Saturday, December 8, 2012

Lasagne - spariútgáfan

Ég setti inn uppskrift af einföldu lasagne fyrr á þessu ári og nú kemur viðhafnarútgáfan :) Þessi uppskrift kemur upphaflega frá honum Jamie Oliver vini mínum en ég er búin að breyta henni þó nokkuð :) Þessi uppskrift er svoooo góð og hvaða ítalska mamma væri stolt af henni! Ekki hræðast hráefnin, þetta einfaldlega virkar saman! Og alls ekki hræðast ansjósur! Ég veit að margir gera það, myndu aldrei prófa að elda með ansjósum en ég lofa ykkur því að þið finnið ekki bragðið að þeim, þær bráðna þegar þær eldast og skilja eftir sig dásamlegt bragð.

Gott að rífa smá Parmesan ost yfir


Uppskriftin er fyrir ca. 4 en lítið mál að aðlaga hana

4 sneiðar bacon
kanill á hnífsoddi
500 gr. hakk (einn pakki)
1 stór laukur
2 gulrætur
3 hvítlauksrif
góð handfylli ferskar kryddjurtir (má vera ein eða fleiri, í þetta sinn notaði ég steinselju, basil og salvíu en rósmarín hefði t.d. virkað mjög vel)
salt og pipar
1 stórt rauðvínsglas (eða vatn)
2 dósir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
ólífuolía

1 grasker (butternut squash)
1 þurrkað chilli eða smá chilliduft
1 tsk. kórianderfræ eða mulið kóriander
salt

3 dósir sýrður rjómi (mikilvægt að nota feitan, ég nota 18%)
1/2 stykki Parmesan ostur
3 ansjósuflök
smá mjólk
salt og pipar

Lasagneblöð
Rifinn ostur


Byrjið á því að skera baconið smátt og steikja í olíu á miðlungshita með smá kanil þar til það er orðið gullið á lit. Bætið þá hakkinu út í og brúnið. Bætið söxuðu grænmetinu og kryddjurtunum út í og steikið áfram. Kryddið með salti og pipar. Venjulega set ég aldrei kryddjurtir út í fyrr en í lokin en í þessari uppskrift skiptir máli að þær fari út í á sama tíma og grænmetið. Það er mjög mikilvægt að nota ekki þurrkaðar kryddjurtir í þessa uppskrift, hún er alls ekki eins góð með því. Hellið rauðvíni út í og leyfið því að sjóða aðeins niður og bætið þá tómötunum og tómatpúrrunni út í. Lækkið undir og leyfið þessu að mala í a.m.k. klukkustund, helst tvær.

Hitið ofninn í 180°. Skerið graskerið í ca. 1/2 cm. þykkar sneiðar. Setjið smá olíu á ofnplötu og raðið sneiðunum á hana. Setjið kóriander og chilli í mortél og myljið mjög fínt.
Kóriander og chilli

 Stráið yfir graskerið ásamt örlitlu salti og bakið í ofninum í 30-40 mínútur, frekar ofarlega í ofninum.




Blandið saman sýrðum rjóma og rifnum parmesan. Þynnið með smá mjólk ef þarf. Stappið ansjósur með gaffli og blandið saman við. Kryddið með smá salti og pipar.



Nú er komið að því að setja saman allt góðgætið :) Byrjið á því að setja lasagneblöð í botinn á eldföstu móti. Svo kjötsósu, svo hvítu sósuna og svo graskerið og þannig koll af kolli þar til þið endið á hvítu sósunni og rifnum osti yfir allt saman.



Þetta fer svo inn í 180° heitan ofninn í ca. 20-30 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn og fallegur og pastablöðin elduð í gegn.

Osturinn orðinn fallega brúnaður

Það er eitt mjög mikilvægt þegar maður eldar lasagne og það er að láta það standa í 10 mínútur eftir að maður tekur það út. Þá draga pastablöðin allan safann í sig og það rennur ekki út um allt á diskinum. Best með þessu er einfalt salat og/eða gott brauð. Og jafnvel smá rauðvínstár í glasi með :)

No comments:

Post a Comment