Sunday, July 7, 2013

Karrýkjúklingur með tvennskonar kartöflum og hvítlaukssteiktum aspas

Lilja Bríet sagði: Mamma, fer þessi réttur ekki á bloggið? Hann er geeeeeeðveikur! Hún er algjör matarkerling, kann að meta góðan mat, er óhrædd við að smakka og þokkalega gaman að gefa henni að borða. Hún er auðvitað 8 ára, smá gelgjustælar og oft hermt eftir vinkonum sem borða ekki hitt og þetta, en á heildina dugleg að borða og uppáhalds maturinn sushi :)
En að kvöldmatnum í kvöld :) Stundum tek ég mig til og vanda mig voða mikið, tjalda öllu til, geri eitthvað nýtt og spennandi og geri mitt allra allra besta. Í kvöld gerði ég það! Verið óhrædd við að notast við árstíðabundinn mat, kaupið aspas þegar hann er "í season", kaupið íslenska grænmetið þegar það er sem ferskast, íslensku jarðarberin á vorin og svo framvegis. Undanfarið hefur verið tímabil aspasins, og þess vegna fáum við eitthvað af honum ferskum hér á fróni. Hann er svo góður og hægt að nota á svo fjölbreyttan hátt. Aspas passar með ýmsum mat, t.d. frábær með silungi eða öðrum góðum fiski.
Einnig gerði ég heimatilbúnar súrar gúrkur. Ég kaupi aldrei súrsað grænmeti eða dósagrænmeti og finnst það ekkert sérstaklega gott. En að gera þetta sjálfur er allt annað og margfalt betra. Það er líka lítið mál að nota t.d. kúrbít eða annað grænmeti í staðinn fyrir gúrku. Liljan mín elskaði þær og meira að segja litli gikkurinn hann Kristófer sem borðar lítið sem ekkert grænmeti borðaði þær, enda kallað ég þær sykurgúrkur og allt með sykri þykir honum gott :)
Á heildina var þetta ekkert svo flókið, tók um það bil klukkutíma frá byrjun til enda, en stundum má matseldin taka smá tíma og nostur ef það er þess virði :)

Allt komið saman á diskinn og lítur vel út :)


Uppskriftin er fyrir 4

Kjúklingurinn
4-6 kjúklingabringur (1-1,5 á mann)
salt
pipar
1/2- 1 msk. karrý

Sætkartöflurfranskar
1 sæt kartafla
salt
pipar
ólífuolía

Smjörgljáðar kartöflur
8 meðalstórar kartöflur
salt
30 gr. smjör
1 msk. saxaður graslaukur


Súrsaðar agúrkur
1 agúrka
1/2 dl. hvítt balsamik edik eða hvítvínsedik
1-2 tsk. sykur
1/2 tsk. salt


Sveppa- og karrýsósa
1/2 askja sveppir
1 msk. karrý
500 ml. rjómi
1 kjúklingateningur
2 msk. smjör
olía


Hvítlaukssteiktur aspas
10-12 aspas (frekar stórir)
1 hvítlauksrif
2 msk. smjör
ólífuolía


Skerið sætu kartöfluna í mjóa strimla og raðið á bökunarplötu. Setjið ólífuolíu, salt og pipar yfir kartöflurnar og bakið þær í 200° heitum ofninum í um hálftíma.

Kryddið kjúklingabringurnar með smá karrý, salti og pipar og brúnið á pönnu. Setjið í ofninn í um það bil 20 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn.

Skerið kartöflurnar í tvo til fjóra bita og sjóðið þær í söltu vatni þar til þær eru mjúkar. Ekki ofsjóða þær, þá verða þær bara maukaðar og ekkert spennandi. Hellið vatninu af og bætið smjörinu út á og leyfið því að bráðna yfir kartöflurnar. Setjið pínu meira salt á þær og fínt saxaðan graslaukinn. Ef þið eigið ekki graslauk er líka mjög gott að nota mintu eða flatlaufa steinselju.

Sneiðið gúrkuna langsum í þunnar sneiðar, ég notað venjulegan grænmetisskrælara en það er hægt að nota ostaskera eða mandólín í verkið. Setjið í skál með ediki, sykri og salti og leyfið þessu að liggja í um það bil hálftíma, lengur ef þið getið.

Bræðið smjör og smá olíu á pönnu og steikið saxaða sveppina þar til þeir taka smá lit. Hellið rjómanum út á, karrý og kjúklingakraft og leyfið þessu að malla þar til rjóminn þykknar. Smakkið til með karrý og mögulega smá kjúklingakraft ef þarf. Notið endilega soðið af kjúklingabringunum ef það verður eitthvað svoleiðis til.

Bræðið smjör og olíu á pönnu og bætið út á fínt söxuðum hvítlauk og aspas. Leyfið þessu að malla á miðlungshita í um það bil 10 mínútur eða þar til aspasinn er farinn að mýkjast vel en samt ekki alveg maukaður.

Öllu er svo raðað fallega á disk og borðað með bestu lyst :) Þetta myndi slá í gegn í hvaða matarboði sem er!



Thursday, June 13, 2013

Ávaxtabaka

Nú er tími rabarbarans og um að gera að nýta hann í eitthvað gómsætt. Ég fékk foreldrana í mat fyrir nokkrum dögum og pabbi gamli verður að fá sinn eftirmat! Þau komu með rabarbara úr garðinum með sér og ég skellti í afar einfalda böku eða "crumble" eins og það heitir á ensku. Fljótlegt og einfalt og hægt að nota alls konar ávexti og ber.

