Wednesday, January 25, 2012

Lasagne-einfalda útgáfan


Lasagne er "comfort food" fjölskyldunnar. Okkur finnst þetta öllum gott og börnin borða afar vel af þessu. Jafnvel hægt að koma ýmsu grænmeti ofan í þau sem venjulega þau snerta ekki :) Ég er svo sem ekkert að finna upp hjólið enda hver með sína aðferð og uppskrift við þennan fræga rétt. Ég geri í raun 2 mismunandi útgáfur, það er annars vegar þessi sem er "mánudags" útgáfan og svo aðra aðeins flóknari og langtum tímafrekari. Stundum baka ég upp hvítu Bechamel sósuna en oftast geri ég eins og í þessari uppskrift sem ég ætla að deila með ykkur núna. Ég set svo pottþétt flóknu útfærsluna inn síðar, hún er algjört æði! Ég er farin að blanda svína- og nautahakki saman. Það er bæði ódýrara og svo komst ég að því að það er eiginlega betra en bara úr nautahakki! Hvítlaukurinn er smekksatriði, við elskum hann og notum því nóg af honum en hver og einn verður að finna þetta út fyrir sig.


Uppskriftin er fyrir ca.4

Kjötsósan
500 gr. hakk að eigin vali
2-3 sneiðar beikon, smátt saxað
2-4 hvítlauksrif, kramin eða fínt söxuð
1 laukur, smátt saxaður
2 gulrætur, smátt saxaðar
2 stilkar sellerí, smátt saxaðir
annað grænmeti ef vill, t.d. sveppir, brokkolí, kúrbítur, eggaldin....
kanill á hnífsoddi (jebb bara öööörlítið af honum gerir gæfumuninn)
2 dósir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 lítil dós tómatpúrra
kryddjurtir að eigin vali, ferskar eða þurrkaðar, ég blanda oftast saman steinselju, basil, rósmarín og salvíu. Stór handfylli af ferskum eða msk. af þurrkuðum
1 glas rauðvín (má sleppa)
salt og pipar og ef til vill smá nautakraftur (teningur)
1 tsk. sykur eða annað sætuefni, t.d. hunang

Steikið beikonið við rúmlega miðlungshita þar til það er orðið gullið á litinn. Bætið þá kanil út og í steikið áfram í stutta stund. Bætið þá öllu grænmetinu út í og leyfið því að taka smá lit, það getur tekið ca. 5 mínútur. Bætið þá kjötinu út í og brúnið vel og kryddið með salti og pipar. Hellið þá rauðvíninu út í og látið sjóða niður áður en þið bætið restinni af hráefnunum út í . Ef notaðar eru ferskar kryddjurtir myndi ég setja þær út í í restina, annars fara þær í pottinn núna. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla í a.m.k. háltíma en því lengur, því betra! Smakkið til með salti og pipar og nautakrafti ef þarf.
Á meðan þetta mallar í pottinum er hvíta sósan löguð.

Hvíta sósan
3 dósir sýrður rjómi
2-4 ansjósuflök (má sleppa en helst ekki)
1/2 stk. parmesan ostur rifinn
mjólk eða rjómi eftir þörfum
salt og pipar

Sýrðum rjóma og parmesan blandað í skál og ansjósurnar maukaðar saman við, þær leysast mjög auðveldlega upp. Mjólkinni bætt út í eftir þörfum þar til þykktin er ákjósanleg. Saltað og piprað eftir smekk.

Samsetningin er svo auðvitað ekkert mál. Lasagne blöð - kjötsósa - hvít sósa - lasagne blöð -  kjötsósa - hvít sósa..... Ég enda á hvítu sósunni og svo helling af rifnum osti ofan á. Blanda af Mozzarella og Parmesan er góð, þá fær maður fallegan gullin lit á matinn. Þetta fer svo í ofn á 180° í 20-30 mínútur. Tíminn getur verið misjafn en ef osturinn er farinn að brúnast of mikið en pastablöðin eru ekki tilbúin má setja lok eða álpappír ofan á. Látið réttinn standa í 5-10 mínútur áður en skorið er í hann. Þá draga blöðin í sig allan safann og þetta verður dásamlega gott. Svo er auðvitað eina vitið að borða með þessu gott salat og brauð og fá sér eitt gott ítalskt rauðvínsglas.

No comments:

Post a Comment