Saturday, January 19, 2013

Pottþéttur steiktur kjúklingur



Þessi kjúklingur er svo frábær! Fá en góð hráefni og nóg af smjöri.... getur ekki klikkað :) Ef ég er alveg tóm í hausnum og veit ekkert hvað ég á að gera þá er alltaf hægt að gera eitthvað svona. Þið verðið bara að prófa til að trúa :)

Uppskriftin er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur
100 gr. smjör
handfylli ferskar kryddjurtir, í þessu tilfelli notaði ég basil og steinselju en það má vera hvað sem er, t.d. er salvía alveg dásamleg :)
1 sítróna
2 hvítlauksrif
salt og pipar
1 glas hvítvín


Byrjið á því að hita ofninn í 200°. Rífið börkinn af sítrónunni og blandið saman við smjörið, saxaðar kryddjurtinar og saxaðan hvítlaukinn. Lyftið skinninu af bringunum og setjið kryddsmjörið þar undir. Kreistið 1/2 sítónuna yfir kjúklinginn og stingið henni innan í fuglinn. Setjið hinn helminginn í fatið sem þið ætlið að elda í. Saltið og piprið og skellið í ofninn í 45 mínútur með lokinu á.

Tilbúinn í ofninn


Takið þá lokið af og steikið áfram í um það bil hálftíma eða þar til kjúklingurinn lekur ekki rauðum vökva þegar þið haldið honum upp. Hvað sem þið gerið, ekki ofelda kjúklinginn!!! Fylgist með honum en forðist það að skera í hann heldur treystið á vökvann sem kemur úr kjúklingnum þegar þið lyftið honum upp.

Safaríkur og mjúkur að innan með stökkri skorpu


Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, takið hann úr fatinu og leyfið honum að hvíla á meðan þið útbúið sósuna. Hana gerið þið með því að skella helst fatinu beint á helluna eða hella soðinu í pott. Kreystið sítrónuna sem var í fatinu út í soðið, hellið hvítvíninu út í og leyfið þessu að sjóða aðeins niður. Smakkið til með salti og pipar ef þarf. Þykkið með þeim sósujafnara sem þið eruð vön að nota, ég nota yfirleitt maizena mjöl.

Sósan elduð í sama fati og kjúklingurinn og allur krafturinn fær að vera með


Með þessu er hægt að hafa ótrúlega margt meðlæti. Við vorum með einfaldar ofnbakaðar kartöflur og sætar kartöflur. Saxið kartöflurnar í hæfilega stóra bita og raðið á fat. Setjið smá ólífuolíu og salt og pipar út á og blandið vel saman. Þegar um það bil hálftími er eftir af kjúklingnum setjið kartöflurnar inn. Þegar 10 mínútur eru eftir setjið ca. 4 msk. af balsamik ediki yfir (passið ykkur að vera ekki með andlitið beint yfir því það er ekkert sérstaklega gott að fá gufuna í nefið....). Ekki hafa áhyggjur af því að kartöflurnar verði dökkar á litinn, þær eru alveg örugglega ekki brenndar heldur er edikið að gefa þeim þennan dökka lit. Þær verða svo sætar og góðar að þær eru eins og nammi!
Salat, hrísgrjón, quinoa, gufusoðnar strengjabaunir og ýmislegt fleira hefði verið gómsætt meðlæti með þessu líka. Mæli með því að þetta verði sunnudagssteikin þessa helgina :)

No comments:

Post a Comment