Tuesday, January 29, 2013

Fljótlegur fiskréttur

Þegar ég var lítil gerði mamma alltaf sama fiskréttinn, hrísgrjón í botninn á eldföstu móti, fiskurinn ofan á, kryddað (líklega með Aromat ;) ) Sneyddir tómatar ofan á fiskinn og ostur yfir allt. Þetta eldað í ofninum og mögulega borið fram með kínakáli og gúrku :) Þessi gamli góði mömmufiskur var innblásturinn að þessum hérna sem er þó kominn dálítið langt frá upprunanum.



Rétturinn er fyrir 4.

800gr. -1 kg. þorskur eða ýsa (ég notaði þorsk)
1 laukur
1/2 askja sveppir
1/2 paprika
nokkrar matskeiðar hveiti
1 msk. paprikuduft
1 msk. karrý
1 tsk. turmerik
salt og pipar
1 egg
smá mjólk
1 dós kókosmjólk
1/2 kjúklingateningur
1 tsk. sinnep
2 tómatar
rifinn ostur
olía (ég notaði kókosolíu)


Skerið grænmetið í hæfilega bita og steikið á pönnu í smá olíu í 3-5 mínútur. Setjið í botninn á eldföstu móti. Bætið kryddunum út í hveitið og hrærið egginu með smá mjólk. Veltið fiskinum upp úr eggi, hveiti og aftur eggi og brúnið í olíu á sömu pönnunni og grænmetið var steikt. Takið fiskinn af og raðið ofan á grænmetið. Hellið kókosmjólkinni á pönnuna, setjið hálfan kjúklingatening, sinnepið og smá karrý út í og smakkið til. Leyfið þessu að malla i ca. 2 mínútur. Hellið yfir fiskinn, raðið sneiddum tómötum ofan á, rifinn ost yfir allt og inn í 200° heitan ofn í 10 mínútur eða nótu lengi til að brúna ostinn og klára að elda fiskinn í gegn. Með þessu var ég með quinoa eins og svo oft áður en það er líka hægt að hafa hrísgrjón, kartöflur eða hvað sem er. Gott salat er líka voða gott með fiskinum :)

No comments:

Post a Comment