Saturday, January 14, 2012

Þjóðlegt og þægilegt


Íslenskt já takk!!! Ég verð að viðurkenna að við erum ekkert allt of dugleg að elda lambakjöt, en stundum tökum við okkur til og minnum okkur á það hvað íslenska lambakjötið er nú gott.
Lambabógur er ódýrt kjöt og ef það er eldað á réttan hátt er það svakalega meirt og gott. Best er að elda það í langan tíma við lágan hita eða þar til það hreinlega dettur af beinunum. Þægilegt að skella því í ofninn um miðjan sunnudag og þurfa svo ekkert að gera fyrr en lagt er á borðið!


1 lambabógur
1 lítri lambasoð (um það bil, fer eftir stærð frampartsins)
1 heill hvítlaukur, skorinn í tvennt
salt og pipar
rósmarín (þurrkað eða ferskt)
1 stór laukur
2 stilkar sellerí
gulrætur, kartöflur, rófur eða annað gott grænmeti sem til er í ísskápnum og passar vel með lambinu. Magnið fer eftir fjölda þess sem ætla að borða :)


Hitið ofninn á mesta mögulegan hita. Saltið og piprið kjötið og kryddið með rósmarín. Setjið það ofan í djúpt fat með loki eða álpappír yfir. Hellið soðinu meðfram, bætið lauk, hvítlauk og sellerí út í. Lokið á og beint inn í sjóðandi heitan ofninn. Lækkið strax hitann og leyfið kjötinu að malla á 130°-150° í 2 klukkutíma. Þá bætið þið niðurskornu rótargrænmetinu út í (ekki of smátt saxað) og látið malla áfram í ca.klukkustund. Ef vökvinn er orðinn lítill er hægt að bæta meira vatni út í. Kjötið er tilbúið þegar það dettur af beinunum, safaríkt og mjúkt! Tíminn getur verið breytilegur eftir þyngdinni á kjötinu. Við viljum auðvitað ekki að það verði þurrt en ef soðið er nægjanlegt og lokið á fatinu þá á það ekki að þorna.
Takið kjötið og grænmetið upp úr fatinu og berið fram með soðinu en það er líka auðvitað hægt að útbúa sósu úr því. Okkur finnst best að hella safanum bara beint yfir kjötið og ekkert að vesenast með sósuna.
Kraftmikill, einfaldur og góður sunnudagsréttur á köldum vetrardögum :)

No comments:

Post a Comment