Sunday, June 10, 2012

Kartöflusalat



Við notum ekki mikið af kartöflum á heimilinu en þegar við gerum það þá er ekki í boði að sjóða og hafa þetta eitthvað einfalt og "leiðinlegt" því ekki eru allir heimilismeðlimir jafn hrifnir af því..... Í kvöld grillaði ég lambabóg sem ég hafði marinerað í ólífuolíu, hvítlauk, rósmarín, timian, sítrónusafa og svörtum pipar. Það hentaði því afar vel að hafa gott kalt kartöflusalat með þessu. Í raun er það þannig að þegar maður eldar lambabóg þá eldar maður hann frekar lengur en skemur, hann er afar safaríkur og því er alveg nóg að hafa bara gott kartöflusalat með, sósan er í raun óþörf en ég gerði samt smá villisveppasósu.... bara af því að ég var í stuði og af því að það er sunnudagur :)
En salatið góða er aðalatriðið í þessu löngu tímabæra bloggi mínu. Ég er ekki mjög hrifin af mæjónesi.... ekki nema með því sé hvítt brauð og rækjur... og fermingarbarn í sama herbergi ;) Mæjónes á ekki heima í kartöflusalati heldur eingöngu í fagurlega skreyttum brauðtertum í fermingarveislum! Ég kýs að gera mín kartöflusalöt meira spennandi. Einfaldasta útgáfan og það sem sniðugt er að gera þegar glænýtt smælkið er stungið upp síðsumars er að setja smá smjörklípu hér og þar yfir heitar kartöflurnar svo það bráðni, smá Maldon eða Himalaya salt og ferska mintu... Nammi nammi namm! Í þetta sinn fór ég svolítið suðræna leið, innblásinn af risastóru basil plöntunni í stofuglugganum sem gargaði á mig að snyrta sig!

Uppskriftin er fyrir 4 en mjög auðvelt að breyta hlutföllum án þess að bragðið klikki.

Kartöflur, u.þ.b. 150 gr. á mann
4-5 msk. GÓÐ ólífuolía, t.d. þessi
2-3 msk. balsamik edik
2-3 msk. fljótandi hunang eða hlynsíróp
ögn af ferskum söxuðum chilli (má sleppa)
1/2 rauð paprika skorin í þunna strimla
nokkrir sólþurrkaðir tómatar smátt saxaðir
handfylli af fersku basil, smátt saxað
Salt og pipar

Kartöflur skornar í hæfilega stóra bita og soðnar í söltu vatni þar til mjúkar. Öllu sem á að fara í dressinguna blandað saman og kartöflurnar settar síðastar út í þegar þær hafa kólnað smá stund. Smakkað til með salti eða hunangi/sírópi. Trikkið er að finna rétta jafnvægið milli salta bragðins, súra (edikið) og sæta úr hunanginu/sírópinu. Borið fram með öllum grillmat, lambalæri eða einhverju slíku.
Með svona salati er líka hægt að vera frumlegur og bæta og breyta. Ég set stundum nokkrar saxaðar grænar ólífur eða smá capers ef ég á það til. Það frískar þetta aðeins upp og gerir salatið bara betra.

No comments:

Post a Comment