Sunday, May 13, 2012

Wannabe smalabaka

Einn af þjóðarréttum Breta er "Shepherds pie" eða Smalabaka. Þetta er eins og Lasagne á Ítalíu, hver fjölskylda með sína úfærslu og enginn sem gerir bökuna jafn vel og amma :) En í raun er þetta bara einfaldur og góður hakkréttur í eldföstu móti með kartöflumús ofan á, bakað í ofni... svona næstum því ;)
Þar sem við borðum ekkert gríðarlegt magn af kartöflum og heimilisfaðirinn bara alls ekki þá notum við sætar kartöflur í staðinn. Sætar kartöflur eru mun næringarríkari en venjulegar kartöflur. Stútfullar af vítamínum eins og A vítamíni, C vítamíni og Beta Karótíni. Þær innihalda góð kolvetni og geta hjálpað til við að halda blóðsykrinum í skefjum og því góðar fyrir fólk með sykursýki 2 og einni nammigrísi ;) Og svo eru þær svo dásamlega góðar! Ég nota líka tómata í kjötið en það er ekki í hefðbundinni uppskrift af bökunni.



Í lokin fannst mér svo auðvitað tilvalið að nota eigin uppskeru til að skreyta og bragðbæta réttinn. Það er ekki í uppskriftinni en ég gat ekki beðið eftir að nota fyrstu kryddjurtina sem var tilbúin til átu. Þetta er Basil Minette. Minna en hefðbundið Basil, ótrúlega fallegt í potti, ilmar dásamlega og bragðast eins og venjulegt Basil. Ég get ekki beðið eftir því að fara að nota allar kryddjurtinar mínar sem eru svo flottar í stofuglugganum mínum!

 Basil Minette, töluvert minna og fallegra en þetta hefðbunda



Uppskriftin er fyrir 4

olía til steikingar
500 gr. nautahakk
2-3 hvítlauksrif
1 stór gulrót eða 2 minni
1 frekar stór laukur laukur
2 stilkar sellerí
annað grænmeti að vild, t.d. frosnar grænar baunir, sveppir, brokkolí....
1 dós hakkaðir tómatar
skvetta af Worcestershire sauce
Þessi klassíska Worcestershire sósa!














salt og pipar
1 lárviðarlauf
1 stilkur ferskt rósmarín

2 meðalstórar sætar kartöflur
smá salt og pipar
1/2 dós kotasæla



Brúnið hakkið í olíu í góðum potti sem hægt er að loka, kryddið með salti og pipar. Bætið smátt söxuðu grænmetinu út í og steikið áfram stutta stund. Ef notaðar eru frosnar baunir eru þær ekki steiktar með öðru grænmeti heldur settar út í í restina. Bætið tómötunum út í, kryddið með salti og pipar og vænni skvettu af Worcestershire sauce smátt söxuðu rósmarín og einu lárviðarlaufi. Látið malla í að minnsta kosti 30 mínútur, helst í klukkutíma til að kjötið nái að taka allt bragðið í sig. Ef þið eigið opna rauðvínsflösku er tilvalið að setja smávegis af því út í :) Smakkið til með salti og pipar og Worcestershire sósu. Ef ekki næst að láta sósuna malla er hægt að setja smá nautakraft (tening) út í til að fá kraftinn í bragðið.

Skrælið sætu kartöflurnar, skerið í bita og sjóðið í söltu vatni þar til mjúkar. Stappið með kartöflustappara eða töfrasprota. Kryddið með smá salti og pipar og bætið kotasælunni út í (má sleppa henni og setja smjör eða rjómaost í staðinn).  Ef ykkur finnst kartöflustappan og þykk má setja smá af vatninu sem þær voru soðnar í út í. Setjið kjötið í eldfast mót, smyrjið kartöflustöppunni ofan á og bakið í 200° heitum ofni þar til kartöflurnar eru farnar að brúnast örlítið og sósan bubblar með fram hliðunum...! 15-20 mínútur er um það bil tíminn. Ef þið eruð óþolinmóð má alveg smella þessu undir grillið í styttri tíma.
Með þessu er svo best að hafa einfalt salat og jafnvel gott brauð :)

No comments:

Post a Comment