Græðgin bar okkur ofurliði og það náðist ekki mynd fyrr en bakan var nærri búin!



uppskriftin dugar í eitt miðlungsstórt eldfast mót

2 epli
4 rabarbarar
2 dl. bláber (ég notaði frosin íslensk frá því í fyrrahaust)
2 msk. kanilsykur
150 gr. kalt smjör í bitum
150 gr. sykur
150 gr. hveiti

Byrjið á því að skera ávextina í bita og raða í botninn á eldföstu móti. Stráið kanilsykri yfir og ef þið eigið hreint vanilluduft þá er það líka mjög gott með. Blandið saman hveiti, sykri og smjöri og myljið á milli fingranna þar til að fer að líkjast brauðrasp. Stráið því yfir ávextina og bakið í 180° heitum ofninum í 20-30 mínútur eða þar til ávextirnir bubba af fullum krafti og deigið hefur fengið fallegan gullinn lit. Berið fram með góðum vanilluís eða léttþeyttum rjóma.

Sunday, June 9, 2013

Grillaður maís


Ég fékk þessa flottu maís stöngla í Bónus og varð bara að kaupa þá! Ferskur maís er svo góður að meira að segja þeir sem segjast ekki borða hann geta ekki hætt! Ég er ekki hrifin af Ora maís í dós, finnst hann satt að segja hræðilega vondur en ferskur grillaður maís er eins og sælgæti! Og svo einfalt og þarf ekki mikið til að hann sé alveg dásamlegur. Það eina sem þarf er smá olía og smá smjör. 

Byrjið á því að leggja maísinn í kalt vatn í 10-15 mínútur. Þannig draga blöðin í sig vatnið, brenna síður og kornið innan í soðnar almennilega. Takið stönglanna úr vatninu og veltið upp úr smá olíu til að þeir festist síður við grillið. Grillið á miðlungsheitu grillinu í 15-20 mínútur og snúið reglulega. Takið af grillinu og um leið og þið getið höndlað stönglana takið þið utan af þeim blöðin og skerið kornið af. Setjið í skál og smá smjör klípur hér og þar og berið fram með uppáhalds grillmatnum ykkar. Ég var með grillaða Blálöngu og kartöflumús og þetta passaði mjög vel með því!

Skotheld leið við að taka kornið af stönglinum. Setjið skál á hvolf ofan í stærri skál og skerið utan af.

Leyfið smjörinu að bráðna og leka um kornið




Wednesday, June 5, 2013

Einfalt sjávarréttapasta

Ég er svo heppin að eiga góða að og einn af þeim er Bergþór bróðir minn sem gefur mér stundum ferskan fisk. Í þetta sinn gaf hann mér heilan helling af stórum og góðum rækjum sem maður týmir alls ekki að setja í rækjusalat heldur verður að gera eitthvað aðeins betra :) Eitt af því sem er hægt að gera og er afar fljótlegt er t.d. sjávarréttasúpa eða eins og ég gerði, pasta. Þetta tók ekki langan tíma og var sannarlega ljúffengt!

Svo fallega litríkt og girnilegt :)


uppskriftin er fyrir 4

ólífuolía til steikingar
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
6 sveppir
8 tómatar
1 dl. hvítvín
1 msk. tómatpúrra
200 gr. rækjur eða annar stífur fiskur
salt og pipar
stór handfylli ferskt basil
spaghetti
ferskur parmesan


Byrjið á því að saxa allt grænmetið og steikja í olíu á pönnu. Þegar það er orðið mjúkt bætið þá tómatpúrrunni og smátt skornum tómötunum út í ásamt hvítvíninu. Kryddið með salti og pipar og leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur. Á meðan þetta mallar sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á umbúðum, "al dente" er málið :) Þegar pastað er soðið, hellið vatninu af en geymið smávegis af því ef það þarf að bæta út í sósuna. Þegar sósan er tilbún bætið rækjunum út í og gróft söxuðu basil og leyfið að malla í örstutta stund. Rækjurnar þarf ekki að elda heldur bara að hita í gegn. Blandið pastanu saman við og ef ykkur finnst þurfa meiri vökva þá bætið þið smá pastavatni út í. Berið fram með rifnum parmesan og góðu brauði. Og fyrst þið eruð búin að opna hvítvín í sósuna er um að gera að hella restinni í glösin og njóta í góðum félagsskap :)

Thursday, May 30, 2013

Austurlenskur kjúklingur og núðlur

Stundum kviknar einhver hugmynd í kollinum og þá bara verð ég að prófa og sjá hvort hún er eins góð í alvörunni og hún hljómaði í hausnum á mér. Þessi er einmitt ein af þeim, hún kom til mín þar sem ég sat og horfði á sjónvarpið með börnunum. Ég rauk í ísskápinn og byrjaði undir eins, áður en ég myndi gleyma hugmyndinni :) Ég leyfði kjúklingnum að marinerast í 2 tíma en háltími til klukkutími dugir alveg. Þetta er einfalt, tiltölulega fá hráefni og öll eitthvað sem ég á alltaf til í ísskápnum mínum. Prófið, því þessi kemur skemmtilega á óvart :)



