Tuesday, February 19, 2013

Hakk og Kúrbítsspaghetti

Já, þið lásuð rétt, Kúrbítsspaghetti! Það þarf að taka þetta Paleo alla leið og finna eitthvað í staðinn fyrir þá hluti sem maður er vanur að nota, eins og t.d. spaghetti. Hakk og spaghetti er frábær leið til að koma grænmeti ofan í stóra jafnt sem smáa og hægt að fela alls konar hollustu ef maður nennir að saxa nógu smátt :) Við eldum þetta nokkuð oft og nú þurfti að reyna á það hvort hægt væri að finna eitthvað í staðinn fyrir spaghetti sem reyndar er alltaf úr heilhveiti og hefur verið í mörg ár. Hvítt pasta er bara ekki gott eftir að maður venst heilhveitinu. Ég prófaði því að búa til einhvers konar strimla úr kúrbítnum og þetta kom bara nokkuð vel út, allavega nógu vel til þess að ég gæti alveg hugsað mér þetta oftar. Og það góða við það að sleppa pastanu er að maður er ekki útþaninn eftir máltíðina heldur passlega saddur og sæll :)



Uppskriftin er fyrir ca. 4

600 gr. hakk
1 laukur
2 hvítlauskrif
2 gulrætur
annað grænmeti að eigin vali (ég notaði brokkolí, papriku, sveppi og strengjabaunir)
1/2-1 rautt chilli
1 rósmaríngrein
2 dósir hakkaðir tómatar (munið að kaupa hreina, ósæta og ókryddaða)
ólífuolía
salt og pipar
1 kúrbítur

Brúnið hakkið í olíu í góðum þykkbotna potti eða pönnu sem hægt er að loka. Kryddið með salti og pipar. Saxið allt grænmetið eins smátt og þið viljið, mér finnst best að hafa það í smærri kantinum. Blandið grænmetinu, fínt söxuðu rósmarín og tómötum út í. Leyfið þessu að malla í að minnsta kosti klukkutíma, helst 2 tíma. Rífið kúrbítinn í mjóa strimla og reynið að hafa þá eins langa og þið getið til að líkja eftir spaghetti :) Saltið þá smávegis og leyfið þeim að standa á meðan hakkið mallar. Smakkið hakkið til með salti og pipar og þetta er tilbúið þegar þið eruð sátt við bragðið. Ef þið eigið ferska steinselju eða basil er tilvalið að hræra því út í áður en þið berið þetta fram. Gæti varla verið einfaldara!

No comments:

Post a Comment