Sunday, December 16, 2012

Vanillu bollakökur



Í byrjun þessa árs setti ég inn uppskrift að súkkulaði bollakökum og nú er komið að uppáhaldinu mínu sem eru vanillu bollakökur. Þær eru hvítar og fallegar og hægt að skreyta með með hvaða fallega kremi sem er, ég notað venjulega vanillusmjörkrem sem ég lita á ýmsa vegu. Í þetta sinn voru þær fagurbleikar fyrir fallega litla þriggja ára stúlku. Kökurnar eru svo einfaldar en mjúkar og dásamlegar :) Ég leitaði lengi að hinni fullkomnu uppskrift að hvítum bollakökum og þessi er sú sem hefur aldrei klikkað!

Uppskriftin er fyrir ca. 18 kökur

1 bolli sykur
1/2 bolli smjör
2 stór egg
1 msk. góðir vanilludropar
1 1/2 bolli hveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 bolli mjólk

Þeytið vel saman smjör og sykur. Smjörið þarf ekki að vera mjúkt! Bætið einu eggi í einu út í og þeytið áfram þar til blandan er mjúk og létt. Bætið vanilludropum út í og þeytið áfram. Blandið hveiti og lyftidufti saman og setjið helminginn út í, þá mjólkina og svo restina af hveitinu. Hrærið ekki lengi eftir að allt er komið í skálina, bara rétt til að það blandist saman.
Best er að nota stál muffins form og raða bréf formunum þar ofan í. Þá halda kökurnar fallegri lögun og leka ekki út eins og þær vilja stundum gera. Setjð ca. matskeið í hvert form. Bakið í 175° heitum ofni í 20 mínútur, á blæstri. Takið kökurnar út og látið kólna áður en þið skreytið þær.

Smjörkrem
125 gr. smjör
250 gr. flórsykur
1 msk. vanilludropar
2 msk. mjólk

Þeytið smjörið vel þar til það er farið að verða ljóst á litinn. Bætið þá flórsykrinum og vanilludropunum saman við og þeytið í ca. 5 mínútur. Bætið mjólk út í, ca. tveimur matskeiðum eða þar til kremið er orðið nógu mjúkt til að sprauta því. Litið kremið að vild eða hafið það hvítt. Hægt er að skipta vanilludropunum út fyrir sítrónudropa og þá er komið allt öðruvísi krem. Skreytið svo kökurnar að vild, mér finnst fallegt að gera rósir og geri þær oftast. Glimmer er líka alltaf smart :)

Saturday, December 8, 2012

Lasagne - spariútgáfan

Ég setti inn uppskrift af einföldu lasagne fyrr á þessu ári og nú kemur viðhafnarútgáfan :) Þessi uppskrift kemur upphaflega frá honum Jamie Oliver vini mínum en ég er búin að breyta henni þó nokkuð :) Þessi uppskrift er svoooo góð og hvaða ítalska mamma væri stolt af henni! Ekki hræðast hráefnin, þetta einfaldlega virkar saman! Og alls ekki hræðast ansjósur! Ég veit að margir gera það, myndu aldrei prófa að elda með ansjósum en ég lofa ykkur því að þið finnið ekki bragðið að þeim, þær bráðna þegar þær eldast og skilja eftir sig dásamlegt bragð.

Gott að rífa smá Parmesan ost yfir


Uppskriftin er fyrir ca. 4 en lítið mál að aðlaga hana

4 sneiðar bacon
kanill á hnífsoddi
500 gr. hakk (einn pakki)
1 stór laukur
2 gulrætur
3 hvítlauksrif
góð handfylli ferskar kryddjurtir (má vera ein eða fleiri, í þetta sinn notaði ég steinselju, basil og salvíu en rósmarín hefði t.d. virkað mjög vel)
salt og pipar
1 stórt rauðvínsglas (eða vatn)
2 dósir tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
ólífuolía

1 grasker (butternut squash)
1 þurrkað chilli eða smá chilliduft
1 tsk. kórianderfræ eða mulið kóriander
salt

3 dósir sýrður rjómi (mikilvægt að nota feitan, ég nota 18%)
1/2 stykki Parmesan ostur
3 ansjósuflök
smá mjólk
salt og pipar

Lasagneblöð
Rifinn ostur


Byrjið á því að skera baconið smátt og steikja í olíu á miðlungshita með smá kanil þar til það er orðið gullið á lit. Bætið þá hakkinu út í og brúnið. Bætið söxuðu grænmetinu og kryddjurtunum út í og steikið áfram. Kryddið með salti og pipar. Venjulega set ég aldrei kryddjurtir út í fyrr en í lokin en í þessari uppskrift skiptir máli að þær fari út í á sama tíma og grænmetið. Það er mjög mikilvægt að nota ekki þurrkaðar kryddjurtir í þessa uppskrift, hún er alls ekki eins góð með því. Hellið rauðvíni út í og leyfið því að sjóða aðeins niður og bætið þá tómötunum og tómatpúrrunni út í. Lækkið undir og leyfið þessu að mala í a.m.k. klukkustund, helst tvær.