Uppskriftin er fyrir 4

4-6 kjúklingabringur, fjöldinn fer auðvitað eftir stærð
2 cm. bútur engifer
1,5 dl. appelsínusafi (þarf ekki að vera nýkreistur, Trópi virkar vel)
0,5 dl. lime safi
0,5 dl. Teryaki sósa
góð handfylli ferskt kóriander
1 askja sveppir
1 rauðlaukur
4 hvítlauksrif
2 msk. hlynsíróp eða hunang
salt og pipar
Hrísgrjónanúðlur eða eggjanúðlur


Rífið engiferið fínt og blandið því saman við appelsínusafa, lime safa og Teryaki sósuna. Saxið kóriander gróft og blandið því saman við (skiljið smá eftir). Hellið marineringunni yfir kjúklinginn og leyfið að standa í a.m.k. hálfa klukkustund en ekki mikið lengur en tvær klukkustundir því þá fer lime safinn að "elda" kjúklinginn of mikið. Hitið bragðlitla olíu á pönnu og brúnið kjúklinginn á báðum hliðum. Takið af pönnunni og setjið inn í 180° heitan ofn í 20 mínútur. Saxið sveppina gróft, skerið hvítlaukinn í þunnar sneiðar og laukinn í þunnar ræmur. Bætið smá olíu á pönnuna og hendið grænmetinu á hana og steikið stutta stund. Hellið restinni af marineringunni yfir og tveimur matskeiðum af hunangi eða hlynsírópi og kryddið með smá salti og pipar. Ef þið viljið meiri sósu er sniðugt að bæta smá appelsínusafa út á pönnuna og jafnvel meira Teryaki, það er bara smekksatriði :)
Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum, hellið vatninu af og setjið þær út á pönnuna og blandið sósunni vel saman við. Berið kjúklinginn og núðlurnar fram saman og stráið restinni af kóriandernum yfir. Einfaldur og góður réttur sem féll í góðan jarðveg hjá fjölskyldunni. Frá hugmynd og á diskinn á tveimur og hálfum tíma :)

Saturday, May 4, 2013

Kjúklingur með súrsætu ívafi

LOKSINS LOKSINS!!! Nú er vonandi þessari bloggþurrkatíð lokið og ég get farið að setja inn eitthvað af uppskriftum á þessa litlu síðu mína. Ég er bara búin að vera í svo skemmtilegu verkefni að skrifa fyrir Gestgjafann að öll uppskrifta orkan mín hefur farið í það. En það verkefni er væntanlega komið til að vera og ég er gríðarlega spennt yfir því. Gaman að fá svona tækifæri og vonandi opnar það bara enn fleiri dyr :) Ég hef líka aðeins verið að taka að mér veislur og það er nýtt fyrir mér líka en hefur gengið glimrandi vel og ég hef fengið góðar viðtökur! Vonandi verður eitthvað meira spennandi úr því líka og endilega hafið mig í huga fyrir mannfögnuði af ýmsum toga :)
En að uppskrift dagsins! Ég er auðvitað alltaf að reyna að finna upp hjólið þegar kemur að kjúklingauppskriftum og fletti bókum og blöðum fram og aftur. Ég mundi eftir uppskrift sem ég fann í Jamie Oliver bók fyrir mörgum árum síðan sem var svo góð og útfærði hana á svolítið skemmtilegan hátt og heppnaðist ótrúlega vel. Hér eru skemmtileg og ólík hráefni sem mynda súrsæta stemmningu og eitthvað gjörólíkt því sem maður er vanur að gera. Hvet ykkur til að prófa!

Vel af sósu, quinoa og gullinn kjúklingur


Uppskriftin er fyrir ca. 4 (fer eftir stærð fuglsins)

1 stór kjúklingur
2 rauðar paprikur (eða rauð og gul)
1 rauðlaukur
1/2-1 rautt chilli
1 lítil dós ananas (eða 1/4 ferskur ananans)
handfylli steinselja og basil eða bara annað hvort
2 msk. ólífuolía
2 tsk. fennel
salt og pipar
2 þumlungar engifer
3 msk. balsamik edik

Tilbúið í ofninn


Skerið paprikuna og laukinn í stóra báta og raðið í botninn á ofnfati sem er nógu stórt fyrir kjúklinginn og grænmetið og hægt er að loka. Hellið safanum af ananasinum (geymið safann) og setjið hann í fatið. Saxið chilli-ið gróft og setjið út í. Hellið olíunni yfir, kryddið með fennel, gróft söxuðum kryddjurtum,  salti og pipar og blandið vel. Rífið engiferið gróft og skellið því innan í kjúklinginn, kryddið hann með salti og pipar og leggið ofan á grænmetið. Lokið fer á og inn í 190° heitan ofn í klukkutíma og korter. Takið þá lokið af og eldið áfram í ca. korter eða þar til kjúklingurinn hefur fengið á sig fallega skorpu og er eldaður í gegn. 
Takið kjúklinginn úr fatinu og látið allan safann leka af honum yfir grænmetið, allt í góðu ef smá engifer dettur út úr honum og ofan í grænmetið. Maukið grænmetið annað hvort með töfrasprota eða í blandara og ekkert vera að hafa það of vel maukað, sósan má hafa grófa áferð. Bætið út í balsamik ediki og safanum af ananasinum. Smakkið til með edikinu og salti og pipar. Með þessu bar ég fram quinoa eins og svo oft áður en hægt er að hafa bara salat eða hrísgrjón. 

