Tuesday, February 5, 2013

Kjúklinga- og quinoa salat

Ef þið hafið ekki áttað ykkur á því nú þegar en ÉG ELSKA QUINOA! Það er svo mikil súperfæða Hér er smá lesning um quinoa sem ég setti eitt sinn inn og hvet ykkur til að lesa :) Þetta salat er svo einfalt og fljótlegt að allir geta gert þetta, og endalaus hollusta. Það er hægt að leika sér svo mikið með hráefni sem í grunnin eru bragðlítil eins og kjúklingur og quinoa og hægt að gera óspennandi og leiðinlegt en með einföldum tilbrigðum er þetta frábær matur til að leika sér með.



Uppskriftin er fyrir 4

3-4 kjúklingabringur
2,5 dl. quinoa 
1 avocado
4 tómatar 
4 vorlaukar
1/4 gúrka
1/4 krukka fetaostur eða 1/2 stk. ferskur, ókryddaður fetaostur
2 msk. lime safi
4 msk. ólífuolía (góð, kaldpressuð)
lítil handfylli ferskt basil
salt og pipar
hunang

Byrjið á því að sjóða quinoað, ég er með skothelda leið til þess! Einn hluti quinoa á móti tveimur af vatni. Látið suðuna koma upp, lækkið niður og sjóðið í 12 mínútur. Takið af hitanum og hafið lokið á og leyfið þessu að standa í smá stund. Setjið í stóra skál og hrærið varlega í með gaffli. 
Skerið tómatana í litla bita, bætið lime safanum og olíunni ásamt smá salti og pipar og leyfið þessu að standa á meðan þið græjið restina af salatinu. Leyfið tómötunum að draga í sig bragðið af safanum. Eitt sem mig langar að minna á er að geyma aldrei tómata í ísskáp! Leyfið þeim að njóta sín í fallegri skál á borðinu, verða eldrauðir og miklu bragðmeiri en úr ísskápnum! 
En aftur að salatinu :) Setjið kjúklingabringurnar í poka og berjið þær varlega með kökukefli. Reynið að berja á þykkari endann til að gera þær allar nokkuð jafnar að þykkt. Þetta styttir eldunartímann töluvert. Steikið þær á háum hita á pönnu og kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann örlítið og leyfið þeim að steikjast áfram á pönnunni í ca. 10 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn en ennþá safaríkar. Þegar 3-4 mínútur eru eftir af steikingatímanum hellið þið smá hunangi yfir þær og leyfið þeim að malla í því, það þarf ekki nema 2-3 msk. á allar bringurnar. Það munar ótrúlega mikið að setja hunangið á! Takið bringurnar af og leyfið þeim að standa í 5 mínútur áður en þið skerið í þær í þunnar sneiðar.
Saxið nú restina af hráefninu og blandið saman við quinoað. Bætið tómötunum og safanum af þeim, kjúklingnum og fetaostinum (ekki olíuna með) og gróft rifnu basil út í og berið fram með kaldri hvítlaukssósu. Ef þetta er þurrt er hægt að hella smá meiri ólífuolíu yfir salatið ef þið viljið. Þetta er frábært eitt og sér en alveg hægt að splæsa í gott brauð ef einhver vill slíkt, en svona er þetta kvöldmatur sem hægt er að njóta nokkuð samviskulaust :)

Fljótleg hvítlaukssósa
1 dós sýrður rjómi eða grísk jógúrt
1 hvítlauksrif kramið eða rifið
1/2 búnt fersk steinselja smátt söxuð
1 msk. hunang eða hlynsíróp
1/2-1 msk. sítrónusafi
salt og pipar

öllu blandað saman í skál og saltað og piprað örlítið. Smakkað til með sítrónusafa og hunangi. Leyfið sósunni að standa í smá stund til að taka í sig bragðið.

No comments:

Post a Comment