Hitið ofninn í 180°. Skerið graskerið í ca. 1/2 cm. þykkar sneiðar. Setjið smá olíu á ofnplötu og raðið sneiðunum á hana. Setjið kóriander og chilli í mortél og myljið mjög fínt.
Kóriander og chilli

 Stráið yfir graskerið ásamt örlitlu salti og bakið í ofninum í 30-40 mínútur, frekar ofarlega í ofninum.




Blandið saman sýrðum rjóma og rifnum parmesan. Þynnið með smá mjólk ef þarf. Stappið ansjósur með gaffli og blandið saman við. Kryddið með smá salti og pipar.



Nú er komið að því að setja saman allt góðgætið :) Byrjið á því að setja lasagneblöð í botinn á eldföstu móti. Svo kjötsósu, svo hvítu sósuna og svo graskerið og þannig koll af kolli þar til þið endið á hvítu sósunni og rifnum osti yfir allt saman.



Þetta fer svo inn í 180° heitan ofninn í ca. 20-30 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn og fallegur og pastablöðin elduð í gegn.

Osturinn orðinn fallega brúnaður

Það er eitt mjög mikilvægt þegar maður eldar lasagne og það er að láta það standa í 10 mínútur eftir að maður tekur það út. Þá draga pastablöðin allan safann í sig og það rennur ekki út um allt á diskinum. Best með þessu er einfalt salat og/eða gott brauð. Og jafnvel smá rauðvínstár í glasi með :)

Wednesday, December 5, 2012

Þorskur í kókos og karrý

Litríkt grænmetið umlykur fiskinn


Fiskur er fljótlegur í matreiðslu, þarf stuttan tíma í eldun og hægt að gera réttina eins flókna og maður vill. Mér finnst rosa gott að gera bara frekar einfalda pönnurétti, smá fiskur, smá grænmeti og sósa og allir glaðir :)
Svo hvet ég ykkur til að skipta hrísgrjónunum út fyrir Quinoa, þau er svo góð og svo holl að ég er eiginlega hætt að hafa hrísgrjón í matinn nema bara í grjónagraut. Hér skrifaði ég smá pistil um ágæti quinoa og mæli með því að þið lesið þetta! Og það besta er að maður þarf ekki lengur að fara í sérverslanir til að kaupa quinoa því það fæst í Bónus :) Þessi réttur er því algjör Omega bomba! Íslenskur fiskur og Omegaríkt quinoa og svo auðvitað dúndur vítamínríkt grænmeti! Hvað meira viljum við á miðvikudegi?

Uppskriftin er fyrir 4

800 gr. - 1 kg. Þorskur (má vera ýsa eða annar fiskur)
Hveiti
1 msk. Paprikuduft
1 msk. Karrý
Salt og pipar

Grænmeti að vild, laukur er samt skilyrði! Ég notaði líka sveppi, brokkolí, gulrætur, papriku og baunir
1/2 grænmetisteningur
smá paprika og karrý ef þarf
1 dós kókosmjólk
Kókosolía eða önnur góð olía til að steikja upp úr

Blandið saman hveiti og kryddi og veltið fiskinum upp úr því. Hitið olíu á pönnu og brúnið fiskinn á frekar heitri pönnunni.

Fiskurinn verður fallegur á litinn af kryddunum!



Saxið grænmetið og verið ekkert að skera það of smátt, við viljum finna fyrir því!



Takið fiskinn af pönnunni, ekki skola á milli, bætið olíu á ef þarf og steikið grænmetið í stutta stund, ca. 3-5 mínútur. Hellið kókosmjólkinni yfir grænmetið og bætið út í hálfum grænmetisteningi. Raðið fiskinum ofan á og leyfið þessu að malla í 5-10 mínútur.

Sósan kraumar og dregur í sig bragðið úr fiskinum


Ég lét fiskinn ekki alveg ofan í því mér finnst gott að hafa smá skorpu á fiskinum en fá samt smá bragð af honum í sósuna. Ef ykkur finnst þurfa þá smakkið þið sósuna til með karrý og papriku. Berið þetta svo fram með Quinoa eða hrísgrjónum. Nema þið séuð mamma mín þá fáið þið ykkur auðvitað kartöflur með fiskinum ykkar :)

Thursday, November 29, 2012

Möndlugotterí

Við erum dugleg að borða hnetur og möndlur í ýmsum útgáfum, helst er það möndlusmjörið sem við öll elskum. Stundum hendum við möndlum á pönnu og gerum eitthvað gotterí úr þeim. Það er líka hægt að nota alls konar fræ, t.d. er frábært að nota þessa aðferð við sólblóma- eða graskersfræ og nota út á salat.