Tuesday, February 26, 2013

Silungur í soyja og sesam

Ég er svo heppin að eiga góða að sem skaffa okkur alls konar fisk, silung, þorsk, löngu og skötusel svo eitthvað sé nefnt. Og þess vegna er nú eiginlega alveg glatað hversu fáar fisk uppskriftir eru hérna inni. Sannleikurinn er sá að fiskur er mitt erfiðasta hráefni :( Mér finnst ég ekki nógu góð í að elda fisk en næ því öðru hvoru að elda eitthvað sómasamlegt sem er þess virði að smella hérna inn :) Í kvöld náði ég að elda einn dálítið góðan og ekki spillir fyrir að hann er súpereinfaldur :) Fiskurinn sem ég notaði var frekar smár og þurfti bara örstuttan tíma á pönnunni, ef þið notið stærri flök (væn laxaflök t.d.) þá þurfið þið að elda hann lengur og ég myndi elda hann ca. 60% tímans á roðinu og 40% á fiskihliðinni. 



Uppskriftin er fyrir 4

1 kg. silungur (meira ef það er einhver eins og Daði að borða ;)  )
2 cm. bútur engifer
1/2-1 rautt chilli
2 hvítlauksrif
2 msk. soyja sósa
2 msk. sesamolía
4 msk. ólífuolía
2 msk. sesamfræ

Rífið engifer og hvítlauk og blandið saman við fínt saxað chilli og restina af hráefnunum. Beinhreinsið fiskinn og leggið í marineringuna í a.m.k. hálftíma. 1-2 tímar er flottur marineringartími. Hitið pönnuna á hæsta mögulega hita og setjið fiskinn á. Það eru ýmsar aðferðir við að steikja fisk, sumir segja roðið fyrst og aðrir segja fiskihliðina fyrst. Ef ég ætla mér að borða roðið þarf það að vera vel steikt og þá set ég roðhliðina niður fyrst. Í þetta sinn vildi ég fá smá lit á fiskinn og vegna þess hversu smá flökin voru steikti ég þá fyrst á fiskihliðinn og í ca. 70% tímans og skellti honum svo á roðið í stutta stund. Heildar steikingartíminn var u.þ.b. 2 mínútur. Ég vil hafa fiskinn minn bleikan í miðjunni, ekki eldaðan alveg í gegn, þá verður hann bara þurr og ekkert spennandi.

Ég bar þetta svo fram með einfaldri sætri kartöflumús. Hana geri ég þannig að ég skræli 1 sæta kartöflu, sker í bita og sýð hana þar til hún er mjúk. Mauka hana svo gróflega, set smá smjör og salt og pipar. Tilbúin!





Sunday, February 24, 2013

Hunangsgljáður kjúklingur, rauðrófu- og jarðarberjasalat og ofnbakað rótargrænmeti


Rauðrófur eru svo rosalega góðar og ennþá betra er hvað þær eru hollar! Þær eru járnríkar, innihalda ýmis vítamín og steinefni og hin margumtöluðu andoxurnarefni sem eru talin styrkja ónæmiskerfið og það sem meira er hægja á öldrun :)Rauðrófur innihalda litarefnið betacyanin sem er talið vernda gegn krabbameini. Íþróttafólk á sérstaklega að borða rauðrófur og frábært að fá sér rauðrófusafaskot fyrir æfingar! 
Í þetta sinn fann ég innblástur í einni af matreiðslubókum Sollu á Gló og gerði mína eigin útfærslu af salati frá henni. 

Þessi réttur er í góðu lagi fyrir þá sem fylgja Paleo matarræðinu :)

Uppskriftin er fyrir ca. 4

Kjúklingurinn
1 vænn kjúklingur
ólífuolía
salt og pipar
hunang
smjör

Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel. Nuddið olíu á hann allan, kryddið með salti og pipar og setjið í ofnfat með loki, inn í ofn á 200° í 45 mínútur. Takið þá lokið af, hellið smá góðu hunangi yfir og setjið aftur inn í ofninn en ekki setja lokið aftur á. Ausið af og til hunangsblönduðu soðinu yfir kjúklinginn og hann verður dásamlega safaríkur og skorpan fær fallega brúnan lit af hunanginu. Takið hann út eftir að hann hefur verið í rúman klukkutíma en eldunartíminn fer auðvitað eftir stærð kjúklingsins. Við viljum alls ekki þurran kjúkling og það er fín lína á milli þess að vera með blóðlitaðan safa eða glæran og um leið og safinn er glær þá tökum við hann út! Takið kjúklinginn úr fatinu og setjið það á heita hellu eða hellið soðinu í pott og leyfið að sjóða stutta stund. Takið af hitanum og hrærið smá köldu smjöri rösklega saman við. Þetta er ekki hugsað sem hefðbundin sósa heldur meira eins og eitthvað sem er mitt á milli sósu og soðs.

Rótargrænmetið
1 sæt kartafla
1 grasker (butternut squash)
2 hvítlauksrif
1 tsk. kórianderfræ
1 þurrkað chilli
1 stilkur rósmarín
salt
ólífuolía

Mæli með því að allir eigi gott mortél, það er svo margt hægt að gera í því
Falleg kryddolían
Búið að blanda olíunni vandlega á allt grænmetið
Okku þykir best þegar grænmetið brúnast á köntunum





Hér má nota hvaða rótargrænmeti eða kartöflur sem er, t.d. gulrætur, rauðrófur, nípur eða sellerírót. Ég notaði sæta kartöflu og grasker í þetta sinn. Byrjið á því að saxa hvítlaukinn,  og rósmarín og setja í mortél ásamt kórianderfræjum og chilli. Merjið í mortélinu og blandið olíunni og saltinu saman við. Skerið grænmetið í bita, hversu stóra skiptir ekki máli, því minni - því styttri eldunartími. Hellið kryddolíunni yfir og blandið vel. Setjið kartöflurnar á ofnplötu og inn í ofn í 20-40 mínútur, allt eftir stærð bitanna. 

Rauðrófu- og jarðarberjasalatið
1 lítil rauðrófa
ólífuolía
balsamik edik 
salt

nokkur jarðarber
spínat
sólblómafræ (ristuð á pönnu)
fersk minta
ólífuolía
balsamik edik (helst hvítt)
hunang
dijon sinnep
salt og pipar

Svona fallegt salat getur ekki verið annað en gott fyrir mann!


Byrjið á því að pakka rauðrófunni inn í álpappír með smá ólífuolíu, balsamik ediki og salti. Ég tek hýðið af til að fá bragðið betur í rauðrófuna en það er líka í góðu lagi að hafa hýðið á og taka það svo af þegar þær eru tilbúnar. Lokið álpappírnum vel og setjið í 175° heitan ofn í 1 1/2 klukkustund. Takið rauðrófuna úr ofninum og leyfið henni að kólna. Raðið spínati í skál eða disk. Skerið rauðrófuna í þunnar sneiðar og raðið ofan á. Skerið jarðarberin í bita og raðið fallega í kringum rauðrófurnar. Stráið mintublöðunum yfir og ristuðum sólblómafræjum einnig. Blandið saman olíu, ediki, hunangi og sinnepi, salti og pipar. Ég nota yfirleitt bara tóma krukku með loki því þá er hægt að geyma afganginn í ísskáp í nokkra daga. Ég gef ekki nein hlutföll nema bara það að olía og edik er gott að hafa í hlutföllunum 3:1, 3 af olíu og einn af ediki. Sinnepið pg hunangið er svo bara smekksatriði. Hellið dressingunni yfir salatið og berið strax fram. Ekki láta dressinguna liggja lengi á því þá verður salatið blautt og ekki girnilegt.

Þegar allt þetta er komið saman er þetta holl og bragðgóð máltíð sem hentar jafnt í matarboði sem og bara fyrir fjölskylduna á sunnudagskvöldi eins og hjá okkur :)






Tuesday, February 19, 2013

Hakk og Kúrbítsspaghetti

Já, þið lásuð rétt, Kúrbítsspaghetti! Það þarf að taka þetta Paleo alla leið og finna eitthvað í staðinn fyrir þá hluti sem maður er vanur að nota, eins og t.d. spaghetti. Hakk og spaghetti er frábær leið til að koma grænmeti ofan í stóra jafnt sem smáa og hægt að fela alls konar hollustu ef maður nennir að saxa nógu smátt :) Við eldum þetta nokkuð oft og nú þurfti að reyna á það hvort hægt væri að finna eitthvað í staðinn fyrir spaghetti sem reyndar er alltaf úr heilhveiti og hefur verið í mörg ár. Hvítt pasta er bara ekki gott eftir að maður venst heilhveitinu. Ég prófaði því að búa til einhvers konar strimla úr kúrbítnum og þetta kom bara nokkuð vel út, allavega nógu vel til þess að ég gæti alveg hugsað mér þetta oftar. Og það góða við það að sleppa pastanu er að maður er ekki útþaninn eftir máltíðina heldur passlega saddur og sæll :)



Uppskriftin er fyrir ca. 4

600 gr. hakk
1 laukur
2 hvítlauskrif
2 gulrætur
annað grænmeti að eigin vali (ég notaði brokkolí, papriku, sveppi og strengjabaunir)
1/2-1 rautt chilli
1 rósmaríngrein
2 dósir hakkaðir tómatar (munið að kaupa hreina, ósæta og ókryddaða)
ólífuolía
salt og pipar
1 kúrbítur

Brúnið hakkið í olíu í góðum þykkbotna potti eða pönnu sem hægt er að loka. Kryddið með salti og pipar. Saxið allt grænmetið eins smátt og þið viljið, mér finnst best að hafa það í smærri kantinum. Blandið grænmetinu, fínt söxuðu rósmarín og tómötum út í. Leyfið þessu að malla í að minnsta kosti klukkutíma, helst 2 tíma. Rífið kúrbítinn í mjóa strimla og reynið að hafa þá eins langa og þið getið til að líkja eftir spaghetti :) Saltið þá smávegis og leyfið þeim að standa á meðan hakkið mallar. Smakkið hakkið til með salti og pipar og þetta er tilbúið þegar þið eruð sátt við bragðið. Ef þið eigið ferska steinselju eða basil er tilvalið að hræra því út í áður en þið berið þetta fram. Gæti varla verið einfaldara!

Tuesday, February 12, 2013

No bean chilli

Við höldum mikið upp á Chilli con carne og ef maður sleppir baununum þá er þetta hinn besti Paleo matur! Svo er maður bara með dásemdar guacamole með og allir glaðir :)



Uppskriftin er fyrir ca. 4

600 gr. nautahakk
1 stór laukur
1/2-1 rautt chilli eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta og hversu sterkt chilliið er
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar (ca. 200 gr.)
1 dós hakkaðir tómatar (passa að velja hreina, ókryddaða og ósæta)
1 kanilstöng
4 negulnaglar
1 tsk. cummin
1 tsk. paprika (má vera reykt ef þið eigið hana)
salt og pipar
kókos- eða ólífuolía til að steikja


Brúnið hakkið á pönnu eða potti og kryddið með salti og pipar. Bætið söxuðum lauk og fínt söxuðu chilli út í og steikið áfram stutta stund. Maukið sólþurrkuðu tómatana ásamt svolítilli olíu úr krukkunni með töfrasprota eða matvinnsluvél og blandið út í pottinn. Bætið restinni af hráefnunum út í og lokið á og leyfið þessu að malla í að minnsta kosti klukkustund, tveir tímar og þið eruð að gera góða hluti :) Smakkið til með salti og ef ykkur finnst vanta meiri hita í þetta þá bætið þið chillidufti út í þar til þið eruð ánægð :)

Venjulega þegar ég geri chilli þá er ég með guacamole, sýrðan rjóma, nachos, ost... allan pakkann! En í þetta sinn er það guacamole sem er málið.

