Sunday, September 30, 2012

Bláberjamarinerað lambalæri með Bernaise

Dásamlegt!


Íslenska lambakjötið er SVO gott! Stundum gerir maður eitthvað einfalt sem klikkar aldrei eins og að krydda með hvítlauk og rósmarín en stundum gerist maður ævintýragjarn og breytir út af vananum. Og það gerði ég í kvöld. Bernaise sósan klikkar náttúrulega aldrei og hægt að borða hana með skeið! Hins vegar hefði alveg verið hægt að sleppa henni og blanda smá lambasoði út í pottinn og hræra upp í soðinu af kjötinu, bragðast eins og besta bbq sósa.

Uppskriftin er fyrir 4-6

1 lambalæri u.þ.b. 2 kg.
2 dl. bláber (ég notaði frosin en það hefði alveg eins getað verið fersk)
2 msk. hunang
2 stilkar rósmarín
4 stilkar timjan, laufin týnd af
4 hvítlauksrif
salt og pipar
olía

Maukið saman bláber, kryddjurtir, hunang og hvítlauk. Mér finnst best að nota mortél en þið notið bara þá aðferð sem þið kjósið. Ekki murka allt lífið úr bláberjunum, það er allt í lagi þó sum séu ekki alveg í mauki. Og það sama gildir um hvítlaukinn, ekkert vera að hafa áhyggjur af því þó eitthvað af honum sé ekki í öreindum. Kryddið með salti og pipar.

Íslensku bláberin er svo falleg


Setjið smá olíu í botninn á stóru eldföstu móti eða potti sem hægt er að loka. Setjið lambalærið þar ofan í og smyrjið marineringunni utan á. Látið marinerast eins lengi og þið viljið, allt frá hálftíma til yfir nótt.

Lærið orðið fallega berjablátt


Skellið síðan fatinu með loki á inn í 220° heitan ofn og eldið í 15 mínútur. Lækkið hitann í 180° og eldið áfram í u.þ.b. klukkustund. Tíminn fer auðvitað eftir stærðinni á lærinu og því hvernig þið viljið hafa kjötið. Við viljum hafa það bleikt, ekki hrátt og ekki alveg í gegn, bara þetta klassísa "medium". Á meðan kjötið eldast er gott að ausa öðru hvoru marineringunni yfir það til að fá góðan gljáa á það. Ef það er ekki mikið aukalega sem hefur lekið af er hægt að setja pínulítið vatn eða rauðvín til að skafa upp af botninum og sulla svolítið yfir lærið.

Berin búin að brúnast vel og lærið orðið safaríkt


Kartöfugratín

1 sæt kartafla
nokkrar venjulegar kartöflur
500 ml. rjómi
1/2 laukur
salt
rifinn ostur




Setjið smá olíu í botninn á eldföstu móti. Skerið kartöflur og sætar kartöflur í 1/2 cm. þykkar sneiðar og raðið til skiptis í mótið. Setjið þunnar sneiðar af lauk og smá salt á milli laganna. Hellið rjóma yfir og rifinn ost yfir allt saman. Smellið í ofninn með lambinu og eldið í 30 til 40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullinn og fallegur. Ef osturinn er farinn að brúnast of mikið áður en kartöflurnar eru eldaðar er ekkert mál að smella smá álpappír yfir.




Bernaise

250 gr. smjör
4-5 eggjarauður eftir stærð
1 msk. bernaise essence (heimatilbúinn eða úr flösku... ég nennti ekki að gera sjálf núna en það ER betra)
U.þ.b. 1 msk. Estragon, helst ferskt
1/4-1/2 kjúklingateningur

Bræðið smjörið í potti ásamt Estragoninu og kælið. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði og hellið smjörinu saman við í mjórri bunu og þeytið stanslaust í á meðan. Alls ekki leyfa sósunni að hitna of mikið. Ef þið eruð óörugg með að hita yfir vantsbaði þá má þeyta eggjarauðurnar í hrærivél og hella smjörinu þar út í.  Bætið einni msk. af essence út í og þeytið áfram. Smakkið til með kjúklingakraftinum. E.t.v. er gott að leysa teninginn upp í smjörinu. Það má líka sleppa teningnum og nota bara salt.

Með þessu borðar maður svo ekki salat ;) Það má alveg hafa það bara í forrétt en þetta er best svona, kjöt, kartöflur og sósa.... Namm!

Með þessu er svo ávaxtaríkt rauðvín mjög viðeigandi. T.d. ÞETTA.

No comments:

Post a Comment