400 gr. möndlur
2 msk. teriyaki sósa
1 msk. hunang eða hlynsíróp

Ristið möndlurnar á pönnu þar til þær eru farnar að taka smá lit. Skvettið þá teriyaki og hunangi/sírópi út á leyfið því að húða allar gómsætu möndlurnar. Þið gætuð þurft að setja pínu meiri teriyaki ef ykkur finnst þær ekki nógu bragðmiklar. Hellið svo hnetunum á smjörpappír og reynið að dreifa vel úr þeim svo þær festist síður saman. Borðið og njótið :)

Sunday, November 25, 2012

Góður sunnudagur

Við fjölskyldan elskum sunnudaga! Þá er yfirleitt lítið planað og hægt að byrja daginn í rólegheitum, horfa saman á  barnatímann og borða morgunmatinn og lesa blöðin. Stundum tökum við það alla leið og bökum amerískar pönnsur með öllu tilheyrandi. Við notum alltaf sömu uppskriftina sem er algjörlega skotheld og var stolið frá hinum frábæra Jamie Oliver. Kökurnar eru léttar og mjúkar en ekki eins og íslenskar skonsur sem maður fær stundum. 

Mmmmmm


Uppskriftin er frekar lítil, hentar fyrir okkur fjölskylduna, 2 fullorðnir og 2 börn

3 stór egg
salt á hnífsoddi
115 gr. hveiti
140 ml. mjólk
1 tsk. lyftiduft


Stífþeytið eggjahvítur ásamt örlitlu salti. Blandið restinni af hráefnunum saman í annarri skál. Blandið eggjahvítunum mjög varlega saman við restina af hráefnunum. Alls ekki hræra of mikið því þá fer allt loftið úr blöndunni. 
Hitið pönnu með öööörlítilli olíu og bakið pönnukökurnar á miðlungs- háum hita. Ef þið eigið bláber, maiskorn eða eitthvað slíkt er sniðugt að bæta þeim á kökurnar áður en þið snúið þeim við, bláberin eru sérstaklega vinsæl hjá okkur :) 
Berið fram með stökku beikoni, íslensku smjöri og góðu hlynsírópi. Og svo er gott kaffi algjörlega ómissandi! Núna myndi ég t.d. mæla sérstaklega með Hátíðarkaffi frá Te & Kaffi, það er algjörlega dásamlegt í ár!

Ef þið eigið kost á því að kaupa alvöru, gott hlynsíróp þá er himinn og haf á milli þess og þessa hefðbundna sem maður kaupir í stórmörkuðum. Þið verðið bara að smakka til að trúa! Þetta fékk ég að gjöf, var keypt í Ameríkunni held ég og er svo gott að ég held ég geri mér ferð vestur til að kaupa nokkrar. 

Alvöru hlynsíróp

Sunday, November 11, 2012

Marokkóskur lambapottréttur

Ég elska kássur, pottrétti, hakk og spaghetti, lasagne.... allan mat sem myndi flokkast sem "comfort food". Matur sem er hægt að borða með annarri hendi, lágmarks fyrirhöfn. Og stöðugt reynir maður að finna upp hjólið, eitthvað nýtt og spennandi. Ég fer stundum í Fjarðarkaup og kaupi miklu meira en ég ætlaði mér, búðin einfaldlega býður upp á það! Kjötborðið þar er æðislegt og eini staðurinn þar sem mér finnst ég fá gott ófrosið lambakjöt. Ég kaupi stundum lambagúllash og nú gerði ég það og bjó til þennan rétt hér. Hefðbundnir marokkóskir pottréttir eru allir voða svipaðir, bara mis mikið af hverju hráefni fyrir sig, sumir vilja hafa réttin sterkan, aðrir sætan. Ég fór einhvern milliveg sem okkur öllum fannst góður, stórum sem smáum.

