Sunday, December 16, 2012

Vanillu bollakökur



Í byrjun þessa árs setti ég inn uppskrift að súkkulaði bollakökum og nú er komið að uppáhaldinu mínu sem eru vanillu bollakökur. Þær eru hvítar og fallegar og hægt að skreyta með með hvaða fallega kremi sem er, ég notað venjulega vanillusmjörkrem sem ég lita á ýmsa vegu. Í þetta sinn voru þær fagurbleikar fyrir fallega litla þriggja ára stúlku. Kökurnar eru svo einfaldar en mjúkar og dásamlegar :) Ég leitaði lengi að hinni fullkomnu uppskrift að hvítum bollakökum og þessi er sú sem hefur aldrei klikkað!

Uppskriftin er fyrir ca. 18 kökur

1 bolli sykur
1/2 bolli smjör
2 stór egg
1 msk. góðir vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 bolli mjólk

Þeytið vel saman smjör og sykur. Smjörið þarf ekki að vera mjúkt! Bætið einu eggi í einu út í og þeytið áfram þar til blandan er mjúk og létt. Bætið vanilludropum út í og þeytið áfram. Blandið hveiti og lyftidufti saman og setjið helminginn út í, þá mjólkina og svo restina af hveitinu. Hrærið ekki lengi eftir að allt er komið í skálina, bara rétt til að það blandist saman.
Best er að nota stál muffins form og raða bréf formunum þar ofan í. Þá halda kökurnar fallegri lögun og leka ekki út eins og þær vilja stundum gera. Setjð ca. matskeið í hvert form. Bakið í 175° heitum ofni í 20 mínútur, á blæstri. Takið kökurnar út og látið kólna áður en þið skreytið þær.

Smjörkrem
125 gr. smjör
250 gr. flórsykur
1 msk. vanilludropar
2 msk. mjólk

Þeytið smjörið vel þar til það er farið að verða ljóst á litinn. Bætið þá flórsykrinum og vanilludropunum saman við og þeytið í ca. 5 mínútur. Bætið mjólk út í, ca. tveimur matskeiðum eða þar til kremið er orðið nógu mjúkt til að sprauta því. Litið kremið að vild eða hafið það hvítt. Hægt er að skipta vanilludropunum út fyrir sítrónudropa og þá er komið allt öðruvísi krem. Skreytið svo kökurnar að vild, mér finnst fallegt að gera rósir og geri þær oftast. Glimmer er líka alltaf smart :)

2 comments: