Tuesday, January 15, 2013

Kryddaðar lambabollur

Loksins vakna ég til lífsins eftir jólafríið sem var alveg dásamlegt! Gott að koma til London og verja góðum tíma með fjölskyldunni.
Janúar er tíminn þegar maður dúllar sér heima, kalt og dimmt úti og best að njóta þess að geta kveikt á kertum og borðað hollan og góðan mat.
Ég nota ekki oft lambahakk, bæði vegna þess að það fæst ekki mjög víða og svo finnst mér ég þurfa að gera eitthvað annað við það en nautahakkið. Í þetta sinn fór ég austur á bóginn, sótti mér innblástur frá Indlandi. Þetta tók örstuttan tíma og hægt að hafa meðlætið eins flókið og einfalt og maður vill. Kryddin er auðvelt að aðlaga að smekk hvers og eins, bæta við meira chilli t.d. fyrir þá sem vilja meiri hita. Mælieiningarnar eru ekki alveg nákvæmar í þetta sinn, ég smakkaði þetta bara til.



Uppskriftin er fyrir 4-6

1 kg. Lambahakk
ca. msk. karrý
ca. tsk. Turmerik
ca. tsk. Cummin
ca. msk. Chilli
ca. tsk. tandoori krydd
salt
2 msk. krydduð tómatsósa eða venjuleg tómatsósa. Ég notaði sósu frá góðum vini okkar honum Bim. Við kaupum sósur frá honum í hvert sinn sem við förum til London, hann fer á ýmsa markaði að selja vörurnar sínar og er alveg yndislegur. Hann er líka með facebook síðu og er til í að senda til Íslands.

Þetta er sú sem ég notaði í bollurnar



Hitið ofninn í 200°. Blandið öllu saman í skál, ég læt hrærivélina um að blanda fyrir mig. Til að smakka bollurnar til er gott að hita smá olíu á pönnu og steikja eina bollu á pönnunni. Smakka hana og bæta við kryddum ef ykkur þykir þurfa. Þegar þið eruð ánægð þá bara rúllið þið bollunum eins stórum og þið viljið. Ég vil hafa þær álíka stórar og borðtenniskúlu en þið bara gerið eins og þið viljið. Raðið þeim svo á plötu klædda smjörpappír og bakið í ofninum í um það bil 15 mínútur. Ekki elda þær of lengi því þá verða þær þurrar. Í þetta sinn var meðlætið einfalt, gerði það sama og hérna, couscous og gúrkusósa. Mango chutney eða sæt chillisósa hefði líka verið snilld. Daði smellti þessu öllu saman í vefju og borðaði þannig, það er líka sniðugt að útbúa svoleiðis og taka með sér í nesti.


No comments:

Post a Comment