Ekta comfort food


Uppskriftin er fyrir 4-6, auðvelt að stækka og minnka. Þetta magn dugði okkur 4 (2 fullorðnir og 2 börn) í matinn og nesti daginn eftir fyrir okkur fullorðna fólkið.
Ekki láta langan lista af hráefnum hræða ykkur, hann er ekki eins langur og hann lítur út fyrir að vera og flestir eiga t.d. kryddin og sitthvað fleira í skápunum nú þegar. Ef ekki þá er flest á listanum eitthvað sem á að vera til á hverju heimili :)

1 kg. lambagúllash
olía til steikingar
1 stór laukur
3 hvítlauksrif
2 msk. paprika
1 1/2 msk. engiferkrydd
1/2 msk. cayenne pipar
1 tsk. kanill
1 tsk. cummin
nýmulinn svartur pipar
salt
1 dós saxaðir tómatar
1 dós eða ferna af tómatsósu (passata)
200 gr. þurrkaðir ávextir, ég notaði 100 gr. rúsínur, 50 gr. apríkósur og 50 gr. fíkjur
nokkrir saffranþræðir bleyttir í smá köldu vatni
1/2 lítri kjúklingasoð
1 dós kjúklingabaunir
1 handfylli ferskt kóríander
1 handfylli fersk steinstelja, ég nota flatlaufa steinseljuna, þessa hérna 

Takið kjötið og veltið upp úr kryddunum. Best er ef kjötið fær að liggja í kryddunum í smá stund, jafnvel yfir nótt.

Falleg svona krydd
Búið að krydda kjötið, magurt og fallegt lambakjöt



Brúnið svo í þykkbotna og góðum potti sem hægt er að loka. Takið kjötið upp úr og steikið gróft saxaðan laukinn og fínt saxaðan hvítlaukinn. Leyfið því að "svitna" í 3-5 mínútur á miðlungshita. Bætið kjötinu út í aftur.


Bætið soðinu, tómötunum, tómatsósunni, saffraninu og þurrkuðu ávöxtunum út í. Leyfið þessu að malla í 1 1/2-2 tíma á vægum hita. Bætið kjúklingabaununum út í og leyfið að malla áfram í ca. 20 mínútur. Smakkið til með salti og pipar og ef til vill einhverju af kryddunum ef ykkur finnst þurfa. Stráið steinselju og kóríander yfir og berið fram með cous cous, ég gerði aðeins öðruvísi en ég er vön að gera en það má hafa cous cous-ið eins og hver og einn vill. Okkur fannst þetta passa mjög vel við kryddaðan og sætan pottréttinn. T.d. væri hægt að halda í sæta þemað og gera cous cous-ið í þessari uppskrift



Cous cous

250-300 gr. cous cous hitað eftir leiðbeiningum á pakkanum, notað kjúklingasoð í stað vatns
handfylli söxuð mynta og kóríander
1 granatepli

Takið fræin úr granateplinu. Mér finnst gott að gera það í vatni því þá spítist safinn ekki í allar áttir. 



Blandið saman cous cous, kryddjurtum og granateplum og berið fram með pottréttinum. 

Litríkt, ferskt og gott


Sunday, November 4, 2012

Kalkúnn á ítalska vísu

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskyldan til Ítalíu. Við eyddum 2 vikum í Toscana, algjörri paradís! Féllum gjörsamlega fyrir landinu og öllu sem því fylgir og draumurinn er að búa þar á einhverjum tímapunkti í lífinu. Búa á lítilli villu úti í sveit, rækta flest sem við þurfum að borða, vínber, ólífur, hænur á vappi, geit úti á túni... dásamlegur draumur!

Hugurinn reikaði til Toscana í dag og ég ákvað að koma með bragðið frá sólinni á Ítalíu hingað heim í storminn og kuldann. Nú er tíminn framundan þegar ansi margir elda kalkún með öllu tilheyrandi. Þessi er ansi frábrugðinn þessum hefðbundna ameríska stóra fugli, fylltum með brauði og kryddum, eldaður tímunum saman og borðaður á örstuttum tíma. Þessi er einfaldur í framkvæmd en bragðið flókið og kraftmikið. Ítalska skinkan setur svo punktinn yfir I-ið :)

Safaríkur kalkúnn, stökkar kartöflur og kraftmikil sósa


Uppskriftin er fyrir ca. 4-6, fer eftir stærð bringunnar

1 kalkúnabringa, mín var 1,1 kg.
150 gr. hreinn rjómaostur
3-4 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2 msk. papriku bruschetta eða grilluð paprika í krukku
lítil handfylli ferskt basil (alls ekki nota þurrkað, það er allt annað bragð, notið frekar ferska steinselju ef þið fáið ekki basil), saxað
salt og pipar eða gott kalkúnakrydd, t.d. frá Pottagöldrum
Parmaskinka til að vefja utan um bringuna, ég var með frekar stórar sneiðar og notaði ca. 10

Grillaðar papriku fást í flestum verslunum, mér finnst þessi góð


Vel af fyllingunni!

Hylja allt kjötið með skinkunni

Hitið ofninn í 180-200°. Blandið saman rjómaosti, tómötum, paprikunni og basilinu. Skerið vasa í bringuna og setjið fyllinguna þar í. Kryddið bringuna og vefjið skinkunni utan um þannig að það loki eins vel fyrir og hægt er. Setjið inn í ofn í ca. klukkutíma fyrir hvert kíló. Ég var með þetta inn í klukkutíma og 10 mínútur. Fyrstu 40 mínúturnar var ég með lok yfir og tók það svo af til að leyfa skinkunni að verða stökkri og brakandi :)

Sósan
1/2 laukur
nokkrir sveppir
500 ml. rjómi
1 kjúklingateningur
lítil handfylli steinselja, mér finnst þessi flata íslenska fjallasteinselja rosalega góð!
fyllingin sem lekur út úr kalkúnabringunni
Olía eða smjör til að steikja

Skerið laukinn og sveppina í þunnar sneiðar. Steikið á pönnu á miðlungshita. Hellið rjóma yfir, hendið einum kjúklingateningi út í, saxaðri steinseljunni og leyfið þessu að malla á meðan bringan eldast í ofninum. Þegar þið takið bringuna út hefur örugglega slatti af fyllingunni lekið út, þið skellið því að sjálfsögðu út í sósuna! Smakkið til.

Kramdar kartöflur
Kartöflur
salt
ólífuolía

Ekki vera hrædd við að leyfa kartöflunum að brúnast vel


Sjóðið kartöflurnar. Hellið af þeim vatninu og skellið á ofnskúffu. Sullið yfir ólífuolíu og kremjið þær smá með gaffli. Saltið yfir og setjið á efstu hilluna í ofninum og bakið í 15-20 mínútur eða þar til þær eru farnar að brúnast í sárunum. 


Einfalt meðlæti að öðru leyti er nauðsynlegt. Grænt salat, gufusoðið grænmeti eða eitthvað slíkt. Ég henti tómötum og avocado i skál, setti smá ólífuolíu og gott balsamik edik yfir - reddí! Svo er bara að borða og njóta :)


Wednesday, October 31, 2012

Matarboð og veislur

Ég elska að halda matarboð! Ég hef að undanförnu verið að dunda mér við það að halda minni og stærri veislur, allt frá litlum matarboðum eða jólaboðum upp í stórar fermingarveislur. Og þetta er alveg rosalega gefandi og skemmtilegt. Eins gaman og það er að fara út að borða þá getur verið jafn gaman að vera heima í góðum félagsskap, fá einhver til að elda og vaska jafnvel upp!
Endilega verið í sambandi við mig á facebook, með tölvupósti silla1979@gmail.com eða í síma 698 2831. Og látið alla vini ykkar vita :)


Sunday, October 28, 2012

Kryddaður kjúklingur með cous cous

Þessi kjúklingur var eldaður fyrir góða gesti sem fóru saddir og sælir heim. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað aðeins öðruvísi við kjúlla gamla sem maður á til að gera alltaf það sama við. Ég prófaði að taka aðeins af austurlenskum áhrifum og setja saman eitthvað nýtt. Það heppnaðist svo vel að ég ákvað að deila með ykkur. Og ótrúlegt en satt þá er enginn hvítlaukur... sem er alveg ótrúlegt því að mínu mati er kjúklingur og hvítlaukur líkt og hjónaband búið til á himnum! Hægt er að gera uppskriftina bæði með heilum kjúklingi eða bitum, allt eftir því hvað hentar hverju sinni, munið bara að eldunartíminn er ca. 20 mínútum styttri á bitunum. Í þessu tilfelli var ég með 1 heilan og svo slatta af bitum líka.

Uppskriftin er fyrir 4-6

ca. 2 heilir kjúklingar, eldaðir í bitum eða heilir
2 msk. paprikuduft
1 msk. turmerik
1 tsk. cummin 
2 sítrónur, bæði rifinn börkurinn og safinn
handfylli ferskt kóriander, söxuð
handfylli fersk steinselja, söxuð
ca. dl. af ólífuolíu
salt og pipar


Hitið ofninn í 210°. Skolið og þerrið kjúklinginn og setjið í eldfast form eða ofnskúffu. Blandið öllum hráefnunum saman og hellið yfir kjúklinginn og dreifið vel úr. Setjið í ofninn í 30-40 mínútur fyrir bita, klukkutíma fyrir heilan kjúkling. Svo er bara að passa að ofelda kjúklinginn alls ekki og kíkja í ofninn áður en eldunartíminn er liðinn til að passa upp á að hann sé örugglega safaríkur og góður. Það er líka mjög sniðugt eftir ca. helming tímans að opna og hella safanum yfir fuglinn.