2 vel þroskuð avocado
1 stór eða 2 litlir tómatar
1/4 rauðlaukur eða nokkrir vorlaukar
lime safi eftir smekk
2 msk. ólífuolía (munið að nota góða kaldpressaða í dökkri flösku, góðar olíur eru aldrei í glærum flöskum)
lítil handfylli ferskt kóriander (steinselja sleppur)
salt og pipar

Saxið tómatana og laukinn mjög smátt og setjið í skál. Annað hvort stappið eða saxið avocadoið og blandið saman við. Mér finnst best að hafa þetta pínu chunky og saxa það og stappa pínu með skeiðinni. Blandið olíunni og söxuðu kóriander og smakkið til með lime safa og salti og pipar. Ef ég væri ekki að bera þetta fram með chilli sem er frekar sterkt þá myndi ég jafnvel setja pínu chilli í guacamoleið.

Yfir þetta allt saman fór svo snakk sem búið er til úr sætum kartöflum.... Paleo all the way :)

Sunday, February 10, 2013

Appelsínu- og engifer kjúklingur

Skv. Liljunni minni heitir þessi réttur Gæðakjúklingur, svo góður er hann :)

Gott er að brúna kjúklinginn vel, sætan úr appelsínunni karmeliserast

Paleo mánuðurinn er hafinn! Og það af krafti! Fyrir þá sem ekki vita hvað Paleo matarræði er þá er það hollur og góður, hreinn matur. Engar mjólkurvörur, engar kornvörur og það besta ENGINN SYKUR! Þetta er kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, hnetur og fræ, egg, góðar olíur og fita. Ekkert flókið heldur bara góður matur :) Og ég hef ákveðið að taka einn mánuð þar sem ég borða eftir þessari hugmyndafræði. Þegar maður er orðinn svona hrikalegur crossfittari þá er ekkert annað í boði ;) Þessi kjúklingur er í boði Paleo :)

Uppskriftin er fyrir 3-4

1 heill kjúklingur
1 appelsína
1/2 þumlungur engifer
3 hvítlauksrif
1/2 rautt chilli
4 msk. ólífuolía
salt og pipar
25 gr. smjör

Byrjið á því að taka hrygginn úr kjúklingnum og fletja hann út. Það styttir eldunartímann og hann dregur vel í sig bragðið frá öllum hliðum. Rífð börkinn af appelsínunni og kreistið safann úr henni í skál. Rífið engiferið og hvítlaukinn (eða kreistið hvítlaukinn í pressu), saxið chilli smátt og blandið út í. Setjið ólífuolíu út í og kryddið með salti og pipar. Hellið þessu yfir kjúklinginn og setjið í 200° heitan ofninn með loki ofan á. Eldið í ca. klukkustund. Ausið marineringunni yfir eins oft og þið nennið, á ca. 10 mínútna fresti. Takið lokið af síðasta korterið til að fá smá lit á toppinn á kjúklinginn.
Takið kjúklinginn úr fatinu, leyfið soðinu að sjóða aðeins niður, takið af hitanum og þykkið með smjöri. Ef þið viljið ekki nota smjör er allt í lagi að sjóða það bara vel niður og hella yfir kjúklinginn.

Appelsína og kóríander er hið fullkomna hjónaband, og fyrst ég var með appelsínukjúkling gerði ég kóríander kartöflur. Takið sætar kartöflur, skerið í hæfilega stóra bita, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og matskeið af kórianderfræjum sem þið merjið í mortéli. Ef þið eigið ekki fræ þá er hægt að setja ca. teskeið af muldu kóríander. Setjið þetta inn í ofn í 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar og byrjaðar að brúnast.

Hollt og verulega gott!





Tuesday, February 5, 2013

Kjúklinga- og quinoa salat

Ef þið hafið ekki áttað ykkur á því nú þegar en ÉG ELSKA QUINOA! Það er svo mikil súperfæða Hér er smá lesning um quinoa sem ég setti eitt sinn inn og hvet ykkur til að lesa :) Þetta salat er svo einfalt og fljótlegt að allir geta gert þetta, og endalaus hollusta. Það er hægt að leika sér svo mikið með hráefni sem í grunnin eru bragðlítil eins og kjúklingur og quinoa og hægt að gera óspennandi og leiðinlegt en með einföldum tilbrigðum er þetta frábær matur til að leika sér með.



Uppskriftin er fyrir 4

3-4 kjúklingabringur
2,5 dl. quinoa 
1 avocado
4 tómatar 
4 vorlaukar
1/4 gúrka
1/4 krukka fetaostur eða 1/2 stk. ferskur, ókryddaður fetaostur
2 msk. lime safi
4 msk. ólífuolía (góð, kaldpressuð)
lítil handfylli ferskt basil
salt og pipar
hunang

Byrjið á því að sjóða quinoað, ég er með skothelda leið til þess! Einn hluti quinoa á móti tveimur af vatni. Látið suðuna koma upp, lækkið niður og sjóðið í 12 mínútur. Takið af hitanum og hafið lokið á og leyfið þessu að standa í smá stund. Setjið í stóra skál og hrærið varlega í með gaffli. 
Skerið tómatana í litla bita, bætið lime safanum og olíunni ásamt smá salti og pipar og leyfið þessu að standa á meðan þið græjið restina af salatinu. Leyfið tómötunum að draga í sig bragðið af safanum. Eitt sem mig langar að minna á er að geyma aldrei tómata í ísskáp! Leyfið þeim að njóta sín í fallegri skál á borðinu, verða eldrauðir og miklu bragðmeiri en úr ísskápnum! 
En aftur að salatinu :) Setjið kjúklingabringurnar í poka og berjið þær varlega með kökukefli. Reynið að berja á þykkari endann til að gera þær allar nokkuð jafnar að þykkt. Þetta styttir eldunartímann töluvert. Steikið þær á háum hita á pönnu og kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann örlítið og leyfið þeim að steikjast áfram á pönnunni í ca. 10 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn en ennþá safaríkar. Þegar 3-4 mínútur eru eftir af steikingatímanum hellið þið smá hunangi yfir þær og leyfið þeim að malla í því, það þarf ekki nema 2-3 msk. á allar bringurnar. Það munar ótrúlega mikið að setja hunangið á! Takið bringurnar af og leyfið þeim að standa í 5 mínútur áður en þið skerið í þær í þunnar sneiðar.
Saxið nú restina af hráefninu og blandið saman við quinoað. Bætið tómötunum og safanum af þeim, kjúklingnum og fetaostinum (ekki olíuna með) og gróft rifnu basil út í og berið fram með kaldri hvítlaukssósu. Ef þetta er þurrt er hægt að hella smá meiri ólífuolíu yfir salatið ef þið viljið. Þetta er frábært eitt og sér en alveg hægt að splæsa í gott brauð ef einhver vill slíkt, en svona er þetta kvöldmatur sem hægt er að njóta nokkuð samviskulaust :)

Fljótleg hvítlaukssósa
1 dós sýrður rjómi eða grísk jógúrt
1 hvítlauksrif kramið eða rifið
1/2 búnt fersk steinselja smátt söxuð
1 msk. hunang eða hlynsíróp
1/2-1 msk. sítrónusafi
salt og pipar

öllu blandað saman í skál og saltað og piprað örlítið. Smakkað til með sítrónusafa og hunangi. Leyfið sósunni að standa í smá stund til að taka í sig bragðið.

Tuesday, January 29, 2013

Fljótlegur fiskréttur

Þegar ég var lítil gerði mamma alltaf sama fiskréttinn, hrísgrjón í botninn á eldföstu móti, fiskurinn ofan á, kryddað (líklega með Aromat ;) ) Sneyddir tómatar ofan á fiskinn og ostur yfir allt. Þetta eldað í ofninum og mögulega borið fram með kínakáli og gúrku :) Þessi gamli góði mömmufiskur var innblásturinn að þessum hérna sem er þó kominn dálítið langt frá upprunanum.



Rétturinn er fyrir 4.

800gr. -1 kg. þorskur eða ýsa (ég notaði þorsk)
1 laukur
1/2 askja sveppir
1/2 paprika
nokkrar matskeiðar hveiti
1 msk. paprikuduft
1 msk. karrý
1 tsk. turmerik
salt og pipar
1 egg
smá mjólk
1 dós kókosmjólk
1/2 kjúklingateningur
1 tsk. sinnep
2 tómatar
rifinn ostur
olía (ég notaði kókosolíu)


Skerið grænmetið í hæfilega bita og steikið á pönnu í smá olíu í 3-5 mínútur. Setjið í botninn á eldföstu móti. Bætið kryddunum út í hveitið og hrærið egginu með smá mjólk. Veltið fiskinum upp úr eggi, hveiti og aftur eggi og brúnið í olíu á sömu pönnunni og grænmetið var steikt. Takið fiskinn af og raðið ofan á grænmetið. Hellið kókosmjólkinni á pönnuna, setjið hálfan kjúklingatening, sinnepið og smá karrý út í og smakkið til. Leyfið þessu að malla i ca. 2 mínútur. Hellið yfir fiskinn, raðið sneiddum tómötum ofan á, rifinn ost yfir allt og inn í 200° heitan ofn í 10 mínútur eða nótu lengi til að brúna ostinn og klára að elda fiskinn í gegn. Með þessu var ég með quinoa eins og svo oft áður en það er líka hægt að hafa hrísgrjón, kartöflur eða hvað sem er. Gott salat er líka voða gott með fiskinum :)

Saturday, January 19, 2013

Pottþéttur steiktur kjúklingur



Þessi kjúklingur er svo frábær! Fá en góð hráefni og nóg af smjöri.... getur ekki klikkað :) Ef ég er alveg tóm í hausnum og veit ekkert hvað ég á að gera þá er alltaf hægt að gera eitthvað svona. Þið verðið bara að prófa til að trúa :)

Uppskriftin er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur
100 gr. smjör
handfylli ferskar kryddjurtir, í þessu tilfelli notaði ég basil og steinselju en það má vera hvað sem er, t.d. er salvía alveg dásamleg :)
1 sítróna
2 hvítlauksrif
salt og pipar
1 glas hvítvín


Byrjið á því að hita ofninn í 200°. Rífið börkinn af sítrónunni og blandið saman við smjörið, saxaðar kryddjurtinar og saxaðan hvítlaukinn. Lyftið skinninu af bringunum og setjið kryddsmjörið þar undir. Kreistið 1/2 sítónuna yfir kjúklinginn og stingið henni innan í fuglinn. Setjið hinn helminginn í fatið sem þið ætlið að elda í. Saltið og piprið og skellið í ofninn í 45 mínútur með lokinu á.

