Sunday, November 25, 2012

Góður sunnudagur

Við fjölskyldan elskum sunnudaga! Þá er yfirleitt lítið planað og hægt að byrja daginn í rólegheitum, horfa saman á  barnatímann og borða morgunmatinn og lesa blöðin. Stundum tökum við það alla leið og bökum amerískar pönnsur með öllu tilheyrandi. Við notum alltaf sömu uppskriftina sem er algjörlega skotheld og var stolið frá hinum frábæra Jamie Oliver. Kökurnar eru léttar og mjúkar en ekki eins og íslenskar skonsur sem maður fær stundum. 

Mmmmmm


Uppskriftin er frekar lítil, hentar fyrir okkur fjölskylduna, 2 fullorðnir og 2 börn

3 stór egg
salt á hnífsoddi
115 gr. hveiti
140 ml. mjólk
1 tsk. lyftiduft


Stífþeytið eggjahvítur ásamt örlitlu salti. Blandið restinni af hráefnunum saman í annarri skál. Blandið eggjahvítunum mjög varlega saman við restina af hráefnunum. Alls ekki hræra of mikið því þá fer allt loftið úr blöndunni. 
Hitið pönnu með öööörlítilli olíu og bakið pönnukökurnar á miðlungs- háum hita. Ef þið eigið bláber, maiskorn eða eitthvað slíkt er sniðugt að bæta þeim á kökurnar áður en þið snúið þeim við, bláberin eru sérstaklega vinsæl hjá okkur :) 
Berið fram með stökku beikoni, íslensku smjöri og góðu hlynsírópi. Og svo er gott kaffi algjörlega ómissandi! Núna myndi ég t.d. mæla sérstaklega með Hátíðarkaffi frá Te & Kaffi, það er algjörlega dásamlegt í ár!

Ef þið eigið kost á því að kaupa alvöru, gott hlynsíróp þá er himinn og haf á milli þess og þessa hefðbundna sem maður kaupir í stórmörkuðum. Þið verðið bara að smakka til að trúa! Þetta fékk ég að gjöf, var keypt í Ameríkunni held ég og er svo gott að ég held ég geri mér ferð vestur til að kaupa nokkrar. 

Alvöru hlynsíróp

No comments:

Post a Comment