Turmerik gefur alltaf fallegan gulan blæ á matinn


Með þessu var svo cous cous sem ég gerði svona:

ca. 350 gr. cous cous
vatn (magn sem gefið er upp á cous cous pakkanum)
1 kjúklingateningur
nokkrir saffran þræðir
1 bolli þurrkaðir ávextir eftir smekk, ég notaði aprikósur og fíkjur
1/2 bolli saxaði kóriander
2 msk. ólífuolía

Hitið cous cous-ið eftir leiðbeiningum á pakkanum, í staðinn fyrir vatnið beint úr krananum þá setjið þið kjúklingatening og saffran út í það. Blandið restinni af hráefnunum út í þegar cous cous-ið er tilbúið og losið það í sundur með gaffli. Þetta ber ég bara volgt fram, það þarf ekki að vera heitt.

Sætt og skemmtilegt cous cous


Síðast á matseðlinum er einföld köld gúrkusósa.

2 dósir sýrður rjómi
1/4 bolli saxað kóriander
1/4 gúrka
1/2 tsk. cummin
smá salt
1-2 msk. hlynsíróp eða hunang
1/2 hvítlausrif

Setjið sýrða rjómann í skál. Takið kjarnann úr gúrkunni og saxið hana smátt eða rífið. Rífið eða kremjið hvítlaukinn og bætið út í ásamt restinni af hráefnunum. Smakkið til með salti og sírópi. 

Klassísk gúrkusósa passar með öllum austurlenskum og krydduðum mat

Notalegur og einfaldur sunnudagskjúklingur til ykkar frá mér :)

Sunday, September 30, 2012

Bláberjamarinerað lambalæri með Bernaise

Dásamlegt!


Íslenska lambakjötið er SVO gott! Stundum gerir maður eitthvað einfalt sem klikkar aldrei eins og að krydda með hvítlauk og rósmarín en stundum gerist maður ævintýragjarn og breytir út af vananum. Og það gerði ég í kvöld. Bernaise sósan klikkar náttúrulega aldrei og hægt að borða hana með skeið! Hins vegar hefði alveg verið hægt að sleppa henni og blanda smá lambasoði út í pottinn og hræra upp í soðinu af kjötinu, bragðast eins og besta bbq sósa.

Uppskriftin er fyrir 4-6

1 lambalæri u.þ.b. 2 kg.
2 dl. bláber (ég notaði frosin en það hefði alveg eins getað verið fersk)
2 msk. hunang
2 stilkar rósmarín
4 stilkar timjan, laufin týnd af
4 hvítlauksrif
salt og pipar
olía

Maukið saman bláber, kryddjurtir, hunang og hvítlauk. Mér finnst best að nota mortél en þið notið bara þá aðferð sem þið kjósið. Ekki murka allt lífið úr bláberjunum, það er allt í lagi þó sum séu ekki alveg í mauki. Og það sama gildir um hvítlaukinn, ekkert vera að hafa áhyggjur af því þó eitthvað af honum sé ekki í öreindum. Kryddið með salti og pipar.

Íslensku bláberin er svo falleg


Setjið smá olíu í botninn á stóru eldföstu móti eða potti sem hægt er að loka. Setjið lambalærið þar ofan í og smyrjið marineringunni utan á. Látið marinerast eins lengi og þið viljið, allt frá hálftíma til yfir nótt.

Lærið orðið fallega berjablátt


Skellið síðan fatinu með loki á inn í 220° heitan ofn og eldið í 15 mínútur. Lækkið hitann í 180° og eldið áfram í u.þ.b. klukkustund. Tíminn fer auðvitað eftir stærðinni á lærinu og því hvernig þið viljið hafa kjötið. Við viljum hafa það bleikt, ekki hrátt og ekki alveg í gegn, bara þetta klassísa "medium". Á meðan kjötið eldast er gott að ausa öðru hvoru marineringunni yfir það til að fá góðan gljáa á það. Ef það er ekki mikið aukalega sem hefur lekið af er hægt að setja pínulítið vatn eða rauðvín til að skafa upp af botninum og sulla svolítið yfir lærið.

Berin búin að brúnast vel og lærið orðið safaríkt


Kartöfugratín

1 sæt kartafla
nokkrar venjulegar kartöflur
500 ml. rjómi
1/2 laukur
salt
rifinn ostur




Setjið smá olíu í botninn á eldföstu móti. Skerið kartöflur og sætar kartöflur í 1/2 cm. þykkar sneiðar og raðið til skiptis í mótið. Setjið þunnar sneiðar af lauk og smá salt á milli laganna. Hellið rjóma yfir og rifinn ost yfir allt saman. Smellið í ofninn með lambinu og eldið í 30 til 40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar og osturinn gullinn og fallegur. Ef osturinn er farinn að brúnast of mikið áður en kartöflurnar eru eldaðar er ekkert mál að smella smá álpappír yfir.