Tilbúinn í ofninn


Takið þá lokið af og steikið áfram í um það bil hálftíma eða þar til kjúklingurinn lekur ekki rauðum vökva þegar þið haldið honum upp. Hvað sem þið gerið, ekki ofelda kjúklinginn!!! Fylgist með honum en forðist það að skera í hann heldur treystið á vökvann sem kemur úr kjúklingnum þegar þið lyftið honum upp.

Safaríkur og mjúkur að innan með stökkri skorpu


Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, takið hann úr fatinu og leyfið honum að hvíla á meðan þið útbúið sósuna. Hana gerið þið með því að skella helst fatinu beint á helluna eða hella soðinu í pott. Kreystið sítrónuna sem var í fatinu út í soðið, hellið hvítvíninu út í og leyfið þessu að sjóða aðeins niður. Smakkið til með salti og pipar ef þarf. Þykkið með þeim sósujafnara sem þið eruð vön að nota, ég nota yfirleitt maizena mjöl.

Sósan elduð í sama fati og kjúklingurinn og allur krafturinn fær að vera með


Með þessu er hægt að hafa ótrúlega margt meðlæti. Við vorum með einfaldar ofnbakaðar kartöflur og sætar kartöflur. Saxið kartöflurnar í hæfilega stóra bita og raðið á fat. Setjið smá ólífuolíu og salt og pipar út á og blandið vel saman. Þegar um það bil hálftími er eftir af kjúklingnum setjið kartöflurnar inn. Þegar 10 mínútur eru eftir setjið ca. 4 msk. af balsamik ediki yfir (passið ykkur að vera ekki með andlitið beint yfir því það er ekkert sérstaklega gott að fá gufuna í nefið....). Ekki hafa áhyggjur af því að kartöflurnar verði dökkar á litinn, þær eru alveg örugglega ekki brenndar heldur er edikið að gefa þeim þennan dökka lit. Þær verða svo sætar og góðar að þær eru eins og nammi!
Salat, hrísgrjón, quinoa, gufusoðnar strengjabaunir og ýmislegt fleira hefði verið gómsætt meðlæti með þessu líka. Mæli með því að þetta verði sunnudagssteikin þessa helgina :)

Tuesday, January 15, 2013

Kryddaðar lambabollur

Loksins vakna ég til lífsins eftir jólafríið sem var alveg dásamlegt! Gott að koma til London og verja góðum tíma með fjölskyldunni.
Janúar er tíminn þegar maður dúllar sér heima, kalt og dimmt úti og best að njóta þess að geta kveikt á kertum og borðað hollan og góðan mat.
Ég nota ekki oft lambahakk, bæði vegna þess að það fæst ekki mjög víða og svo finnst mér ég þurfa að gera eitthvað annað við það en nautahakkið. Í þetta sinn fór ég austur á bóginn, sótti mér innblástur frá Indlandi. Þetta tók örstuttan tíma og hægt að hafa meðlætið eins flókið og einfalt og maður vill. Kryddin er auðvelt að aðlaga að smekk hvers og eins, bæta við meira chilli t.d. fyrir þá sem vilja meiri hita. Mælieiningarnar eru ekki alveg nákvæmar í þetta sinn, ég smakkaði þetta bara til.



Uppskriftin er fyrir 4-6

1 kg. Lambahakk
ca. msk. karrý
ca. tsk. Turmerik
ca. tsk. Cummin
ca. msk. Chilli
ca. tsk. tandoori krydd
salt
2 msk. krydduð tómatsósa eða venjuleg tómatsósa. Ég notaði sósu frá góðum vini okkar honum Bim. Við kaupum sósur frá honum í hvert sinn sem við förum til London, hann fer á ýmsa markaði að selja vörurnar sínar og er alveg yndislegur. Hann er líka með facebook síðu og er til í að senda til Íslands.

Þetta er sú sem ég notaði í bollurnar



Hitið ofninn í 200°. Blandið öllu saman í skál, ég læt hrærivélina um að blanda fyrir mig. Til að smakka bollurnar til er gott að hita smá olíu á pönnu og steikja eina bollu á pönnunni. Smakka hana og bæta við kryddum ef ykkur þykir þurfa. Þegar þið eruð ánægð þá bara rúllið þið bollunum eins stórum og þið viljið. Ég vil hafa þær álíka stórar og borðtenniskúlu en þið bara gerið eins og þið viljið. Raðið þeim svo á plötu klædda smjörpappír og bakið í ofninum í um það bil 15 mínútur. Ekki elda þær of lengi því þá verða þær þurrar. Í þetta sinn var meðlætið einfalt, gerði það sama og hérna, couscous og gúrkusósa. Mango chutney eða sæt chillisósa hefði líka verið snilld. Daði smellti þessu öllu saman í vefju og borðaði þannig, það er líka sniðugt að útbúa svoleiðis og taka með sér í nesti.