Sunday, February 10, 2013

Appelsínu- og engifer kjúklingur

Skv. Liljunni minni heitir þessi réttur Gæðakjúklingur, svo góður er hann :)

Gott er að brúna kjúklinginn vel, sætan úr appelsínunni karmeliserast

Paleo mánuðurinn er hafinn! Og það af krafti! Fyrir þá sem ekki vita hvað Paleo matarræði er þá er það hollur og góður, hreinn matur. Engar mjólkurvörur, engar kornvörur og það besta ENGINN SYKUR! Þetta er kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, hnetur og fræ, egg, góðar olíur og fita. Ekkert flókið heldur bara góður matur :) Og ég hef ákveðið að taka einn mánuð þar sem ég borða eftir þessari hugmyndafræði. Þegar maður er orðinn svona hrikalegur crossfittari þá er ekkert annað í boði ;) Þessi kjúklingur er í boði Paleo :)

Uppskriftin er fyrir 3-4

1 heill kjúklingur
1 appelsína
1/2 þumlungur engifer
3 hvítlauksrif
1/2 rautt chilli
4 msk. ólífuolía
salt og pipar
25 gr. smjör

Byrjið á því að taka hrygginn úr kjúklingnum og fletja hann út. Það styttir eldunartímann og hann dregur vel í sig bragðið frá öllum hliðum. Rífð börkinn af appelsínunni og kreistið safann úr henni í skál. Rífið engiferið og hvítlaukinn (eða kreistið hvítlaukinn í pressu), saxið chilli smátt og blandið út í. Setjið ólífuolíu út í og kryddið með salti og pipar. Hellið þessu yfir kjúklinginn og setjið í 200° heitan ofninn með loki ofan á. Eldið í ca. klukkustund. Ausið marineringunni yfir eins oft og þið nennið, á ca. 10 mínútna fresti. Takið lokið af síðasta korterið til að fá smá lit á toppinn á kjúklinginn.
Takið kjúklinginn úr fatinu, leyfið soðinu að sjóða aðeins niður, takið af hitanum og þykkið með smjöri. Ef þið viljið ekki nota smjör er allt í lagi að sjóða það bara vel niður og hella yfir kjúklinginn.

Appelsína og kóríander er hið fullkomna hjónaband, og fyrst ég var með appelsínukjúkling gerði ég kóríander kartöflur. Takið sætar kartöflur, skerið í hæfilega stóra bita, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og matskeið af kórianderfræjum sem þið merjið í mortéli. Ef þið eigið ekki fræ þá er hægt að setja ca. teskeið af muldu kóríander. Setjið þetta inn í ofn í 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar og byrjaðar að brúnast.

Hollt og verulega gott!

2 comments:

  1. Frábær uppskrift sem allir í fjölsyldunni voru ánægðir með. Ég er að prufa mig áfram með paleo uppskriftir og prófaði þessar "pönnukökur" í gær, hreint frábært í nestispakka með afgangs kjúlla og grænmeti http://www.rocofit.com/breakfast-paleo-recipe-zucchini-pancakes/

    ReplyDelete
  2. Svakalega gott. Prufaði þetta í gær

    ReplyDelete