir þetta að sjálfsögðu ekki leiðinlegt og sér fyrir sér gott líf í ellinni þegar sonurinn eldar og bakar fyrir foreldrana :)
Á föstudögum er nánast alltaf pizza og hefur verið í 7-8 ár hjá okkur og alltaf jafn gott að fá hana. Þetta er fljótgert, öllum þykir þetta gott og hægt að setja hvað sem er ofan á. Stundum gerum við hefðbundna hvíta gerpizzu en oftast er það speltið og gerlaust sem er málið. Það er bæði betra á bragðið að okkar mati og svo miklu miklu einfaldara, ekkert að hefast og ekkert vesen, bara blanda, rúlla og baka :)
Hér er Kristófer að baka föstudagspizzuna þessa vikuna, ótrúlegir hæfileikar sem drengurinn sýnir :)






Uppskrift af deiginu, dugar á eina venjulega bökunarplötu

250 gr. spelt, gróft eða fínt eða blanda af báðu. Við notum ca. 70% gróft og 30% fínt
1/2 tsk. salt (Maldon eða Himalaya)
3 tsk. vínsteinslyftiduft (má nota venjulegt)
3 msk. góð ólífuolía eða bráðin kókosolía
125 ml. heitt vatn (ekki volgt)

Þurrefnum blandað saman, því næst olíunni og svo vatninu. Hnoðað og rúllað út. Forbakað í 210° heitum ofni í 3-4 mínútur. Tekið út og röku stykki smellt ofan á í smá stund til að botninn verði ekki að tvíböku! Sósa, ostur og álegg ofan á, aftur inn í ofninn í 12-14 mínútur á sama hita og voila, pizzan er tilbúin :)


No comments:

Post a Comment