Uppskriftin er fyrir ca.4
Kjötsósan
500 gr. hakk að eigin vali
2-3 sneiðar beikon, smátt saxað
2-4 hvítlauksrif, kramin eða fínt söxuð
1 laukur, smátt saxaður
2 gulrætur, smátt saxaðar
2 stilkar sellerí, smátt saxaðir
annað grænmeti ef vill, t.d. sveppir, brokkolí, kúrbítur, eggaldin....
kanill á hnífsoddi (jebb bara öööörlítið af honum gerir gæfumuninn)
2 dósir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 lítil dós tómatpúrra
kryddjurtir að eigin vali, ferskar eða þurrkaðar, ég blanda oftast saman steinselju, basil, rósmarín og salvíu. Stór handfylli af ferskum eða msk. af þurrkuðum
1 glas rauðvín (má sleppa)
salt og pipar og ef til vill smá nautakraftur (teningur)
1 tsk. sykur eða annað sætuefni, t.d. hunang
Steikið beikonið við rúmlega miðlungshita þar til það er orðið gullið á litinn. Bætið þá kanil út og í steikið áfram í stutta stund. Bætið þá öllu grænmetinu út í og leyfið því að taka smá lit, það getur tekið ca. 5 mínútur. Bætið þá kjötinu út í og brúnið vel og kryddið með salti og pipar. Hellið þá rauðvíninu út í og látið sjóða niður áður en þið bætið restinni af hráefnunum út í . Ef notaðar eru ferskar kryddjurtir myndi ég setja þær út í í restina, annars fara þær í pottinn núna. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla í a.m.k. háltíma en því lengur, því betra! Smakkið til með salti og pipar og nautakrafti ef þarf.
Á meðan þetta mallar í pottinum er hvíta sósan löguð.
Hvíta sósan
3 dósir sýrður rjómi
2-4 ansjósuflök (má sleppa en helst ekki)
1/2 stk. parmesan ostur rifinn
mjólk eða rjómi eftir þörfum
salt og pipar
Sýrðum rjóma og parmesan blandað í skál og ansjósurnar maukaðar saman við, þær leysast mjög auðveldlega upp. Mjólkinni bætt út í eftir þörfum þar til þykktin er ákjósanleg. Saltað og piprað eftir smekk.
Samsetningin er svo auðvitað ekkert mál. Lasagne blöð - kjötsósa - hvít sósa - lasagne blöð - kjötsósa - hvít sósa..... Ég enda á hvítu sósunni og svo helling af rifnum osti ofan á. Blanda af Mozzarella og Parmesan er góð, þá fær maður fallegan gullin lit á matinn. Þetta fer svo í ofn á 180° í 20-30 mínútur. Tíminn getur verið misjafn en ef osturinn er farinn að brúnast of mikið en pastablöðin eru ekki tilbúin má setja lok eða álpappír ofan á. Látið réttinn standa í 5-10 mínútur áður en skorið er í hann. Þá draga blöðin í sig allan safann og þetta verður dásamlega gott. Svo er auðvitað eina vitið að borða með þessu gott salat og brauð og fá sér eitt gott ítalskt rauðvínsglas.
No comments:
Post a Comment