Bernaise

250 gr. smjör
4-5 eggjarauður eftir stærð
1 msk. bernaise essence (heimatilbúinn eða úr flösku... ég nennti ekki að gera sjálf núna en það ER betra)
U.þ.b. 1 msk. Estragon, helst ferskt
1/4-1/2 kjúklingateningur

Bræðið smjörið í potti ásamt Estragoninu og kælið. Þeytið eggjarauður yfir vatnsbaði og hellið smjörinu saman við í mjórri bunu og þeytið stanslaust í á meðan. Alls ekki leyfa sósunni að hitna of mikið. Ef þið eruð óörugg með að hita yfir vantsbaði þá má þeyta eggjarauðurnar í hrærivél og hella smjörinu þar út í.  Bætið einni msk. af essence út í og þeytið áfram. Smakkið til með kjúklingakraftinum. E.t.v. er gott að leysa teninginn upp í smjörinu. Það má líka sleppa teningnum og nota bara salt.

Með þessu borðar maður svo ekki salat ;) Það má alveg hafa það bara í forrétt en þetta er best svona, kjöt, kartöflur og sósa.... Namm!

Með þessu er svo ávaxtaríkt rauðvín mjög viðeigandi. T.d. ÞETTA.

Sunday, September 9, 2012

Kókoskjúklingur með sætkartöflusalati



Þessi réttur er svo rosalega góður að eiginmaðurinn segir hann klárlega tróna í efsta sæti yfir bestu kjúklingarétti EVER! Sætu kartöflurnar passa líka einstaklega vel með honum og engin sósa nauðsynleg með þessum dásemdum. Frábær réttur til að bera fram í matarboði og mun án efa slá í gegn! Ég gerði líka með þessu venjulegar kartöflur því börnin eru ekkert sérstaklega hrifin af sætu kartöflunum. Og það besta er að þetta er hollt og gott :)


Rétturinn er fyrir ca. 4

1 heill kjúklingur
3 msk. kókosmjöl
3 msk. saxaðar möndlur
1 msk. fiskisósa
1/2 dl. ólífuolía
3 msk. sítrónusafi
handfylli ferskt kóriander, saxað
2 msk. gott fljótandi hunang
1 tsk. turmerik
2 hvítlauksrif, kramin eða rifin
salt og pipar

Byrjið á því að klippa hrygginn úr kjúklingnum þannig að hann fletjist auðveldlega út. 




Blandið öllu saman sem á að fara í marineringuna og smyrjið því á kjúklinginn.




Leyfið þessu að marinerast í a.m.k. klukkustund. Hitið ofninn í 180° og eldið neðarlega í 40-50 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er safaríkur og algjörlega tilbúinn. Ef ykkur finnst hann vera farinn að brúnast of mikið er ekkert mál að skella smá álpappír eða loki yfir hann. Ég mæli með því að skafa alla marineringuna sem verður eftir í botninum, þið viljið ekki missa af neinu af góðgætinu!



Sætkartöflusalat
1 stór sæt kartafla
2 cm. bútur af blaðlauk, smátt saxaðir
3 msk. rúsínur
50 gr. pecan hnetur
lítil handfylli söxuð steinselja
lítil handfylli saxað kóriander
1 lítið þurrkað chilli, mulið í mortéli

Sósan
4 msk. ólífuolía
2 msk. gott fljótandi hunang
1 msk. balsamik edik
1 msk. sítrónusafi
2 msk. appelsínusafi
2 cm. bútur af engifer, fínt rifið
1/2 tsk. kanill
pínu salt

Skerið sætu kartöflurnar í ca. munnbita og setjið á ofnplötu með ólífuolíu, salti og pipar. Bakið við 180° í 30 mínútur. Blandið öllu sem á að fara í sósuna og hellið henni yfir kartöflurnar þegar þær koma blússandi heitar út úr ofninum. Bætið hinu hráefninu saman við og berið fram volgt.



Fyrir krakkagormana sem eru ekki mikið fyrir sætar kartöfur þá gerði ég afar einfaldar kartöflur sem "amma London" gerir stundum fyrir þau og þau borða alltaf vel af þeim. Þið einfaldlega sjóðið kartöflur, setjið í skál og á meðan þær eru ennþá heitar þá setjið þið smávegis af íslensku smjöri og saxaðri mintu yfir. Tilbúið!



Saturday, September 8, 2012

Hreindýrabollur

Við hjónin keyptum slatta af dásamlegu hreindýrakjöti og þar á meðal fallegasta hakk sem ég hef séð! Algjörlega fitusnautt, lífrænt, "free range", grasbítandi, frábært kjöt! Ekki hægt að fá það betra! Fyrsta máltíðin sem matreidd var voru hreindýrabollur. Meðlætið var svo bara einfalt, sæt kartöflumús, sósa og sulta. Ekkert grænmeti sem skyggði á bollurnar góðu! Því miður náðist ekki að mynda bollurnar... þær runnu allt of hratt niður hjá okkur.... Það kemur vonandi ekki að sök.

Uppskriftin er fyrir 4-6

800 gr. Hreindýrahakk
1 dl. mjólk
2 egg
6 msk. brauðrasp
5 einiber, kramin í mortéli
nokkrar greinar af timjan
1 grein af rósmarín
2 msk. Teryaki sósa
salt og pipar
smjör og olía til steikingar

Setjið kjötið í skál, blandið öllu saman við og kryddið með salti og pipar. Passið bara saltið því Teryaki sósan er sölt. Ef blandan er of blaut setjið þið meiri rasp en ef það er of þurrt þá setjið þið mjólk. Ef ekki er til Teryaki sósa má auðveldlega skipta henni út fyrir soya sósu eða tamarind sósu. Þær gera allar svipað bragð. Ég bý til bollur á stærð við borðtenniskúlur en hver og einn gerir bara eins stórar og hann vill. Brúnið bollurnar upp úr blöndu af smjöri og olíu. Olíuna set ég til að smjörið brenni síður og geri það alltaf þegar ég steiki upp úr smjöri. Þegar bollurnar hafa brúnast takið þær af og setjið inn í 180° ofn í 10 mínútur eða þar til bollurnar hafa eldast alveg í gegn.

Sósan
Hellið sjóðandi vatni (ca. hálfum lítra) á pönnuna sem bollurnar voru steiktar á til að fá allan kraftinn úr þeim. Setjið nauta- eða villikraft út í, eina matskeið af rifsberjasultu og eina matskeið af smjöri út í og leyfið að malla stutta stund. Smakkið til með kraftinum og sultunni. Mér finnst gott að hafa hana svolítið sæta. Þykkið með maizena mjöli eða þeim sósujafnara sem þið viljið.

Með þessu bara ég svo fram kartöflumús sem er afar einföld. Sjóðið sætar kartöflur, stappið með smjöri, pipar og kanil. Tilbúið! Og svo varð að vera smá rifsberjasulta líka.

Þið megið svo  bíða spennt eftir fleiri hreindýrauppskriftum, nóg er af því í frystinum :)




Sunday, August 19, 2012

Sumarlegur og sætur eftirréttur

Jæja, er ekki komið gott af sumarfríi og tími á eina uppskrift?

Búið að týna hvert einasta ber á þessum trjám!
Við fjölskyldan fórum í smá göngu upp Esjuna í dag og kíktum í leiðinni upp að Mógilsá og týndum nokkur hindber. Því verður ekki lýst með orðum hversu góð nýtýnt íslensk hindber eru... þið verðið bara að prófa sjálf!

Fallegt!

Mér finnst eftirréttir sem hver og einn fær á diski eða í skál vera frábærir. Allir fá sinn eftirrétt, fallega skreyttan og tilbúinn bara fyrir hann. Ég henti í einn ótrúlega einfaldan eftirrétt sem rann ljúflega niður hjá öllum heimilismeðlimum með tilheyrandi smjatti og kjamsi :) Það má að sjálfsögðu nota aðra ávexti, t.d. jarðarber, passion fruit eða granatepli eða blöndu af góðum ferskum ávöxtum. Hversu gott væri nú að nota fersku íslensku bláberin sem allir eru brjálaðir í að týna þessa dagana???

Sumarlegur og sætur eftirréttur


Uppskriftin er fyrir 4

Marengs

2 eggjahvítur
100 gr. sykur

Hitið ofninn í 100°. Þeytið eggin og bætið sykri út í smátt og smátt. Útbúið átta jafnar litlar doppur, ca. matskeið hver kaka á bökunarplötu. Bakið í ofninum í klukkutíma. Slökkvið á ofninum og látið standa í honum í smá stund í viðbót.

Fylling

1 peli rjómi
2 dl. fersk hindber
1 msk. flórsykur

Þeytið rjómann og stráið flórsykrinum saman við. Stappið berin og blandið saman við. Setjið 4 litlar kökur á diska, 1 á hvern disk. Skiptið berjarjómanum jafnt á kökurnar og setjið hinar 4 kökurnar ofan á og myndið þannig sætar samlokur. Skreytið með ferskum berjum og fallegum mintulaufum.  Gott er að láta kökurnar standa í kæli í hálftíma til klukkutíma. Ótrúlega einfalt og dásamlega gott!

Tilbreyting: sumir eru ekki hrifnir af rjóma eða af einhverjum ástæðum vilja nota eitthvað annað. Þá er tilvalið að nota gríska jógúrt í staðinn fyrir rjómann eða blanda jógúrt/sýrðum rjóma saman við rjómann. Þá verður rétturinn aðeins léttari.